VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Bótatímabil

Samkvæmt VI. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er bótatímabilið þrjú ár. Það þýðir að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í alls þrjú ár.

Það fer eftir atvikum hjá hverjum og einum hvort þetta 3 ára bótatímabil reynist vera samfellt tímabil eða hvort það skiptist niður í styttri tímabil með þeim áhrifum að viðkomandi tæmir rétt sinn samkvæmt lögunum yfir lengra tímabil. 

Samkvæmt eldri lögum var bótatímabilið fimm ár. Stytting bótatímabilsins var byggð á tillögum nefndar aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem sömdu frumvarp til gildandi laga um atvinnuleysistryggingar.

Þar segir m.a.:  „Nefndin leggur […] til að lengd þess tíma sem einstaklingur getur verið samfellt á atvinnuleysisbótum verði styttur úr fimm árum í þrjú ár. Telur nefndin mikilvægt að fólk sem hefur verið án atvinnu samfellt í þrjú ár geti engu síður átt áfram rétt á áframhaldandi þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum samhliða þjónustu heilbrigðis- eða félagslega kerfisins enda þótt það teljist ekki vera í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistrygginga. Getur það hugsanlega átt þá rétt úr öðrum greiðslukerfum sér og sínum til framfærslu, svo sem fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eða endurhæfingarlífeyri almannatrygginga.“

Bótatímabil hefst

Bótatímabil hefst fyrsta daginn sem umsækjandi fær greitt atvinnuleysisbætur fyrir eða hefði átt að fá greitt fyrir hefði hann ekki þurft að sæta ákvörðun um biðtíma eftir bótum eða öðrum viðurlögum. Það tímabil sem hlutaðeigandi fær greiddar bætur eða sætir biðtíma (s.s. vegna uppsagnar starfs án gildra ástæðna) eða öðrum viðurlögum telst til bótatímabils. Þau tímabil sem atvinnuleitandi tekur þátt í vinnumarkaðsaðgerðum, svo sem námskeiðum og starfsþjálfun, teljast jafnframt til bótatímabils og er hlutaðeigandi ekki að ávinna sér rétt til breytinga á bótafjárhæð eða ávinnslu nýs bótatímabils á meðan. Hið sama gildir um ýmis átaksverkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Tímabil sem eru flokkuð sem bótatímabil

Tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar 

Sá tími sem hinn tryggði fær greiddar atvinnuleysisbætur er eðli máls samkvæmt meginhluti bótatímabils hans.

Hlutabætur

Sá tími þegar hinn tryggði fær greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, sbr. 17. gr. (launamaður) eða 22. gr. (sjálfstætt starfandi einstaklingur) telst einnig hluti bótatímabils.

Bótahlutfallið skiptir ekki máli og eru dagarnir því taldir út á sama hátt hvort sem um hinn tryggði fær greiddar fullar atvinnuleysisbætur eða hlutabætur.

Biðtími eftir bótum vegna viðurlaga 

Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla laganna telst hluti bótatímabils, þ.e. þó engar atvinnuleysisbætur séu greiddar. Hér er átt við ákvörðun um missi bótaréttar í 40 bótadaga (eða 60 daga vegna ítrekunar) vegna uppsagnar starfs án gildra ástæðna, höfnunar starfs eða starfstilboðs o.s.frv.

Tímabil sem eru ekki flokkuð sem hluti bótatímabils

Starfstímabil

Sá tími sem hinn tryggði starfar á vinnumarkaði eftir að bótatímabil hefst telst ekki hluti tímabilsins. 
Ekki skiptir máli hvort um fullt starf er að ræða eða hlutastarf. Fái hinn tryggði hins vegar greiddar hlutabætur með hlutastarfinu þá telst sá tími sem hann fær greiddar hlutabæturnar til bótatímabils hans samkvæmt framansögðu.

Geymdur bótaréttur 

Sá tími sem atvinnuleysistryggingar geymast skv. V. kafla (nám, veikindi, o.fl.) telst ekki til bótatímabils enda fær hinn tryggði ekki greiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma.

Hinn tryggði verður að gæta þess að tilkynna vinnumiðlun um að hann sé hættur atvinnuleit vegna einhverra þeirra atvika sem nefnd eru í V. kafla. Um þessa tilkynningu er fjallað í 10. gr. Þar er sú skylda lögð á þann sem tryggður er að tilkynna vinnumiðlun skriflega án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit.

Láti hinn tryggði undir höfuð leggjast að tilkynna vinnumiðlun um að hann sé hættur atvinnuleit og fær áfram greiddar atvinnuleysisbætur getur komið til þess að hann verði krafinn um endurgreiðslu þeirra skv. 59. gr.

Starfstímabil skemmra en 24 mánuðir

Bótatímabilið heldur áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Nýtt 3 ára bótatímabil

Í 31. gr. laganna kemur fram sú regla að sá sem telst tryggður og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í þrjú ár geti áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta að nýju að liðnum 24 mánuðum enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum.

Ekki skiptir máli hvort hinn tryggði hefur verið í fullu starfi eða hlutastarfi á þessu 6 mánaða tímabili eða hvort um samfellda ráðningu í þann tíma hafi verið að ræða.  Að þessum skilyrðum fullnægðum hefst nýtt 3 ára bótatímabil.

Hér er um nýmæli að ræða miðað fyrri lög um atvinnuleysistryggingar. Þessi breyting er skýrð í skýrslu nefndar aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á eftirfarandi hátt:

„Það hefur sætt gagnrýni að umsækjandi um atvinnuleysisbætur þurfi að ljúka við fyrra tímabil áður en nýtt getur hafist óháð atvinnuþátttöku hlutaðeiganda. Dæmi hefur verið nefnt þegar einstaklingur hefur verið 4½ ár á bótum en fær þá vinnu sem hann heldur í tíu ár. Fyrirtækið verður gjaldþrota, hann missir vinnuna og samdráttur er á vinnumarkaði. Þá á þessi einstaklingur einungis sex mánuði eftir af eldra bótatímabili. Eftir að þeim lýkur verður hann að vera í starfi í sex mánuði á tólf mánuðum til að öðlast réttinn aftur. Nefndin tekur undir þessa gagnrýni og telur eðlilegra að nýtt bótatímabil geti hafist eftir að einstaklingur hefur starfað í tiltekinn tíma á vinnumarkaði. Leggur nefndin því til að nýtt bótatímabil geti hafist eftir að einstaklingur hefur verið í starfi samfellt í a.m.k. 24 mánuði í tryggingagjaldsskyldri vinnu þegar hann missir vinnu sína aftur. Hins vegar þegar fólk fer út úr kerfinu í skemmri tíma en 24 mánuði er það áfram á sama bótatímabili þegar það kemur aftur inn í kerfið.“

Nánar um fyrirkomulagið

Starfshlutfall í nýja starfinu

Starfshlutfall í starfi hins tryggða á þessu 24 mánaða tímabili þarf að vera a.m.k. 25% í hverjum mánuði í a.m.k. 6 mánuði. 
Það nægir m.ö.o. að hann sé í 25% starfi í þrjá mánuði eins og gildir í upphafi upphaflegs bótatímabils.

Starfslok án gildra ástæðna

Sá möguleiki að endurnýja rétt til 3 ára bótatímabils gildir ekki ef hinn tryggði hefur sjálfur án gildra ástæðna sagt starfi sínu lausu á þessu 24 mánaða tímabili.

Til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta yrði hann þá að ráða sig í nýtt starf og tryggja að starfslok í því starfi beri að með eðlilegum hætti í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

36 mánuðir án atvinnu

Ef einstaklingur hefur verið án atvinnu lengur en þrjú ár telst hann ekki í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Hann er m.ö.o. búinn að vera það lengi frá vinnumarkaði að ákvæði laganna um geymdan bótarétt nýtast honum ekki. Hann á engu að síður rétt á aðstoð vinnumiðlunar.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn