VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Skráning vinnutíma

Ágreiningur rís stundum um þann vinnutíma sem launamaður skilar. Í mörgum tilvikum er stuðst við stimpilklukkur eða aðra svipaða skráningu og eru ágreiningsefni þá að jafnaði auðleyst.

Skv. 57.gr.a í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 er atvinnurekendum „..skylt að koma upp hlutlægu, áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er, samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag. Einnig skulu koma fram upplýsingar um tilvik þar sem vikið hefur verið frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt lögum þessum eða kjarasamningum sem og upplýsingar um hvort starfsmenn hafi í slíkum tilvikum fengið hvíld síðar. –  Þrátt fyrir 1. mgr. er nægjanlegt að vinnutími starfsmanns sé skráður í ráðningarsamningi sé vinnutími viðkomandi starfsmanns reglubundinn að jafnaði og skulu frávik frá þeim vinnutíma skráð sérstaklega í samræmi við 1. mgr. – Starfsmaður skal eiga þess kost að nálgast framangreindar upplýsingar 12 mánuði aftur í tímann.“

Tilurð ákvæðisins má rekja til kæru ASÍ til ESA í maí 2019 vegna ófullnægjandi innleiðingar íslenskra stjórnvalda á tilskipun 2003/88/EB. Kært var m.a. þar sem lög nr. 46/1980 geymdu engin ákvæði sem felldu á atvinnurekendur skyldu til þess að hafa formlegt, virkt og aðgengilegt kerfi til eftirlits með vinnutíma starfsmanna sinna. Í desember 2022 féllst ESA á kröfu ASÍ (sjá tilmæli) og í kjölfarið var lögum nr. 46/1980 breytt með lögum nr. 58/2023 sem bættu inn ákvæði 57.gr.a.

Þar sem þessi kerfi eru ekki til staðar og reyndar einnig þar sem þau eru það, er mikilvægt að starfsmenn haldi sjálfir samtímaskráða dagbók um vinnu sína. Fyrir tilkomu 57.gr. a hafði slík skráning mikilvægt sönnunargildi þegar ágreiningur varð og velti tíðum sönnunarbyrði yfir á atvinnurekendur eins og ráða má af fordæmum Hæstaréttar. Eftir tilkomu þessa ákvæðis má telja víst að sönnunarbyrði muni alltaf verða felld á atvinnurekendur greini þá á við starfsmenn sína um þær vinnustundir sem unnar hafi verið. 

Í þessum dómum Hæstaréttar var sönnunarbyrði velt á atvinnurekanda þegar launamaður gat fært fram haldbær rök fyrir kröfu sinni, jafnvel þó um einhliða skráningu hans hafi verið að ræða. Þessi flutningur á sönnunarbyrði var eðlilegur í ljósi þess að atvinnurekenda var skylt að halda utanum vinnutíma starfsmanna sinna m.a. til þess að geta efnt skyldur sínar á sviði vinnuverndar og sú skylda er nú mun skýrari eftir breytinguna sem fjallað erum hér að framan. Jafnframt var og er þessi flutningur á sönnunarbyrði  eðlilegur vegna þess að launamaðurinn er í mun veikari stöðu en atvinnurekandinn. Sjá m.a. dóm Evrópudómstólsins í málinu nr. C-55/18 þar sem fjallað er um framkvæmd Vinnutímatilskipunar 2003/88/EB sem gildi hefur hér á landi á grundvelli EES – samningsins. (Sjá sérstaklega mgr. 55 og 60)

Sjá einnig umfjöllun um Vinnu- og hvíldartímareglur í kaflanum um aðbúnað og hollustuhætti.

Dómar

Ágreiningur um vinnutíma var m.a. til umfjöllunar í Hrd. nr. 601/2017.  Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti, kom fram að tímaskráningar starfsmannsins væru handskráðar samtímaheimildir. Hefði atvinnurekandinn  ekki lagt fram neina aðra tímaskráningu en honum hefði verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun um vinnuframlag starfsmannsins með því að skrá vinnu hans með stimpilklukku eða yfirfara tímaskráningu hans jafnóðum. Yrði því að leggja tímaskráningu starfsmannsins til grundvallar við úrlausn málsins enda ekki við annað að styðjast og ekkert fram komið sem rýrði trúverðugleika þeirrar skráningar. Var atvinnurekandanum því gert að greiða umkrafða fjárhæð starfsmannsins. Sjá einnig 600/2017.

Þetta er svipuð niðurstaða og fram kom í dómi Hæstaréttar 15 árum fyrr, Hrd. nr. 335/2002  en þar segir: „Kröfur sínar um fjárhæð yfirvinnugreiðslna byggir stefndi á skráningu daglegs vinnutíma í dagbók. Hefur áfrýjandi ekki hrakið staðhæfingu hans um að sú skráning hafi verið framkvæmd jafnóðum. Þá hefur hann ekki lagt fram gögn er hnekkja þeirri skráningu, enda verður ekki séð að gögn sem áfrýjandi lagði fram um verkskráningar taki til annars en skráningar á vinnu stefnda vegna útseldra verka, en í málinu liggur fyrir að stefndi vann einnig við verkefni sem ekki voru seld út. Verður skráning stefnda  því lögð til grundvallar og staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð yfirvinnugreiðslna.“ 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn