VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Alþjóðavinnumálastofnunin – ILO

Ísland gerðist aðili að ILO árið 1945. Á vettvangi stofnunarinnar eru samþykktar alþjóðlegar reglur (Samþykktir) er varða m.a. réttindi og skyldur á vinnumarkaði, aðbúnað og hollustuhætti o.fl. Til þess að Samþykktir skuldbindi einstök aðildarríki að þjóðarrétti þurfa þau að staðfesta þær og til þess að þær öðlist gildi að landsrétti þarf að innleiða þær með einum eða öðrum hætti inn í landsrétt viðkomandi ríkja. ILO er einstök stofnun í alþjóðakerfinu fyrir þær sakir að henni er að jöfnu stjórnað að ríkisstjórnum aðildarríkjanna, fulltrúum launafólks og fulltrúum atvinnurekenda. Ísland tók í fyrsta sinn sæti í stjórn ILO 2019 þegar Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ var kjörinn í stjórn hennar úr hópi launafólks.

Ísland hefur staðfest 25 Samþykktir ILO (01.2020) og hefur þeim öllum verið hrint í framkvæmd hér á landi. Ýmist þannig að íslensk lög og reglugerðir hafa þegar verið sett eða að gerðar hafa verið nauðsynlegar breytingar á lögum eða reglugerðum.

Starfsemi ILO grundvallast á stjórnarskrá stofnunarinnar og skuldbindur hún öll aðildarríki hennar þ.m.t. ákvæði hennar um félagafrelsi og raunverulega viðurkenningu á rétti til þess að gera kjarasamninga. 1944 var ILO eins af stofnunum Sameinuðu Þjóðanna og af því tilefni var samþykkt svokölluð Fíladelfíuyfirlýsing þar sem m.a. segir:

„Allsherjarþingið endurstaðfestir grundvallarreglur þær, sem stofnunin er reist á, og þá einum þessar:
a)         að vinnan er ekki verslunarvara,
b)         að málfrelsi og félagafrelsi er frumskilyrði áframhaldandi framfara,
c)         að fátækt, hvar sem er, stofnar hagsæld um víða veröld í voða
d)         að baráttu gegn skorti þarf að heyja með óbilandi þrótti innan sérhvers þjóðfélags og með stöðugri og samræmdri alþjóðaviðleitni. Þar sem fulltrúar verkamanna og vinnuveitenda eru jafnréttháir fulltrúum ríkisstjórna og leggja lag sitt saman um að vinna að því með frjálsum umræðum og lýðræðislegum ákvörðunum að auka sameiginlega hagsæld.“

ILO hefur gefið út ýtarlegt fræðirit um samspil alþjóðlegs vinnuréttar og landsréttar „International Labour Law and Dometic Law“

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn