Vinnuumhverfi vaktavinnufólks er að mörgu leyti frábrugðið vinnuumhverfi þeirra sem stunda dagvinnu. Sem dæmi má nefna að á kvöld- og næturvöktum er aðgengi að æðstu stjórnendum afar takmarkað og sama má segja um samskipti við aðra starfsmenn. Á móti kemur að sjálfstæði þeirra er gjarnan meira og oft hvílir mikil ábyrgð á þeim sem vinna utan hefðbundins dagvinnutíma.
Á vinnustöðum þar sem staðnar eru langar vaktir eins og t.d. 12 tíma vaktir ættu stjórnendur að bjóða starfsmönnum upp á aðstöðu til að hvíla sig. Rannsóknir sýna að hálfrar klukkustundar hvíld á löngum vöktum eykur starfsánægju og afköst starfsmanna.
Vinnutími vaktavinnufólks hefur ekki aðeins áhrif á líf og heilsu þeirra sjálfra því hann hefur einnig töluverð áhrif á fjölskyldu- og félagslíf viðkomandi. Það má því til sanns vegar færa að samþætting vinnu og einkalífs sé flóknari hjá þeim stunda vaktavinnu en þeim sem vinna eingöngu dagvinnu. Aðstæður starfsmanna eru mismunandi og taka jafnframt breytingum yfir starfsævina og ráðast m.a. af þáttum eins og fjölskyldustærð, búsetu og þörf fyrir félagslega virkni.
Þekking á áhrifum vaktavinnu og gott skipulag á vöktum eykur öryggi í starfi og minnkar líkur á heilsufarslegum vandamálum meðal starfsfólks. Það er hlutverk atvinnurekenda að stuðla að forvörnum sem í tilviki vaktavinnufólks geta falist í fræðslu um áhrif breytilegs vinnutíma á svefn og upplýsinga um hollt og heilsusamlegt mataræði.
Flestir starfsmenn sinna störfum sínum á daginn og fá frí frá vinnu á kvöldin og um helgar. Frítími vaktavinnufólks er aftur á móti breytilegur rétt eins og vinnutíminn og stangast gjarnan á við frítíma fjölskyldu og vina. Fyrir vikið á vaktavinnufólk oft erfiðara með að standa sig í hefðbundnum hlutverkum, t.d. sem foreldrar og makar, auk þess sem vinnan getur hamlað þátttöku í félagsstarfi ýmis konar. Það má því segja að óreglulegur frítími hafi ákveðin félagsleg áhrif en líkamlegu áhrifin eru ekki síður mikilvæg.
Líkamsklukkan
Rannsóknir hafa sýnt að margskonar líffræðileg starfsemi ræðst af sólahringssveiflum eða dægursveiflum og á þetta ekki síst við um svefn. Innri klukka mannslíkamans gengur eftir ákveðnu ferli og oft er erfitt að laga hana að breyttum aðstæðum. Talað er um röskun á dægursveiflu svefns þegar sofið er á öðrum tímum en venjulega og misræmis gætir í skilaboðum líkamans um svefn og svefnþörf. Þessi röskun getur valdið þreytu og skertri starfshæfni og leitt til vanlíðunar og annarra líkamlegra truflana.
Vaktavinna hefur oft í för með sér tíðar breytingar á vinnutíma sem aftur verður til þess að skerða svefn og hvíld. Sifja og þreyta hleðst upp í hverri vinnutörn og þar sem líkamsklukkan er 5-7 daga að endurstilla sig dugir stutt frí ekki til að ná þeirri hvíld sem líkaminn þarfnast. Í ljósi þessa er mikilvægt að skipuleggja vaktavinnu á þann hátt að hún trufli nætursvefn sem minnst. Því ber að forðast tíðar og ónauðsynlegar skiptingar milli dag-, kvöld- og næturvakta og best er að skipuleggja vinnuna í samræmi við líkamsklukkuna. Þá er átt við að fyrsta vakt í vaktahringnum sé morgunvakt, síðan taki við síðdegis/kvöldvakt og loks næturvakt og gott frí í kjölfarið.
Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem hafa stutta dægursveiflu og eru yfirleitt kvöldsvæfir og árrisulir eiga oft í erfiðleikum með síbreytilegan vinnutíma og vaktir. Þeir sem hafa langa dægursveiflu og geta auðveldlega vakað lengi á kvöldin og sofið fram eftir á morgnana ráða hins vegar betur við breytilegar vaktir og skiptingar á milli þeirra. (Júlíus K. Björnsson sálfræðingur, Áhrif vaktavinnu á heilsu, líðan og svefn: Hvaða áhrif hefur vinnufyrirkomulagið?)
Vinnutími vaktavinnufólks getur verið reglulegur eða óreglulegur og alls ekki sjálfgefið að hann komi niður á svefni og hvíld. Svefnraskanir eru þó mun algengari hjá vaktavinnufólki enda fær það að jafnaði styttri svefn en þeir sem eingöngu vinna dagvinnu. Algeng umkvörtunarefni vaktavinnufólks eru lélegur svefn, þreyta og einbeitingarskortur. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós að áfengissýki og notkun svefnlyfja er algengari meðal vaktavinnufólks auk þess sem það glímir oftar við meltingarvandamál og fleiri líkamlega kvilla s.s. hjarta- og æðasjúkdóma.
Rannsóknir sýna talsverðan einstaklingsmun í aðlögun að vaktavinnu eða síbreytilegum vinnutíma. Ljóst er að vinnuskipulagið sjálft skiptir hér mestu máli en aldur, kyn, persónuleikaþættir, lengd dægursveiflu, félagslegar aðstæður og viðhorf til (vakta)vinnunnar skipta einnig verulegu máli. Almennt virðist aðlögun að vaktavinnu verða erfiðari þegar fólk eldist og sérstaklega virðast erfiðleikarnir aukast þegar fólk er komið yfir fimmtugt. Jafnframt virðist skipta máli hversu lengi einstaklingurinn hefur unnið (breytilega) vaktavinnu þar sem menn virðast ekki venjast þessu fyrirkomulagi, heldur virðast erfiðleikarnir aukast eftir því sem lengur er unnið á þennan hátt. Rannsóknir hafa einnig sýnt að yfirleitt eiga konur erfiðara með að venjast vaktavinnu en karlar og þær finna til meiri svefntruflana og þreytu en þeir. Hugsanlega má rekja hluta þessa munar til lífeðlislegs mismunar karla og kvenna, en líklegast er þó að félagsleg staða og hlutverk kvenna í nútímasamfélagi ráði hér mestu um. Konur þurfa oftast að sinna heimili og börnum í mun meira mæli en karlar, þrátt fyrir fulla vinnu, og ná því ekki þeirri hvíld og svefni utan vinnutíma sem karlarnir fá.
Reynslan hefur sýnt að vaktavinna hentar verr þeim sem eru að eðlisfari kvíðnir og hafa tilhneigingu til að hafa áhyggjur. Hún hentar einnig verr þeim sem hafa neikvæð viðhorf til hennar og hún getur átt þátt í að valda depurð og kvíða.
Heilbrigðismat
Vaktavinnustarfsmenn sem vinna hluta vinnuskyldu sinnar að næturlagi eiga rétt á heilbrigðismati áður en ráðning fer fram og síðan reglulega á a.m.k. þriggja ára fresti.