VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Brot atvinnurekanda

Með sama hætti og atvinnurekanda eru heimiluð tiltekin úrræði vegna vanefnda á ráðningarsamningi getur starfsmaður gripið til ákveðinna ráðstafana og jafnvel rift ráðningarsamningi vegna verulegra brota atvinnurekanda. Verður að meta það hverju sinni hvort um vanefndir á ráðningarsamningi er að ræða og í ljósi þess til hvaða úrræða starfsmaður getur gripið.

Réttur til að efna ekki vinnusamning samkvæmt efni sínu

Undir ákveðnum kringumstæðum er starfsmanni talið heimilt að efna ekki meginskyldur samkvæmt ráðningarsamningi vegna vanefnda atvinnurekanda. Er það ef veruleg vanefnd verður og launagreiðslur berast ekki og ef öryggismálum er svo háttað að starfsmanni stafi hætta af. Sjá t.d. grein 7.3.4. í kjarasamningi Starfsgreinasambandsins. Eru þessar heimildir tengdar tilteknum vanefndum sem ætla má að séu tímabundnar. Að því loknu ber starfsmanni að efna skyldur sínar að nýju. Sé ekki bætt úr vanefndum getur orðið um verulega vanefnd að ræða og getur gróft brot þá leitt til þess að starfsmaður á rétt á að rifta ráðningarsamningi sínum.

Gróft brot, réttur til að hverfa úr starfi

Sé vanefnd atvinnurekanda veruleg að mati dóms, svo sem veruleg vanefnd á launagreiðslum, atvinnurekandi beitir starfsmann líkamlegu ofbeldi, atvinnurekandi breytir starfssviði starfsmanns þvert á ráðningarsamning hans eða yfirmaður sýnir óforsvaranlega hegðun, til dæmis kynferðislega áreitni, getur starfsmanni verið heimilt að lýsa sig óbundinn af vinnusamningi einhliða, hverfa úr starfi. Starfsmaður þarf þá að sýna fram á brot atvinnurekanda. Sjá Hrd. 1995:1293.

Í 24. gr. hjúalaga er talið upp hvenær hjúi er heimilt að ganga fyrirvaralaust úr vist. Það getur gerst þegar hjú sannar að húsbóndi hefur gerst sekur um alvarlegt brot á skyldum sínum gagnvart því, svo sem ef hann 1) misþyrmir hjúinu, 2) leitast við að tæla hjúið til illverka eða lauslætis, eða ef aðrir heimilismenn gera sig bera að slíku og húsbóndi veitir ekki hjúinu tilhlýðilega vernd þótt það beri sig upp undan því við hann, 3) lætur hjúið að staðaldri búa við illa og ónóga fæðu, óforsvaranlega aðhlynningu eða heilsuspillandi húsnæði, 4) meiðir freklega mannorð hjúsins eða ber því á brýn glæpi sem það er saklaust af, 5) geldur hjúi ekki kaup í ákveðinn tíma þótt krafist sé, 6) stofnar ranglega og að nauðsynjalausu lífi eða heilsu hjúsins í hættu. Þótt telja verði að ákvæði hjúalaga séu að mestu úrelt hefur verið lögjafnað frá þeim þegar kemur að reglum um bætur og reglur um brot eru grundvöllur bótareglnanna svo ekki er fráleitt að hafa þær til hliðsjónar í þessu samhengi.

Hrd. nr. 153/2001. Sú staðreynd að ekki varð af endurskoðun launakjara starfsmanns var ekki talin slík vanefnd af hálfu atvinnurekanda samkvæmt reglum vinnuréttar, sbr. og 24. gr. hjúalaga nr. 22/1928, að réttlætti fyrirvaralausa riftun starfsmanns á vinnusamningi og var hann með þessu talinn hafa fyrirgert rétti til þeirra launa í uppsagnarfresti, sem hann krafði um.

Hrd. nr. 233/2003.  Vanefnd atvinnurekanda á greiðslu launa þótti, eins og á stóð, ekki þess eðlis að hún hafi heimilað starfsmanni að slíta vinnusamningi þeirra fyrirvaralaust.

Í Hrd. nr. 41/2009 var fjallað um mál S sem starfaði sem framkvæmdastjóri hjá K ehf. Í málinu krafði hún félagið um laun í 6 mánaða uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi. Byggði S á því í málinu að með því að verulegar breytingar hefðu verið gerðar á starfi hennar hefði félagið í raun einhliða rift starfssamningi hennar og framkvæmdastjórastaða hennar verið lögð niður. Breytingar á starfsviði hennar hafi verið verulegar og niðurlægjandi og hafi henni verið heimilt að neita að undirgangast þær og því ekki verið skylt að vinna í uppsagnarfresti. K ehf. hélt því hins vegar fram að S hefði látið af störfum af sjálfsdáðum og ætti því ekki rétt á launum í uppsagnarfresti. Talið var að breytingar á starfi S hefðu verið framkvæmdar með fulltingi hennar en ekki yrði séð að hún hefði mótmælt þeim sérstaklega fyrr en rétt áður en hún lét af störfum. Niðurstaðan var því sú að S hefði látið af störfum að eigin ósk fyrirvaralaust og ekki unnið út uppsagnarfresti. Var K ehf. sýknað af kröfu S.

Aðvörun og tilkynning

Svipuð sjónarmið gilda um tilkynningar starfsmanna til atvinnurekenda þegar þeir hyggjast ganga úr starfi og þegar atvinnurekendur hyggjast reka starfsmenn. Kemur þetta fram í Hrd. 1978:1247 en þar hætti starfsmaður fyrirvaralaust starfi þar sem laun voru ekki greidd á gjalddaga eða með gjaldgengum peningum. Undirréttur tekur fram að starfsmaður hafi ekki tilkynnt atvinnurekanda að hann myndi hætta eða vildi hætta vegna vanefnda á kaupgreiðslum og gaf starfsmaður því atvinnurekanda ekki kost á að sjá um að vanefndir á kaupgreiðslum endurtækju sig ekki. Sjá hér Hrd. 1995:1293.

Efndir in natura

Enginn verður dæmur í starf sitt aftur. Samkvæmt því sem telja má grundvallarreglu íslensks réttar er atvinnurekanda ekki skylt að taka aftur í þjónustu sína starfsmann sem hann hefur rekið úr starfi með löglegum eða ólögmætum hætti eða sagt upp. Með sama hætti verður starfsmaður aldrei dæmdur til að taka upp fyrri störf sem hann hefur hlaupist á brott úr með ólögmætum hætti, samanber það sem að ofan segir.

Bætur

Um rétt starfsmanns til bóta vegna vanefnda atvinnurekanda, sem leiða til þess að hann lætur af störfum, má vísa til almennra skaðabótasjónarmiða. Starfsmaður á að fá tjón sitt bætt, enda sýni hann fram á hvert tjón hans er. Um þetta gilda að sýnu leyti sömu reglur og gilda um skyldu atvinnurekanda til greiðslu launa á uppsagnarfresti þar sem vinnuframlagi er hafnað. Sjá hér. Í hjúalögum nr. 22/1928 er í 2. mgr. 25. gr. ákvæði sem einnig má hafa má til hliðsjónar þó þau lög hafi um margt misst gildi sitt. Þar segir að gangi hjú úr vistinni vegna atviks er greinir í 24. gr., það er vegna brots húsbónda, skuli húsbóndi greiða því hæfilegar bætur, er þó nemi ekki meiru en kaupi fyrir umsaminn vistartíma og matarverði, þó ekki yfir 8 vikur.

Um skipverja aðra en skipstjóra gildir regla 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Bætur skulu nema óskertum launum í uppsagnarfresti. Sjá Hrd. 1976:578.

Sjá ennfremur dóma um opinbera starfsmenn, Hrd. 1986:1534Hrd. 1994:1278 og Hrd. 1995:1347.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn