Um þá sem missa starf sitt af ástæðum sem þeir bera sjálfir sök á gildir hið sama og þá sem segja upp starfi sínu án gildra ástæðna. Réttur þeirra til atvinnuleysisbóta fellur niður í 40 daga frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.
Í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er það ekki skilgreint hvenær starfsmaður telst bera sjálfur sök á eigin starfslokum með þeim réttaráhrifum að hann skuli af þeim sökum missa rétt til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga.
Úr greinargerð með lögunum má lesa þá leiðbeiningu að þar sem ákvörðun um missi bótaréttar telst íþyngjandi ákvörðun verði hún að vera byggð á traustum upplýsingum og málefnalegum sjónarmiðum. Í framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar hefur einkum reynt á þetta atriði í tengslum við missi ökuréttinda vegna hraðaksturs/ölvunar, óstundvísi, áfengisneyslu, ágreinings á vinnustað o.fl.