Alþjóðlegt samstarf fullvalda ríkja hefur fætt af sér fjölmarga sáttmála og samþykktir sem skuldbindandi eru að þjóðarrétti. Brot á þeim geta kallað fram viðbrögð og viðurlög á alþjóðavísu og í þeim tilvikum sem slíkar sáttmálar og samþykktir hafa verið teknar inn í landsrétt geta bæði einstaklingar og lögaðilar byggt á þeim rétt fyrir innlendum dómstólum.
Þó Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) hafi t.d. tekist að samþykkja fjölmargar gerðir um réttindi og skyldur á vinnumarkaði á sviði grundvallar mannréttinda vinnandi fólks og aðbúnað þess sem aðildarríkjum stofnunarinnar er ætlað að innleiða er víða misbrestur á því að það sé gert eða gert með fullnægjandi hætti. Í mörgum tilvikum er einstaklingum og lögaðilum gert mögulegt að kæra brot til viðeigandi stofnana. Sjá t.d. eftirlitskerfið á heimasíðu ILO.
Hins vegar þarf meira að koma til og þar kemur due diligence og samfélagsleg ábyrgð til. Hugtakið due diligence ( áreiðanleikakönnun) er almennt skilið sem ferli fyrir fyrirtæki og eftir atvikum stofnanir til að bera kennsl á, koma í veg fyrir, draga úr og gera grein fyrir raunverulegum eða hugsanlegum skaðlegum áhrifum í alþjóðlegri starfsemi sinni og virðiskeðjum, sem oft taka til dótturfélaga, undirverktaka, birgja og annarra fjárhagslegra viðskipta. Due diligence ætti að fela í sér að meta og bera kennsl á slík áhrif, bregðast við niðurstöðum til að hætta eða koma í veg fyrir þau, fylgjast með framkvæmd og árangri og koma á framfæri hvernig tekið hefur verið á.
Alþjóðlegir viðskipta samningar ríkja, milliríkjaviðskipti fyrirtækja, útboð á alþjóðavettvangi hvort sem í hlut eiga opinberir aðilar eða fyrirtæki eru fyrirtaksvettvangur til þess að gera kröfur um virðingu fyrir mannréttindum og umhverfi. Slík ákvæði eru í öllum nýjum viðskiptasamningum Íslands og fjölmörg íslensk fyrirtæki og stofnanir hafa fært sig inn á þessa braut.
Nokkrar nytsamlegar vefsíður:
Keðjuábyrgð á Íslandi: Lög nr. 120/2016 um opinber innkaup – 7.kafli, 88 og 89.gr. / Leiðbeingar um framkvæmd
OECD – International standards, due diligence og úrræði vegna brota
Skien – Norska Skien módelið