Hlutverk trúnaðarmannaráðs í stéttarfélögum er almennt skýrt tekið fram í samþykktum þeirra en það er að jafnaði skipað stjórn félagsins, oftast einnig varastjórn svo og tilteknum fjölda fullgildra félagsmanna sem kosnir eru í ráðið eftir sömu reglum og til sama tíma og stjórn félagsins. Að jafnaðir er ráðið æðstavald í félaginu á milli aðalfunda og getur þannig tekið ákvarðanir sem ganga framar ákvörðunum stjórnar. Sjá t.d. Hrd. nr. 301/2002 þar sem trúnaðarráð ákvað í andstöðu við stjórn að tilteknu máli skyldi ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Formaður félagsins er að jafnaði einnig formaður trúnaðarmannaráðs og ritari félagsins ritari þess. Formaður kveður trúnaðarmannaráð til funda með þeim hætti sem hann telur heppilegast en skylt er honum að jafnaði að kveðja það saman ef tiltekinn fjöldi ráðsmanna krefst þess.
Formaður getur að jafnaði í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarmannaráð stjórninni til aðstoðar. Það er gert þegar ýmis félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi. Trúnaðarmannaráð félaganna gegna síðast en ekki síst stóru hlutverki við gerð kjarasamninga og ekki er óalgengt að það sé jafnframt samninganefnd viðkomandi félags.
Um ábyrgð trúnaðarmannaráðs gilda að flestu leyti sömu sjónarmið og um stjórn félags en að sjálfsögðu að teknu tilliti til þess að ráðið kemur lítið að beinni stjórn félagsins.