Í Rómarsáttmálanum, sem lagði grunn að stofnun Efnahagsbandalags Evrópu árið 1957, var jafnrétti milli karla og kvenna, þ.m.t. launajafnrétti, skilgreint sem eitt af markmiðum bandalagsins.
Á áttunda áratug síðustu aldar voru samþykktar fjölmargar tilskipanir sem var ætlað að hrinda þessu markmiði í framkvæmd í aðildarríkjum sambandsins. Þær tilskipanir sem mesta þýðingu hafa í því sambandi eru:
- Tilskipun 75/117/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna er varða beitingu meginreglunnar um sömu laun karla og kvenna.
- Tilskipun 76/207/EBE um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkunum, sem og varðandi starfskjör.
Með gildistöku Amsterdamsáttmálans árið 2000 fékk Evrópusambandið auknar heimildir til að vinna gegn hvers konar mismunun fólks sem grundvallast á kynferði, kynþætti eða þjóðerni, trúarbrögðum eða sannfæringu, fötlun, aldri eða kynhneigð. Hefur Evrópusambandið gripið til ýmissa aðgerða á þessu sviði, þ.m.t. með samþykkt tilskipunar nr. 2000/43/EB.
Með tilskipun 2002/73/EB var tilskipun 76/207/EBE uppfærð með hliðsjón af túlkunum Evrópudómstólsins annars vegar og tveggja tilskipana um aðgerðir gegn mismunun frá árinu 2000 hins vegar. Helsta nýmæli þessarar tilskipunar er ákvæði hennar um bann við kynferðislegri áreitni. Þá geymir hún einnig skilgreiningu á óbeinni mismunun og umfjöllun um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til að mismunun í ákveðnum tilvikum getið talist heimil.
Í desember 2004 samþykkti Evrópusambandið nýja tilskipun, tilskipun 2004/113/EC, er bannar mismunun sem grundvallast á kynferði hvað varðar aðgang að og veitingu á vörum og þjónustu.
Nánari upplýsingar um starf Evrópusambandsins á sviði jafnréttismála er að finna á sérstakri heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um jafnréttismál.
EES-samningurinn
Í EES-samningnum sem tók gildi hér á landi 1994 eru sambærileg ákvæði um jafnrétti kvenna og karla og finna má í stofnsáttmála Evrópusambandsins. Í 69. og 70. gr. samningsins er líkt og í 119. gr. stofnsáttmálans kveðið á um að tryggja skuli og viðhalda þeirri meginreglu að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu. Með launum er átt við venjulegt grunnkaup ásamt öllum öðrum greiðslum hvort heldur er í formi peninga eða hlunninda sem viðkomandi fær í starfi sínu.
Jafnréttistilskipanir Evrópusambandsins eru teknar upp í XVIII. viðauka EES-samningsins.
Þær tilskipanir sem hér um ræðir eru:
Launajafnrétti. Tilskipun um 75/117/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna er varða beitingu meginreglunnar um sömu laun karla og kvenna.
Aðgangur að störfum. Tilskipun 76/207/EBE um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkunum, sem og varðandi starfskjör. Sjá einnig tilskipun nr. 2002/73/EB.
Almannatryggingar I. Tilskipun 79/7/EBE um að meginreglan um jafnan rétt karla og kvenna til almannatrygginga komi til framkvæmda stig af stigi.
Almannatryggingar II. Tilskipun 86/378/EBE um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna innan almannatryggingakerfa einstakra starfsgreina.
Sjálfstætt starfandi. Tilskipun 86/613/EBE um beitingu meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, þar með talið landbúnað, og um vernd sjálfstætt starfandi kvenna við meðgöngu og barnsburð.
Heilbrigði á vinnustöðum fyrir þungaðar konur. Tilskipun 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti.
Sönnunarbyrði. Tilskipun 97/80/EB um sönnunarbyrði í málum er varða mismunun vegna kynferðis.