Á þessum hluta Vinnuréttarvefs ASÍ er fjallað um stéttarfélög, hlutverk þeirra, skipulag og vernd. Fjallað er um innra starf og skipulag félaganna þar á meðal hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna. Jafnframt er fjallað um samskipti þeirra við atvinnurekendur, kjarasamninga, vinnudeilur, hlutverk ríkissáttasemjara og um félagsdóm. Reynt er að uppfæra vefhlutann með tilliti til nýrra dóma og lagasetningar efir því sem, tilefni gefst til. Það sama gildir um erlenda dóma en erlend réttarþróun á þessu sviði vinnuréttarins hefur að sjálfsögðu gildi hér á landi enda oft tekist á um grundvallar mannréttindi launafólks og verkalýðshreyfingar.
Til grundvallar vinnuréttar á almennum vinnumarkaði liggja lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sem á sínum tíma var afrakstur umfangsmikilla rannsókna og umræðu á Alþingi. Sérstök nefnd var skipuð 1936 og 1938 gefin út sérstök skýrsla „Álit vinnulöggjafarnefndar“ ásamt frumvarpi um stéttarfélög og vinnudeilur, gefin út af atvinnumálaráðuneytinu. Þessa skýrslu er ekki að finna á vef Alþingis en önnur lögskýringagögn sem fylgt hafa síðari breytingum er þar að finna. Lögin sjálf og hugmyndafræði þeirra hefur staðist tímans tönn, er mikilvægt lögskýringargagn og er því birt hér.
Hugtökin verkalýðsfélög og stéttarfélög eru notuð jöfnum höndum án þess að í því felist neinn efnislegur munur.
Á ári hverju er gerður mikill fjöldi kjarasamninga og á vef Ríkissáttasemjara – hér – má nálgast þá flesta.