Víða á vinnumarkaði er samið um ákveðið fastakaup, tímakaup, vikukaup eða mánaðarkaup, og síðan er samið um viðbótargreiðslur sem tengdar eru afköstum eða árangri. Þessar viðbótargreiðslur eru ýmist tengdar afköstum hópsins í heild eða einstaklingsins. Sérstakir kaupauka- og bónussamningar hafa verið gerðir hjá tilteknum starfshópum, svo sem í fiskvinnslu.
Þar er fjallað um afkastahvetjandi launakerfi, ýmis framkvæmdaatriði við kerfið, vinnutíma, til hverra bónusinn taki, um rétt til kaupauka í veikindum, um það hvernig taka beri á vandamálum sem upp kunna að koma, um gildistíma og greiðslur. Í bónussamningum í fiski er ekki aðeins greitt fyrir afköst heldur líka fyrir nýtingu og meðferð á hráefni. Þar er einnig samið um ákveðna reiknitölu sem kaupaukinn tekur mið af. Sú reiknitala miðast ekki endilega við ákveðinn launataxta þótt hún hafi upphaflega gert það. Bónus er síðan ákveðið hlutfall af reiknitölu. Hreinir akkorðssamningar eru þannig að eingöngu er greitt fyrir afköst.
ASÍ og samtök atvinnurekenda sömdu á árinu 1972 um hvernig haga skyldi undirbúningi og framkvæmd vinnurannsókna sem ætlað væri að mynda grunn undir afkastahvetjandi launakerfi (Leiðbeiningar um undirbúning og framkvæmd vinnurannsókna). Þar er m.a. fjallað um aðkomu sérstakra trúnaðarmanna sem njóti sömu verndar og aðrir trúnaðarmenn,laun meðan á rannsóknum stendur, framkvæmd mælinga, upplýsingagjöf o.fl. Þar sem undirbúningurinn getur falið í sér, að nákvæmlega sé fylgst með framkvæmd vinnu, hún mæld og gögnum safnað var á árinu 1986 óskað umsagnar Persónuverndar um leiðbeiningarnar og gerði stofnunin engar athugasemdir. Samkomulagið, sem hefur stöðu kjarasamnings, var endurnýjað síðast 1983 og hefur ekki verið sagt upp (8.4 2021). Bolli B Thoroddsen, hagræðingur ASÍ útbjó einnig greinargerð með reglum þessum, Greinargerð um hvetjandi launakerfi.
Í vissum iðngreinum miðast laun við ákveðin uppmælingarkerfi, svo sem hjá trésmiðum, rafvirkjum, málurum, múrurum og pípulagningamönnum. Sjá nánar www.samidn.is og www.rafis.is