Sömu reglur og að framan greinir gilda ef starfsmaður veikist eða slasast í landi innan EES svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum eða Kanada. Um réttarstöðu starfsmanna sem veikjast eða slasast utan þessara ríkja er ekki fjallað um í kjarasamningum ( staðan 16.1 2014). Samkvæmt 7.gr. vinnutímatilskipunar ESB nr. 2003/88 skal launafólk eiga rétt til lágmarksorlofs í a.m.k. 4 vikur ár hvert, eftir þeim reglum kveðir er á um í landsrétti. Þetta ákvæði hefur verið túlkað þannig að veita skuli viðbótarorlof vegna veikinda í orlofi sbr. dóm Evrópudómstólsins í máli C-277/08 Pereda, 22.mgr. Skv. dómi sama dómstóls í málinu C-78/11 Anged skal veita viðbótarorlof óháð því hvort veikindi koma upp áður en fyrirfram skipulögð orlofstaka hefst eða eftir að orlof er hafið.
Ekki hefur reynt á það fyrir dómi hvort heimilt sé að takmarka þessi réttindi við að veikindi komi upp á EES svæðinu. Í ljósi tilgangs tilskipunarinnar, sem er sá að tryggja launafólki „hvíld frá störfum“, verður að telja vafasamt að binda viðbótarorlof við það skilyrði að veikindi starfsmanna komi upp í orlofi á EES svæðinu en ekki utan þess. Í báðum tilvikum nást markmið orlofstökunnar ekki nema viðbótarorlof komi.