VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Upptaka fjarvinnu

Fjarvinna byggir á frjálsu vali viðkomandi starfsmanns og launagreiðanda og getur verið hluti upphaflegrar starfslýsingar eða hafa komist á síðar sem óþvingað val aðila.  

Þegar fjarvinna er tekin upp ber launagreiðanda að gefa fjarvinnustarfsmanni skriflega viðeigandi upplýsingar með sama hætti og gert er þegar ráðningarsamningar eru gerðir eða ráðning staðfest (sjá nánar kaflann Ráðningarsamningar – form og efni ) þar á meðal um viðeigandi kjarasamninga, lýsingu á þeirri vinnu sem inna skal af hendi o.s.frv.

Sérstaða fjarvinnu krefst að jafnaði skriflegra viðbótarupplýsinga um atriði eins og hvaða deild fyrirtækisins fjarvinnustarfsmaður er tengdur, hver sé næsti yfirmaður hans/hennar eða aðrir sem hann eða hún getur snúið sér til með spurningar er varða starfið eða persónuleg mál, fyrirkomulag við skýrslugjöf o.fl.

Sé fjarvinna ekki hluti upphaflegrar starfslýsingar og launagreiðandi býður fjarvinnu, getur launamaður tekið því tilboði eða hafnað því. Láti launamaður í ljós ósk til þess  að taka upp fjarvinnu getur launagreiðanda á sama hátt orðið við eða hafnað þeirri ósk. Með öðrum orðum þá byggist upptaka fjarvinnu, sé hún ekki hluti upphaflegrar ráðningar, á frjálsu vali. Í kjarasamningi ASÍ og SA er tekið fram að upptaka fjarvinnu hafi engin áhrif á stöðu fjarvinnustarfsmannsins sem launamanns og að höfnun starfsmanns á tilboði um fjarvinnu, er sem slík ekki gild ástæða fyrir uppsögn eða breytingum á ráðningarkjörum.

Sé fjarvinna ekki hluti upphaflegrar starfslýsingar er ákvörðun um að hefja fjarvinnu afturkallanleg samkvæmt ráðningarsamningi  og/eða kjarasamningi. Afturköllun getur falið í sér að horfið sé til starfs í starfsstöð launagreiðanda að ósk starfsmanns eða launagreiðanda. Nánari útfærsla byggir á ráðningarsamningi og/eða kjarasamningi.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn