Sé um að ræða verulega vanefnd á launagreiðslum veitir hún launamanni heimild til að lýsa sig óbundinn af ráðningarsamningi og hætta störfum. Til að gera þessa heimild virka þarf launamaður að hafa lýst yfir þessari fyrirætlun sinni með sannanlegum hætti, svo sem með bréfi eða símskeyti, og gefið atvinnurekanda hæfilegan frest til að bregðast við. Hafi atvinnurekandi ekki brugðist við innan frestsins er launamaður frjáls af því að hætta störfum og krefja atvinnurekanda um laun á uppsagnarfresti.
Sjá hér Hrd. 1995:1293. Þar voru atvik þau að starfsmaður lýsti yfir riftun á ráðningarsamningi ef laun yrðu ekki greidd innan tiltekins frests, sem var tveir dagar og rann fresturinn út kl. 11.00 árdegis tiltekinn dag. Launin voru svo greidd síðdegis sama dag og fresturinn rann út, en starfsmaðurinn kom ekki aftur til starfa. Var atvinnurekandi sýknaður af kröfu starfsmanns til launa á uppsagnarfresti með vísan til þess að fresturinn hefði verið of skammur og greiðsla hefði borist þann dag sem fresturinn rann út.