VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Brot á öryggisreglum

Starfsfólki er skylt að nota þann öryggisbúnað, sem getið er um í kjarasamningum og reglugerðum, og skulu verkstjórar og trúnaðarmenn sjá um að hann sé notaður.

Í grein 6.3 í kjarasamningi VR og SA (2009) segir að noti starfsfólk ekki öryggisbúnað, sem því er lagður til á vinnustað, sé atvinnurekanda heimilt að vísa því fyrirvaralaust úr starfi, eftir að hafa aðvarað það skriflega. Skal trúnaðarmaður starfsfólks tafarlaust ganga úr skugga um að tilefni uppsagnar hafi verið fyrir hendi og honum gefinn kostur á að kynna sér alla málavexti. Sé hann ekki samþykkur tilefni uppsagnarinnar skal hann mótmæla uppsögninni skriflega og kemur þá fyrirvaralaus uppsögn eigi til framkvæmda.

Þá segir í þessari grein að brot á öryggisreglum, sem valda því að lífi og limum starfsmanna er stefnt í voða, skuli varða brottvikningu án undangenginna aðvarana, ef trúnaðarmaður og forsvarsmaður fyrirtækis eru sammála um það.

Jafnframt ber starfsmönnum að fara að þeim öryggisreglum sem ekki varða beint öryggi þeirra sjálfra heldur jafnframt öryggi þriðja aðila eins og t.d. á við um heilbrigðisreglur þar sem heilbrigði og velferð sjúklinga eða vistmanna o.fl. kann að vera hætt vegna farsótta og sýkinga. Skýrt fordæmi hér um er að finna í Lrd. nr. 186/2023 þar sem reyndi á skyldu skurðhjúkrunarfræðings til þess að taka Covid-próf áður en hún gekk til starfa sinna. Því neitaði hún og var launagreiðanda talið heimilt að rifta ráðningarsamningi hennar.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn