Almennt er talið að forföll séu greiðsluskyld án tillits til þess hver sjúkdómurinn er. Byggt er á skilgreiningum læknisfræðinnar á sjúkdómshugtakinu og þá um leið vottorðum lækna auk þess sem oft stuðst við túlkun laga um almannatryggingar í þessu sambandi.
Þetta er þó ekki undantekningarlaust. Þannig fellur áfengissýki ekki undir sjúkdómshugtakið samkvæmt l. 19/1979 um uppsagnarfrest og veikindarétt, þótt það sé viðurkenndur sjúkdómur í læknisfræðinni.
Stundum getur risið vafi um hvort forföll af völdum læknisaðgerða skapi rétt til greiðslu launa í veikindaforföllum. Nokkra leiðsögn um túlkun í vafatilvikum er m.a. að finna í bókun með kjarasamningi VR frá árinu 2000. Þar segir um óvinnufærni vegna veikinda: „Aðilar eru sammála um að auk veikinda og slysatilvika verði veikindaréttur skv. samningi þessum virkur þurfi starfsmaður að gangast undir aðkallandi og nauðsynlega læknisaðgerð til að draga úr eða eyða afleiðingum sjúkdóms sem fyrirsjáanlegt er að leiði til óvinnufærni. Ofangreind skilgreining felur ekki í sér breytingu á sjúkdómshugtaki vinnuréttar eins og það hefur verið túlkað af dómstólum. Þó eru aðilar sammála um að aðgerðir sem starfsmaður þarf að gangast undir, til að bæta úr afleiðingum slyss við vinnu, leiði einnig til þess að veikindaréttur skv. samningi þessum verði virkur.“
Til þess að átta sig betur á sjúkdómshugtakinu er rétt að vísa til dæma.
Vöðvabólga
Ágreiningur hefur lengi verið um það hvort vöðvabólga geti talist sjúkdómur í skilningi l. 19/1979.
Úr þessu var skorið í Hrd. 1996:2023 þar sem fallist var á veikindaréttarkröfur manns sem verið hafði á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði vegna vöðvabólgu.
Tannsjúkdómar
Tannsjúkdómar geta verið greiðsluskyldir eins og aðrir sjúkdómar ef starfsmaður forfallast frá vinnu af þeirra völdum.
Heimsóknir til tannlæknis vegna reglubundins eftirlits og viðgerða teljast ekki greiðsluskyldar nema um sjúklegt ástand sé að ræða og heimsóknin læknisfræðilega knýjandi eða starfsmaður óvinnufær.
Fegrunaraðgerðir
Frávera vegna hreinna fegrunaraðgerða, sem ekki eru nauðsynlegar vegna afleiðinga sjúkdóma eða slysa, telst ekki greiðsluskyld skv. l. 19/1979.
Sem dæmi má nefna ef fæðingarblettir eru fjarlægðir og húð strekkt. Séu aðgerðirnar læknisfræðilega knýjandi, en hafa jafnframt áhrif á útlit, verður að vega þessa þætti saman. Í þessu sambandi má benda á þá dóma sem hafa fallið vegna kjálkaaðgerða og æðahnúta. Þann 20. október 1993 var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur í máli sjómanns sem krafði útgerð sína um laun vegna aðgerðar sem hann gekkst undir á munni og kjálka, meðal annars vegna þess að hann var með yfirbit og afturstæðan neðri kjálka, sem þurfti að laga. Af þeim sökum var hann óvinnufær í rúman mánuð. Í niðurstöðu dómsins var maðurinn ekki talinn hafa sýnt fram á það að hann hafi verið ófær til vinnu vegna þess að sjúkdómur eða veikindi hafi hamlað starfsgetu hans þegar hann fór frá borði fyrir aðgerð. Hafi hann sjálfur lýst því yfir að hann hafi ekki verið óvinnufær þegar hann fór í aðgerðina. Ekki var dregið í efa að maðurinn hefði fengið bót við að gangast undir lengingu á kjálka. Nauðsyn aðgerðarinnar tengdist hins vegar ekki sjúkdómi eða veikindum með þeim hætti að hægt væri að fallast á að manninum bæri réttur til óskertra launa vegna sjúkdóms eða meiðsla í skilningi sjómannalaga og var útgerðin sýknuð.
Veikindi á meðgöngu
Veikindi sem verða á meðgöngu eru greiðsluskyld, sem og önnur veikindi, hvort sem veikindin tengjast þungun konunnar eða ekki.
Í Hrd. 1989:185, var viðurkenndur réttur þungaðrar konu til launagreiðslna í veikindum sem stöfuðu af þungun konunnar. Í undirrétti var meðal annars tekið fram að fæðingareitrun sé sjúkdómur í læknisfræðilegum skilningi og að slíkir sjúkdómar falli undir lög nr. 19/1979. Hvergi sé að sjá að löggjafinn hafi haft í huga að undanskilja ákveðna tegund sjúkdóma lögunum.
Líffæragjöf
Fjarvera frá störfum og sjúkrahúslega sem tengist líffæragjöf er ekki greiðsluskyld skv. l. 19/1979.
Byggist þetta á því að fjarveran telst ekki sjúkdómur hjá þeim aðila sem gefur líffæri, og er því líffæragjafinn ekki forfallaður frá vinnu vegna sjúkdóms. Tekið skal fram að Tryggingastofnun ríkisins beitir lögjöfnun þegar um líffæragjafir er að ræða og líffæragjafinn nýtur því almennt sömu réttinda og sjúklingurinn til bóta frá stofnuninni.
Frjósemis- og ófrjósemisaðgerðir
Frjósemis- og ófrjósemisaðgerðir teljast ekki til greiðsluskyldra forfalla.
Þessar aðgerðir eru ekki hluti af lækningu við sjúkdómi, jafnvel þótt ófrjósemi kunni að hafa stafað af sjúkdómi. Í kjarasamningum er sums staðar samið um greiðslur vegna fráveru í frjósemisaðgerðum, svokallaðri tæknifrjóvgun, sjá kafla um fæðingarorlof.
Æðahnútar
Í Hrd. nr. 346/2001 fór Þ sem var matsveinn á skipi S í skurðaðgerð vegna æðahnúta á fótum.
Deilt var um hvort hann hafi verið óvinnufær í skilningi 36. gr. sjómannalaga er hann fór í aðgerðina. Þótti leitt í ljós, m.a. með vísan til læknisfræðilegra gagna sem lágu fyrir í málinu, að um væri að ræða sjúkdóm, sem hefði þróast í nokkurn tíma með Þ og að skurðaðgerð hefði verið nauðsynleg til að bæta þar úr. Af hinum læknisfræðilegu gögnum þótti einnig mega ráða að dráttur á aðgerð hefði skapað nokkra hættu fyrir heilsu Þ og getað leitt hvenær sem er til óvinnufærni hans. Að öllu þessu virtu og þrátt fyrir það að Þ hefði verð unnt að stunda vinnu sína fram að því að hann fór í leyfi þóttu atvik með þeim hætti að fullnægt væri skilyrðum 36. gr. sjómannalaga að hann fengi greidd laun þann tíma, er hann var óvinnufær vegna skurðaðgerðarinnar.
Áfengissýki
Lengst af hefur verið litið svo á að fjarvistir manna vegna meðferðar á áfengissýki séu ekki greiðsluskyldar.
Í dómi Hrd. 1984:439 var um það deilt hvort frávera manns vegna meðferðar á áfengissýki teldist greiðsluskyld hjá atvinnurekanda. Sagði í dóminum að enda þótt drykkjusýki kynni að teljast sjúkdómur í skilningi læknisfræðinnar hefðu fjarvistir manna frá vinnu vegna áfengisneyslu eða drykkjuhneigðar lengst af verið virtar að lögum á annan veg en fjarvistir vegna veikinda og slysa. Í dóminum segir að áfrýjandi (þ.e. launamaðurinn) miði við það að ekki hafi átt að beita veikindaákvæði kjarasamnings um fjarvistir starfsmanna frá vinnu vegna drykkjusýki nema hann hefði á fjarvistartímanum sætt læknismeðferð á sjúkrastofnunum til að vinna bug á áfengishneigð sinni líkt og hann hefði gert. Endranær hafi drykkjusjúkur starfsmaður ekki átt rétt til launa meðan hann var fjarvistum vegna sjúkdóms síns, svo sem vegna áfengisneyslu eða afleiðinga hennar. Dómurinn tók fram að ekkert benti til þess að við gerð kjarasamnings (sem vísaði beint í lögin um veikindarétt) hafi því verið hreyft að til þess væri ætlast að ákvæðum hans um launagreiðslur í veikindum bæri að beita um fjarvistir starfsmanna vegna drykkjusýki fremur en tíðkast hafði. Hefði þó, vegna þess sem að framan er greint, verið ástæða til þess fyrir samningsaðila að láta það sérstaklega koma fram ef þeir ætluðust til þess að svo yrði gert.
Andleg áföll
Komið hefur til réttarágreinings, sjá Hrd. nr. 498/2007, um rétt skipverja til veikindalauna þar sem viðkomandi skipverji hafi verið óvinnufær vegna andlegs áfalls.
Áfallinu varð hann fyrir þegar hann fékk er hann frétti að náinn ættingi hefði látist. Útgerðarfyrirtækið var sýknað af kröfunni af þeirri ástæðu að skipverjinn hefði ekki fært sönnur á að hann hefði verið óvinnufær vegna veikinda á umræddu tímabili. Í Hrd. nr. 207/2005 var háseta dæmdur réttur til veikindalauna á grundvelli þess að hann hafi verið veikur í skilningi 36. gr. sjómannalaga. Hásetinn hafði misst son sinn og mætti ekki til vinnu í rúma fimm mánuði af þeim sökum en andlát sonar hans hafði mikil andleg áhrif á hann. Í málinu lá fyrir yfirlýsing læknis um óvinnufærni hásetans og var því mati ekki hnekkt af hálfu atvinnurekandans.
Offituaðgerð
Í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 19.4 2010 ( E-3377/2009 ) var fjallað um það hvort offituaðgerð (magahjáveituaðgerð) og forföll úr vinnu hennar (óvinnufærni) væru bótaskyld.
Í dóminum segir: „Fyrir liggja tvö vottorð Ludvigs Árna Guðmundssonar læknis. Í því síðara, dags. 1. febrúar 2008, segir afdráttarlaust að stefnandi hafi verið í endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi frá 7. janúar til 7. febrúar vegna sjúkdóms og að vegna endurhæfingarinnar gæti hún ekki stundað vinnu þetta tímabil. Samkvæmt framburði læknisins fyrir dómi var stefnandi með offitu á mjög alvarlegu stigi og meðferðin sem hún gekkst undir nauðsynleg. Þá skýrði læknirinn frá því að stefnandi hefði ekki getað stundað vinnu samhliða meðferðinni. Stefnandi hefur ekki hnekkt þessu vottorði og mati læknisins. Stefnda var kunnugt um undirbúning stefnanda fyrir magahjáveituaðgerð og verður stefnandi ekki talin hafa fyrirgert rétti til veikindalauna þó hún hafi ekki tilkynnt strax 7. janúar 2008 að hún yrði fjarverandi næstu vikur.“
Kynleiðrétting
Samkvæmt 3.gr. l. 80/2019 um kynrænt sjálfræði nýtur sérhver einstaklingur, í samræmi við aldur og þroska, óskoraðs réttar til þess a. að skilgreina kyn sitt, b. viðurkenningar á kyni sínu, kynvitund og kyntjáningu, c. að þroska persónuleika sinn í samræmi við eigin kynvitund og d. líkamlegrar friðhelgi og sjálfræðis um breytingar á kyneinkennum. Skv. Hrd. 5/2023 taka lögin enga afstöðu til þess hvort kynmisræmi gæti talist sjúkdómur. Læknisfræðileg aðgerð sem einstaklingur gengur undir til þess að leiðrétta kynmisræmi getur hins vegar framkallað rétt til greiðslu launa í veikindum á grundvelli óvinnufærni sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar. Í málinu hafði launamaðurinn aflað tveggja læknisvottorða um óvinnufærni sína og í vætti annars læknisins fyrir dómi kom fram að aðgerðin hefði verið aðkallandi til að koma í veg fyrir óvinnufærni hans.