VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Hverja bindur kjarasamningur

Erga omnes eða algildi kjarasamninga

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda njóta allir launamenn í viðkomandi starfsgrein á samningssvæðinu þeirra lágmarkskjara sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um. Ekki skiptir máli hvort launamenn eru félagsmenn stéttarfélagsins eða ekki, þeir eiga á grundvelli þessa ákvæðis rétt til lágmarkskjara kjarasamninga.  
Atvinnurekendur eru með sama hætti bundnir af þessu ákvæði og geta ekki með því einu að tilheyra ekki félagi eða sambandi vinnuveitenda, komið sér undan skyldum samkvæmt kjarasamningum. Með þessu ákvæði má segja að kjarasamningar hafi verið gerðir algildir eða hafi með öðrum orðum ergo omnes áhrif. 

Erga omnes áhrif kjarasamninga hér á landi hefur ekki verið dregið í efa fyrir dómstólum. Í fræðunum hefur því verið haldið fram, að slík ákvæði kunni að vera andstæð 36.gr. EES samningsins sem fjallar um frjáls þjónustuviðskipti. Á þetta reyndi fyrir Hæstarétti Noregs í málinu HR-2013-0496-A frá 5. mars 2013. Í málinu var tekist á um það hvort Noregi væri heimilt að gera tiltekna hluta kjarasamninga ( dvalar, ferðakostnað o.fl. ) algilda í norskum olíuiðnaði. Væri það gert færi það gegn tilskipun um útsenda starfsmenn nr. 96/71 EC og væri andstætt frjálsum þjónustuviðskiptum á EES svæðinu skv. 36.gr. EES samningsins. EFTA dómstóllinn túlkaði tilskipunina mjög þröngt í dómi sínum í málinu nr. E-2/11 og gaf norska dómstólnum það ráðgefandi álit að slík ákvæði væru ólögmæt nema þau væri hægt að réttlæta í þágu almannahagsmuna. Hæstiréttur Noregs tók með vel rökstuddum hætti ekki tillit til hinnar ráðgefandi niðurstöðu EFTA dómstólsins og taldi ekki einsýnt að vega ætti þjónustufrelsið með þeim hætti sem EFTA dómstóllinn gerði eftir fyrirmynd ESB dómstólsins. Af niðurstöðu EFTA dómstólsins má draga þá niðurstöðu að það standist EES samninginn sem slíkan að kjarasamningar hafi ergo omnes áhrif. Af dómi Hæstaréttar Noregs má draga þá ályktun að aðildarríki EES samningsins mega og eiga að taka sjálfstæða og rökstudda afstöðu til ráðgjafar EFTA dómstólsins. Miðað við þá niðurstöðu verður ekki séð að nein helstu ákvæði kjarasamninga um laun og önnur starfskjör standist ekki gagnvart EES réttinum.

1.gr. laga nr. 55/1980 svarar því ekki hvernig með skuli fara ef tvö stéttarfélög eru með kjarasamning um sömu störf við sama atvinnurekanda eða í sömu starfsgrein á því svæði sem samningurinn tekur til. Þegar þetta ákvæði kom fyrst í lög með lögum nr. 9/1974 var starfsumhverfi stéttarfélaga og atvinnurekenda um margt gerólíkt því sem nú er. Annars vegar voru sveitarfélög á landinu mjög mörg eða 224 en eru nú 64 (01 2024)  og stéttarfélög innan ASÍ á almennum vinnumarkaði bundin þeim að sama skapi mjög mörg eða 217 en eru nú 54 (01 2024). Skv. lögum nr. 80/1938 skulu starfssvæði stéttarfélaga miðast við heil sveitarfélög og því ljóst að mörk bæði félags- og starfssvæða félaganna hafa mikið breyst og geta víða skarst þó unnið hafi verið gegn því með sameiningu félaga og reglum um samstarfssamninga aðildarfélaga ASÍ við skörun svæða. Hins vegar hefur á sama tíma orðið mikil samþjöppun í íslensku atvinnulífi og fjölmörg fyrirtæki með landið allt undir í starfsemi sinni, ólíkt því sem áður var.

Þó ekki hafi komið til áberandi ágreinings hér á landi milli stéttarfélaga eða milli þeirra og atvinnurekenda hér um er ekki útilokað að svo geti orðið. Ein ástæða þess er að íslensk verkalýðshreyfing er vel skipulögð og aðild að þeim há. Svo er ekki allstaðar og víða erlendis hafa verið settar reglur þess efnis að kjarasamningar félaga með flesta félagsmenn hjá atvinnurekanda skuli hafa forgang fram fyrir kjarasamninga þeirra sem færri hafa. Samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar – ILO, eru ekki taldar koma í veg fyrir slíkar reglur en á slíkar reglur reyndi í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu nr. 815/18 sem kveðinn var upp 5.7 2022. Í Þýskalandi höfðu verið sett lög sem tryggðu kjarasamningum fjölmennustu (the most representative) stéttarfélaga forgang fram fyrir kjarasamninga þeirra minni. Í lögunum var þó réttarstaða minni stéttarfélaganna varin að mörgu leyti m.a. þannig að verkfallsréttur þeirra var ekki skertur né réttur þeirra til þess að gæta hagsmuna félagsmanna sinna.  Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöður að þessar reglur stæðust 1.mgr. 11 gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.  

Nýir félagsmenn

Þar sem stéttarfélagsaðild er ekki skilyrði fyrir því að njóta lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningi, eiga nýir félagsmenn rétt á lágmarkskjörum eins og þeir sem lengur hafa verið í félaginu og með sama hætti og þeir sem ekki hafa gerst aðilar að félaginu.

Víðast erlendis eru takmörk á því að kjarasamningur nái til annarra en félagsmanna viðkomandi stéttarfélags. Stéttarfélagsaðild fylgja þá hugsanlega ýmis kjaraleg forréttindi. Hér á landi hefur stefnan verið sú að aðilar vinnumarkaðarins hafa með samningum sínum tryggt öllum launamönnum rétt með samningum, enda greiða allir iðgjöld til stéttarfélaganna. Kjarasamningar tryggja þannig öllum sama rétt óháð því hvort þeir eru félagar í stéttarfélagi eða ekki.

Verkstjórar

Réttarstaða verkstjóra er eins konar sambland af réttarstöðu atvinnurekanda og launamanns. Sem verkstjóri hefur hann trúnaðarskyldum að gegna gagnvart atvinnurekanda, kemur fram fyrir hans hönd gagnvart starfsmönnum og hefur stöðuumboð til ýmissa ráðstafana. Á móti eru skyldur hans gagnvart atvinnurekanda að ýmsu leyti meiri en annarra starfsmanna. Kemur þetta einkum fram í vinnudeilum, þar sem hömlur eru á að verkstjórar geri verkfall.

Verkstjórar hér á landi hafa sín eigin stéttarfélög. Verkstjórasamband Íslands fer með samningsrétt einstakra verkstjórafélaga. Í þeim samningum er að finna öll almenn ákvæði sem er að finna í öðrum samningum. Auk þess er þar að finna ákvæði um að verkstjóra beri að skoða sem sérstakan trúnaðarmann viðkomandi vinnuveitanda gagnvart starfsmönnum hans, sem verkstjórar stjórna fyrir hönd vinnuveitanda.  

Á verkstjóra hvílir alger þagnarskylda um öll málefni vinnuveitanda síns, sem hann fær vitneskju um vegna verkstjórastöðu sinnar og vinnuveitendur skuldbinda sig til að standa við hlið verkstjóra þeim til verndar í sambandi við verkstjórastöðu þeirra til að forða því að verkstjórar verði fyrir óþægindum eða skaða sakir þess að þeir framkvæma skylduverk sín þannig að í samræmi sé við stöðu þeirra sem trúnaðarmenn vinnuveitenda sinna. 

Í kjarasamningum þeirra er einnig að finna ákvæði um að eigi skuli verkföll eða verkbönn ein út af fyrir sig skerða rétt verkstjóra til þess að fá kaup hjá vinnuveitanda, enda er honum eftir sem áður skylt að gæta þess verðmætis, sem honum er trúað fyrir og hefur umsjón með og verja það skemmdum. Verkstjórar túlka þetta ákvæði svo að það taki til verkfalla verkafólks á vinnustað, en skerði ekki verkfallsrétt þeirra sjálfra samkvæmt lögum og kjarasamningum. Á þetta atriði hefur þó ekki reynt fyrir dómi.

Í kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Verkstjórasambands Íslands vegna Verkstjórafélags Reykjavíkur, grein 13.1, segir að enginn einstakur félagi né deildarfélagi í verkstjórasamtökunum sem er í fastri verkstjórastöðu, megi vera meðlimur í verkalýðsfélagi né á nokkurn hátt samningsbundinn við verkalýðsfélag. Sama gildir um Verkstjórasambandið sem heild og einstakar deildir þess. Sams konar ákvæði er í kjarasamningi Verkstjórasambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Sjá nánar.

Meðeigendur

Kjarasamningar eru samningar gerðir milli stéttarfélags og atvinnurekenda, og er ætlað að tryggja lágmarkskjör launafólks, ekki einungis félagsmanna viðkomandi stéttarfélags, heldur allra þeirra sem vinna störf á því starfssviði sem stéttarfélagið nær til.

Oftast er það alveg skýrt hverjir hafa réttarstöðu launamanna innan fyrirtækis og hverjir hafa réttarstöðu atvinnurekenda. Þó geta orðið um það deilur, hvort starfsmönnum, sem jafnframt eru hluthafar í fyrirtæki, beri að láta af störfum í vinnudeilu, þar sem þeirra kjör séu tryggð með þeim kjarasamningi sem verið er að deila um.  

Sú regla gildir um vinnudeilu að bann við vinnu nær ekki einungis til félagsmanna þess félags sem á í deilunni, heldur einnig til þeirra launamanna, sem byggja kjör sín á þeim kjarasamningi sem um er deilt. Ljóst má vera að starfsmaður í stóru fyrirtæki sem jafnframt er almenningshlutafélag hefur ekki réttarstöðu atvinnurekanda, jafnvel þótt hann eigi hlutabréf í félaginu. Einnig má ljóst vera að í fyrirtæki sem rekið er sem hlutafélag að aðaleigandi fyrirtækis sem þar starfar í stjórnunarstarfi myndi hafa réttarstöðu atvinnurekanda.

Hvar eru þá mörkin hér á milli? Rekstrarform fyrirtækis skiptir hér máli. Í fyrirtæki, sem rekið er sem einkafyrirtæki eða sameignarfélag og eigendur eru starfandi hjá því hefðu þeir almennt séð réttarstöðu atvinnurekenda. Öðru máli gegnir um hlutafélög. Hlutafjáreign starfsmanns ein og sér veitir ekki hluthafanum stöðu vinnuveitanda.

Í Félagsdómi 6/1973 (VII:112) setti dómurinn fram það sjónarmið að þótt starfsmaður sé hluthafi í fyrirtæki væri það ekki á nokkurn hátt því til hindrunar að hann hefði full félagsréttindi í stéttarfélagi. Ekki var upplýst hversu stóran hlut maðurinn átti í félaginu, en hann vann þar almenn iðnaðarmannastörf.

Í Félagsdómi 4/1987 (IX:182) var um það deilt hvort starfsmenn verkfræðistofu ættu að leggja niður störf í verkfalli. Starfsmennirnir voru allir hluthafar stofunnar og sumir félagsmenn í því félagi sem tengdist kjarasamningsgerðinni atvinnurekendamegin, en voru ekki félagsmenn stéttarfélagsins sem boðað hafði verkfall. Stéttarfélagið lagði á það ríka áherslu að mennirnir hefðu réttarstöðu launamanna, og kjör þeirra byggðust á þeim kjarasamningi sem um var deilt, þótt þeir ættu jafnframt hlut í stofunni. Í niðurstöðu dómsins sagði meðal annars að verkfall stéttarfélagsins beindist að viðsemjanda þess, fulltrúaráði Félags ráðgjafarverkfræðinga. Eins og aðild félagsmanna í Félagi ráðgjafarverkfræðinga að fulltrúaráði félagsins væri háttað, yrði að telja óeðlilegt að gera félagsmönnum þess félags skylt að taka þátt í verkfalli Stéttarfélags verkfræðinga. Hins vegar yrði ekki fallist á að allir hluthafar stofunnar ynnu verkfræðistörf í löglega boðuðu verkfalli stéttarfélagsins, þar sem hlutafjáreign ein og sér yrði ekki talin veita hluthafanum stöðu vinnuveitanda.

Úrsögn úr stéttarfélagi

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir að meðlimur stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, eru skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn.  

Samkvæmt þessu ákvæði hefur úrsögn úr stéttarfélagi engin áhrif á það hvort ákvæði kjarasamnings gilda um kjör starfsmanns. Hann er bundinn af samningnum meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um. Þannig er það starfssviðið sem hér skiptir máli. Þetta er einnig staðfest enn frekar í reglu 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þar sem kveðið er á um að kjarasamningar skuli vera lágmarkskjör fyrir alla í starfsgreininni.

Þess má geta að í samþykktum einstakra stéttarfélaga eru lagðar hömlur á það að menn geti gengið úr félaginu þegar kjaradeilur standa yfir. Ákvæðið er á þá leið að enginn getur sagt sig úr félagi eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun verið tekin af félaginu eða trúnaðarmannaráði og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi, er lagt hefur niður vinnu vegna deilu.

Sjá hér Félagsdóm 2/2004, Starfsmannafélag ríkisstofnana gegn Íslenska ríkinu og Eflingu-stéttarfélagi. 

Aðilaskipti að fyrirtækjum

Svokölluð aðilaskipti að fyrirtækjum eða hluta þeirra hafa ein og sér engin áhrif á gildissvið kjarasamninga starfsmanna fyrirtækjanna. 

Með lögum nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum er kveðið á um það í 2. mgr. 3. gr. að frá og með þeim degi, sem aðilaskipti verði skuli nýr eigandi takast á hendur réttindi og skyldur fyrri eigenda samkvæmt ráðningarsamningi. Hann skuli virða þau launakjör og starfsskilyrði sem samþykkt hafa verið í almennum kjarasamningi með sömu skilmálum og giltu fyrir fyrri eiganda þar til samningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Lögin ná til aðilaskipta eða samruna fyrirtækja, atvinnurekstrar eða hluta atvinnurekstrar. Þau gilda þó ekki eftir að bú fyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta.

Lögin tryggja ekki aðeins réttarstöðu starfsmanna, heldur er einnig sérstaklega kveðið á um réttarstöðu trúnaðarmanna. Þegar aðilaskipti verða skal trúnaðarmaður halda réttarstöðu sinni og starfi samkvæmt lögum og samningum að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heldur sjálfstæði sínu. Ef trúnaðarmaður missir umboð sitt vegna aðilaskiptanna skal hann eftir sem áður njóta þeirrar verndar sem lög eða samningar kveða á um.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn