VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Launahugtakið

Skilgreining á hugtakinu laun er ekki eins í öllum tilvikum. Hugtakið er afstætt og ræðst af samhengi hverju sinni hvað fellur undir það. Laun í skilningi kjarasamninga eru endurgjald fyrir vinnu í hvaða formi sem greitt er.

Greiðsla vegna kostnaðarliða þ.e. endurgreiðsla útlagðs kostnaðar í þágu launagreiðanda telst hins vegar ekki til launa.

Í lögum um greiðslu verkkaups nr. 28/1930 segir að verkkaup skuli greitt með gjaldgengum peningum og megi ekki greiða kaupið með skuldajöfnuði nema svo hafi áður verið sérstaklega um samið. Sjá nánar: Greiðsla launa og Skuldajöfnuður

Laun sem menn eiga rétt á að fá greidd fyrir vinnu sína samkvæmt bindandi kjarasamningi eða ráðningarsamningi teljast eign þeirra í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Um eignarrétt manna til launa, sem enn hefur ekki verið unnið fyrir, var deilt í svokölluðu BHMR máli, Hrd. nr. 129/1991. Í dómsniðurstöðu héraðsdóms sagði að laun, sem ekki hefur verið unnið fyrir en samið um, séu kröfuréttindi, þó því skilyrði bundin að sjálfsögðu að vinna skuli koma á móti launagreiðslum. Þessi réttindi verði að telja að njóti verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar (nú 72. gr.) eins og þau laun sem unnið hefur verið fyrir. Í þessum dómi var þó talið að löggjafanum hefði verið heimilt með lagasetningu að skerða samningsbundin laun án þess að bætur kæmu fyrir. Þau skilyrði sem þyrftu að vera til staðar væru þau að skerðingin væri almenn, ekki úr hófi, ekki væri um beina tilfærslu verðmæta frá einum aðila til annars að ræða, gild rök væru færð fram fyrir nauðsyn skerðingarinnar og að þeir hagsmunir sem ætlunin væri að vernda hefðu mun meira vægi en hagsmunir þeirra sem löggjöfin beindist að.

Aflahæfi manna eða geta þeirra til þess að afla sér tekna, þ.m.t. launa er undirstaða lífsafkomu einstaklinga og nýtur einnig verndar sem eign. Ef það aflahæfi skerðist t.d. í bótaskyldu vinnuslysi, eignast launamaður kröfu á hinn bótaskylda sem nemur þeirri skerðingu sem hann hefur orðið fyrir á aflahæfi sínu eða starfsgetu. Í Hrd. nr. 317/1997 er um vernd aflahæfis fjallað og þar segir „… í aflahæfi manns eru fólgin eignaréttindi, sem njóta verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, áður 67.gr. en nú 72.gr. …“ 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn