VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Félagsgjöld

Samkvæmt lögum nr. 55/1980 (starfskjaralögunum) er annars vegar mælt fyrir um að kjarasamningar séu lágmarkskjör sbr. 1. gr. þeirra og hins vegar að atvinnurekendum beri að halda eftir iðgjaldi til stéttarfélags sbr. 2. mgr. 6. gr. Þetta er samtengt eins og nánar verður fjallað um hér á eftir. 

Þótt hér sé ekki lögbundin aðildarskylda að stéttarfélögum er í lögum kveðið á um greiðsluskyldu launafólks til stéttarfélaga. Skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.  

Orðalag kjarasamninga um skil atvinnurekenda á iðgjöldum til stéttarfélaga er nokkuð misjafnt, en almennt má segja að það kveði á um skyldu atvinnurekenda til að halda eftir og skila iðgjöldum af öllum starfsmönnum á tilteknu starfssviði til viðkomandi stéttarfélags. Sums staðar í kjarasamningum er vísað til starfskjaralaganna um innheimtu iðgjalda.

Greiðsluskylda án aðildar

Þeir sem ekki vilja vera í stéttarfélagi verða samt að greiða þangað iðgjald sem er þá greiðsla til félagsins fyrir að sinna þeirri þjónustu sem félagið veitir, meðal annars með kjarasamningsgerðinni. Stundum var þetta gjald kallað vinnuréttargjald. Með því var ekki átt við að með greiðslu gjaldsins öðlist menn rétt til vinnu heldur hitt að gjaldið tengist réttindum á vinnumarkaði. Til að forða misskilningi er þetta hugtak ekki lengur notað. Litið er svo á að greiðsla iðgjaldsins sé fyrir þá þjónustu sem felst í því að annast gerð kjarasamninga sem gilda fyrir alla, gæslu félagslegra réttinda, aðstoðar vegna ágreinings á vinnustöðum o.fl. Kjarasamningurinn kveður á um lágmarkskjör. Hann tryggir launamanninum ýmis réttindi auk þess sem hann kveður á um það hvaða laun skuli að lágmarki greiða fyrir vinnuna. Það hefur verið talið óhjákvæmilegt, að þar sem starfskjaralögin geri kjarasamninga að lágmarksrétti, að þeir sem nýta sér þessa þjónustu greiði fyrir hana. Í framkvæmd er það þannig að félög ganga ekki stíft eftir því að menn gerist félagsmenn í félögunum svo framarlega sem iðgjöld eru greidd til þeirra og réttindi þessa hóps eru að mörgu leyti þau sömu og þeirra sem eru fullgildir félagsmenn.

Árið 1995 voru samþykktar breytingar á stjórnarskránni og sett inn ákvæði er áttu að styrkja stöðu mannréttinda í stjórnskipan íslenska ríkisins. Í nefndaráliti stjórnarskrárnefndar um frumvarp til stjórnarskipunarlaga var fjallað um það hvort svokölluð forgangsréttarákvæði kjarasamninga og ákvæði þeirra um greiðslu iðgjalda til stéttarfélaga færu i bága við nýtt ákvæði sem lagt var til að tekið yrði upp í stjórnarskrána um rétt manna til að standa utan félaga.

Álit stjórnarskrárnefndar um þetta atriði er svohljóðandi: 

„Meginregla 12. gr. er sú að menn eiga rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi. Enn fremur megi engan skylda til aðildar að félagi en þó megi víkja frá því ef það réttlætist af þeim aðstæðum sem greinin kveður á um. Í orðalagi fyrri málsliðar 2. mgr. felst að engan megi skylda til aðildar að félagi með lögum eða hvers kyns stjórnvaldsákvörðunum. Er því ekki verið að kveða á um það sem menn eru skyldaðir til að gera á grundvelli frjálsra samninga, þar á meðal kjarasamninga. Hvað varðar stéttarfélög og aðild að þeim er bent á að í núgildandi löggjöf eru launþegar ekki skyldaðir til þess að vera í stéttarfélagi. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, er þvert á móti beinlínis gert ráð fyrir að launþegar geti verið utan stéttarfélaga. Því er í 2. mgr. 12. gr. ekki vikið að þeim aðstæðum er eiga við um stéttarfélög og þar af leiðandi ekki lagðar til með málsgreininni breytingar á reglum varðandi aðild manna að þeim. Sérstök ástæða er til að nefna að svonefnd forgangsréttarákvæði, þegar í kjarasamningum er samið um að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags skuli hafa forgang til vinnu á félagssvæði þess, leiða ekki af sér félagsskyldu af þeim toga sem fyrri málsliður 2. mgr. tekur til. Þá verður heldur ekki litið svo á umsamin skylda launþega til að greiða gjöld til stéttarfélaga sé félagsskylda af þeim meiði sem ákvæði þetta nær til. Í ljósi þessa lítur nefndin svo á að með samþykkt frumvarpsins sé í engu verið að hrófla við núverandi réttarstöðu á vinnumarkaði að því er varðar forgangsréttarákvæði, greiðslu félagsgjalda eða önnur réttindaákvæði.“

Dómstólar hafa fjallað um það hér á landi hvort heimilt sé að krefja launamenn um gjald til stéttarfélags sem þeir eru ekki fullgildir félagsmenn í. Í dómi bæjarþings Reykjavíkur 16. janúar 1984 var fjallað um rétt félags til að krefja ófélagsbundinn starfsmann um iðgjald til félagsins. Málavextir voru þeir að skólanemi hafði með skóla unnið við afgreiðslustörf í verslun. Hafði félagsgjöldum verið skilað til VR, en neminn aldrei verið félagsmaður þess félags. Í dómsmáli krafði neminn félagið um endurgreiðslur gjaldanna og vísaði til ákvæða laga um stéttarfélög og vinnudeilur, sem kvæðu ekki á um skylduaðild og til stjórnarskrárákvæða um félagafrelsi. Félagið byggði varnir sínar á starfskjaralögunum og ákvæðum kjarasamnings félagsins. Félagið var sýknað af kröfum nemans með eftirfarandi rökum:  

„Stefnandi vann allan þann tíma sem hér skiptir máli með kjörum sem kjarasamningar VR sögðu til um á hverjum tíma. Kjarasamningar eru eðli málsins samkvæmt með þeim hætti að þeir veita báðum aðilum viss réttindi, en leggja jafnframt á þá gagnkvæmar skyldur. Eigi verður á það fallist að árgjald það sem stefndi tók af stefnanda samkvæmt heimild 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 hafi verið með þeim hætti að þar hafi verið um að ræða brot á 74. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um félagafrelsi. Ber því að taka sýknukröfu stefnda til greina.“

Einnig má í þessu efni vísa til Hrd. nr. 315/2005 sem fjallaði um greiðslu iðnaðarmálagjalds atvinnurekenda til Samtaka Iðnaðarins. Álagning iðnaðarmálagjalds og ráðstöfun þess samkvæmt lögum til Samtaka Iðnaðarins var ekki talin fela í sér skylduaðild viðkomandi einstaklings að samtökunum, sem bryti gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Var því ekki fallist á að lögin stönguðust á við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Þá var hvorki talið að með lagafyrirmælum um álagningu gjaldsins hefði löggjafinn farið út fyrir heimildir sínar né að hún stangaðist á við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. 

Opinberir starfsmenn

Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna segir að starfsmaður sem lögin taki til og er ekki innan stéttarfélags greiði til þess stéttarfélags sem hann ætti að tilheyra gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess. Um lögmæti þessa var m.a. fjallað í Félagsdómi 4/1998 (XI:315) en þar segir m.a. að skylda til greiðslu gjalda til þess félags, sem fer með samningsaðild fyrir starfsmann, brjóti hvorki í bága við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins né 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 eða 4. gr. laga nr. 80/1938.

Það að ófélagsbundnir starfsmenn verða einnig að greiða gjald í félögin er rökstutt með því að um sé að ræða gjald til félagsins fyrir samningsvinnuna sem hinir ófélagsbundnu njóti á sama hátt og skráðir félagar. Gjald þetta sé ekki félagsgjald enda veiti það hvorki réttindi né skyldur í viðkomandi stéttarfélagi umfram fyrrgreind afnot af kjarasamningi þess. Bent hefur verið á það á móti að slík gjaldtaka hljóti að fela í sér að minnsta kosti óbeina félaganauðung þar sem einstaklingar hljóti, af tveimur kostum, fremur að kjósa að gerast félagar, verði þeir á annað borð að greiða til félagsins, þar sem þeir öðlist þá að minnsta kosti önnur þau réttindi sem stéttarfélagsaðild veitir. Hér sé heldur ekki um að ræða að launamenn geti án sérstakra kvaða valið hvort þeir vilji eitthvað hafa saman að sælda við viðkomandi stéttarfélag eða ekki, heldur er beinlínis lögbundið að svo skuli vera. Það hvort einstaklingar séu formlegir félagar eða ekki hljóti samkvæmt því sjónarmiði að teljast aukaatriði.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn