VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Trúnaðarlæknar

Trúnaðarlæknar eru læknar sem fyrirtæki og stofnanir ráða til starfa. Samkvæmt reglum, sem Læknafélag Íslands hefur mótað, veitir trúnaðarlæknir forráðamönnum fyrirtækja og stofnana ráðgjöf varðandi læknisfræðileg málefni viðkomandi rekstri. Trúnaðarlæknir veitir ráðgjöf vegna fjarvista starfsmanna í veikinda- og slysatilfellum, meðal annars varðandi læknisvottorð. Trúnaðarlæknir fyrirtækis gefur almennt ekki út læknisvottorð starfsmanna til fyrirtækisins. Ef aðilar eru sammála um slíkt getur trúnaðarlæknir annast reglubundið heilsufarseftirlit meðal starfsfólks, enda verði um það samið sérstaklega. Í samráði við vinnuveitanda ákveður trúnaðarlæknir nánar um alla framkvæmd á heilsufarseftirliti. Trúnaðarlæknir býður upp á fastan viðverutíma í húsnæði fyrirtækis eða stofnunar með 100 starfsmenn eða fleiri. Trúnaðarlækni er skylt að gæta hagsmuna starfsmanna varðandi allt sem gæti spillt heilsu þeirra í starfi. Samráð skal haft við Vinnueftirlit ríkisins þegar ástæða þykir til. Trúnaðarlæknir gegnir ekki hlutverki heimilislæknis fyrir starfsfólk. Honum ber ekki skylda til að sinna veikindum eða slysatilfellum sem upp koma nema í neyðartilvikum enda hafi viðkomandi aðgang að heimilislækni eða slysavarðstofu. Æskilegt er að trúnaðarlæknir sé ekki jafnframt heimilislæknir starfsmanna fyrirtækisins. Í starfi sínu fer trúnaðarlæknir ávallt eftir ákvæðum siðareglna lækna og læknalaga. Sjá nánar t.d. grein Daggar Pálsdóttur í 5.tbl. Læknablaðsins 2014 „Trúnaðarlækningar“.

„“
Trúnaðarlæknar eru launaðir af atvinnurekanda og gegna trúnaði við hann. Vilji trúnaðarlæknir fá upplýsingar um heilsufar einstakra starfsmanna vegna forfalla ber honum að snúa sér til heilsugæslulæknis eða heimilislæknis starfsmannsins.

Fyrirtæki í eigu lækna hefur rekið svokallaða heilbrigðisráðgjöf á vinnustöðum í nokkur ár. Ráðgjöfin er fyrst og fremst fólgin í því að læknir tekur að sér að fylgjast með fjarvistum starfsmanna en minni áhersla virðist lögð á heilsuvernd. Þau fyrirtæki sem gera samning við þetta fyrirtæki skylda starfsmenn fyrirtækisins til að tilkynna veikindi sín beint til þess. Þó svo að í rammasamningi, sem gerður er milli atvinnurekenda og fyrirtækis, sé tekið fram að læknirinn sé í senn trúnaðarmaður fyrirtækis og starfsmanna þess er ljóst að trúnaðurinn getur aðeins legið öðru megin, en rétt er að minna hér á þagnarskyldu lækna. Skráning veikinda hjá fyrirtækinu gerir það að verkum að mikilvægur gagnagrunnur hefur fengist um veikindaforföll hér á landi og hefur kjararannsóknarnefnd aðgang að þessum upplýsingum. Allar upplýsingar um heilsufar starfsmanna eru viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga og ber að fara með þær sem slíkar.

Það er álit ASÍ að einhliða reglur atvinnurekenda um tilkynningu veikinda til annarra en næsta yfirmanns geti aldrei leitt til þess að launamaður glati rétti til greiðslu launa í veikindum hafi hann á annað borð tilkynnt þau skv. ákvæðum kjarasamninga. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn