VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Dagvinna

Ákvæði um vinnutíma launafólks er annars vegar að finna í lögum um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971 og hins vegar í kjarasamningum. Í 2.gr. laga nr. 88/1971 segir að í hverri viku skulu ekki vera fleiri en 40 dagvinnutímar, sem vinna ber á því dagvinnutímabili á virkum dögum vikunnar, sem aðilar koma sér saman um. Heimilt er að semja um skemmri vinnuviku. Að jafnaði skulu unnar 8 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags, nema annar vinnutími henti betur af sérstökum ástæðum og um það sé samið í kjarasamningum.

Það eru hins vegar kjarasamningar einstakra stéttarfélaga sem svara því raun hvernig dagvinnutíma starfsmanna skuli háttað. Í þeim er kveðið á um svokallaðan virkan vinnutíma en með því hugtaki er almennt átt við þann tíma sem atvinnurekandi greiðir fyrir að frádregnum kaffihléum á dagvinnutímabili. Svo dæmi sé tekið þá segir í aðalkjarasamningi SGS og SA sem gildir frá 1. maí 2015, gr. 2.1.1, að virkur vinnutími í dagvinnu á viku skuli vera 37 klst. og 5 mín. og að vinnutíma skuli hagað með eftirfarandi hætti:
a. kl. 07:55-17:00 mánudaga til föstudaga.
b. kl. 07:30-16:35 mánudaga til föstudaga.
Heimilt er að haga dagvinnutíma með öðrum hætti, ef vinnuveitandi og verkamenn koma sér saman um það. Þó skal dagvinna hvers starfsmanns ávallt unnin með samfelldri vinnuskipan á degi hverjum og aldrei hefjast fyrr en kl. 07:00. Upphaf dagvinnu hvers starfsmanns skal ákveðið í ráðningarsamningi hans og verður ekki breytt nema að undangenginni uppsögn eða með samkomulagi.

Í kjarasamningum er mælt fyrir um hver vikulegur vinnustundafjöldi starfsmanna í fullu starfi skuli vera, (talið í virkum vinnustundum eins og ofan greinir) og um leið skilgreindur sá tímarammi frá morgni til kvölds sem þeirri vinnu skuli skilað á frá mánudegi til föstudags. Þessi daglegi tímarammi er kallaður dagvinnutímabil. Dagvinnutímabilið er haft rýmra en dagleg vinnuskylda starfsmanna og býður atvinnurekendum og starfsmönnum upp á ákveðinn sveigjanleika við ákvörðun eða samninga um hvenær vinna skuli hefjast að morgni og ljúka að kvöldi. Dagleg vinnuskylda starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi getur þannig verið 8 klst. en dagvinnutímabilið 10 klst.

Í kjarasamningum ASÍ og SA frá 3.4 2019 var heimild sett inn ný heimild í 5.kafla kjarasamninga þar sem fjallað er um fyrirtækjaþátt þeirra. Kjarasamningurinn gefur starfsfólki á einstökum vinnustöðum möguleika á styttingu vinnuviku með gerð samkomulags þar um milli starfsmanna og stjórnenda. Starfsmenn geta farið fram á viðræður um vinnutímastyttingu í 36 virkar vinnustundir á viku að jafnaði samhliða upptöku virks vinnutíma. Stjórnendur fyrirtækja geta einnig óskað eftir sams konar viðræðum. Á samningssviði verslunarmanna verður vinnutímastytting 45 mínútur á viku sem útfærð verður sérstaklega.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn