VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Lágmarksreglur

Lágmarksreglur um veikinda- og slysarétt launafólks er að jafnaði að finna í lögum. Við þann rétt er aukið með ákvæðum kjarasamninga.

Í ráðningarsamningum er einnig að finna reglur um veikinda- og slysarétt en þar ekki hægt að víkja frá lágmarksreglum laga og kjarasamninga. Slíkir samningar eru ógildir sbr. m.a. 7.gr. laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, 24.gr. laga 94/1986  og 10. gr. laga nr. 19/1979. Í ráðningarsamningum er því einungis hægt að semja um betri rétt en lög og kjarasamningar kveða á um.

Landverkafólk

Lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla fjalla um lágmarksréttindi almenns landverkafólks.

Í öllum aðalkjarasamningum á almennum vinnumarkaði eru síðan ákvæði um veikinda- og slysarétt sem eru oft í grunninn efnislega samhljóða ákvæðum laga nr. 19/1979. Í kjarasamningunum hefur síðan verið samið um betri veikindarétt en lögin kveða á um. Ekki skiptir máli varðandi þessi réttindi hvort starfsmenn eru félagar í stéttarfélagi eða atvinnurekendur í samtökum atvinnurekenda því samkvæmt ákvæðum starfskjaralaga nr. 55/1980 ákvarða kjarasamningar lágmarkskjör allra þeirra sem vinna tiltekin störf á því svæði sem kjarasamningur nær til.

Sjómenn

Í 36.gr. sjómannalaga nr. 35/1985 er fjallað um réttindi sjómanna.

Þar segir: 

Ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Skipverji, sem forfallast vegna veikinda, á þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hefur verið í þjónustu útgerðarmanns.

Hafi skipverji verið ráðinn á sama skip eða hjá sama útgerðarmanni í tvö ár samfellt skal hann, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda föstu kaupi, kauptryggingu eða sérlega umsömdu veikindakaupi í allt að einn mánuð en í allt að tvo mánuði eftir fjögurra ára samfellda ráðningu hjá sama útgerðarmanni.

Skipverji, sem forfallast frá vinnu vegna slysa við vinnu, á leið til eða frá vinnu eða vegna atvinnusjúkdóma sem stafa af vinnunni skal fá greitt fast kaup, kauptryggingu eða sérlega umsamið veikindakaup í allt að þrjá mánuði til viðbótar greiðslum samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr.

Skipverji á ekki rétt á kaupi þann tíma, sem hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna störf sín af hendi, né fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína. Sama gildir ef skipverji er ekki starfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur sjálfur bakað sér af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

Nú vill skipverji neyta réttar síns samkvæmt 1., 2. og 3. mgr. og skal hann þá, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis um veikindin eða slysið er sýni að hann hafi verið óvinnufær vegna veikindanna eða slyssins.

Opinberir starfsmenn

Um veikinda- og slysarétt félagsmanna þeirra stéttarfélaga starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem semja skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna (opinberu félögin) fer skv. viðkomandi kjarasamningum. 

Um starfsmenn ríkisins sérstaklega segir í 12. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að starfsmenn ríkisins eigi rétt til launa í veikindaforföllum eftir því sem fyrir er mælt í lögum og eftir atvikum, ákveðið eða um samið er um með sama hætti og laun.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn