Slys á beinni leið til vinnu og frá vinnu skapa sama greiðslurétt í forföllum frá vinnu og á við um almenn slys við vinnu þ.e. veikindarétt og 3 mánuði á dagvinnulaunum að auki vegna hvers slyss. Sjá nánar kaflann „Almenn vinnuslys„.
Með beinni leið til vinnu er átt við eðlilega leið. Starfsmaður sem þarf að stoppa á leikskóla til þess að sækja eða skila af sér börnum telst vera á beinni leið þrátt fyrir stoppið. Starfsmaður sem hins vegar fer eftir vinnu í heimsókn til vinar telst vera á beinni leið frá vinnu og til vinarins en ekki á leiðinni frá vininum og heim. Starfsmaður sem skreppur í sund á leið til vinnu telst vera á beinni leið til vinnu frá sundlauginni og í vinnuna. Sem dæmi má taka HRD 388/2016 en þar var deilt um hvort stopp á bensínstöð að leið heim úr vinnu væri eðlilegur þáttur í akstri bifreiðarinnar frá vinnustað að heimili en að þeirri niðurstöðu komst rétturinn. Jafnframt má í þessu efni vísa til HRD 434/2017 en í niðurstöðu héraðsdóms sem staðfest var í Hæstarétti kemur fram að ekki sé skylt að velja stystu leið en öllu fremur skipti máli að um sé að ræða þær „umferðaræðar“ sem almennt séu notaðar. Í þessum sama dómi var í héraði einnig tekist á um hvar væri „heimili“ launamanns og komast rétturinn að þeirri niðurstöðu að raunverulegt aðsetur réði en ekki lögheimili væri það annað. Í dómi Hæstaréttar nr. 11/2023 var tekist á um það hvort starfsmaður sem hljóp til og frá vinnu hefði verið á „beinni leið“ eða ekki en hann kaus að hlaupa á göngu- og hlaupastígum fremur en gangstéttum umferðargatna. Hann var talinn hafa verið á eðlilegri leið.
Tilvikin kunna þannig að vera af ýmsum toga og rísi ágreiningur er rétt að snúa sér til síns stéttarfélags eins og raunar alltaf á að gera í tengslum við slys.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-4229/2011 var tekist á um það hvort greiðsluréttur vegna slysa sem verða á leið til eða frá vinnu á uppsagnarfresti takmarkist við það sem eftir lifir uppsagnarfrests en atvinnurekandi (SA fyrir hans hönd) taldi að svo væri. Á þá kröfu var ekki fallist. Sjá einnig „Tengsl uppsagnar og slysaréttar„.
Atvinnurekendum ber að kaupa atvinnuslysatryggingu fyrir starfsmenn sína samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Tryggingin gildir að jafnaði vegna slysa á vinnustað og á beinni leið til eða frá vinnu. Örorkubætur eru greiddar vegna varanlegrar örorku sem reiknuð er í prósentustigum. Dagpeningar eru greiddir vegna tímabundinnar örorku og dánarbætur vegna andláts launamanns. Sjá nánar um þessar tryggingar í kaflanum „Almenn vinnuslys„.