Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist kröfur lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr. laganna nr. 88/2003.
Ábyrgð sjóðsins takmarkast við kröfur um greiðslu á:
- 12% lágmarksiðgjaldi skv. 2. gr. laga nr. 129/1997, og
- allt að 4% af iðgjaldsstofni samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd, sbr. 9. gr. laga nr. 129/1997.
Ábyrgðartímabil
Ábyrgð sjóðsins tekur til krafna sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag eða réttur hefur unnist til á því tímabili. Þó er heimilt að miða ábyrgðartímabil við frestdag ef sú niðurstaða er hagstæðari fyrir kröfuhafa.
Almennt um skilyrði ábyrgðar
Ábyrgð sjóðsins á kröfum lífeyrissjóða er háð því skilyrði að lífeyrissjóður sýni fram á að hann hafi uppfyllt skyldur sínar um upplýsingagjöf gagnvart sjóðfélaga og innheimtuaðgerðir vegna vanskila í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Til að krafa um greiðslu vangoldinna iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar geti notið ábyrgðar sjóðsins skal vörsluaðili eigi sjaldnar en á hálfs árs fresti senda sjóðfélögum yfirlit um greidd iðgjöld vegna þeirra. Yfirliti þessu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga um að gera án tafar athugasemdir ef sannanlega innheimt iðgjöld hafa ekki borist sjóðnum.
Ábyrgð sjóðsins á iðgjaldakröfum er háð því skilyrði að eðlilega hafi verið staðið að innheimtutilraunum af hálfu lífeyrissjóðs eða vörsluaðila. Við það skal miðað að innheimtuaðgerðir vegna vangoldinna iðgjalda samkvæmt innsendum skilagreinum hefjist innan þriggja mánaða frá eindaga kröfu og að innheimtuaðili geti sýnt fram á að málinu hafi verið fram haldið á eðlilegum hraða eftir þann tíma.
Iðgjöld í vanskilum sem sanna má með skilagrein, byggðri á innsendum launaseðlum, skulu innheimt með sama hætti og iðgjöld samkvæmt skilagrein vinnuveitanda. Lokaaðvörun til vinnuveitanda skal send innan 90 daga frá dagsetningu reglulegs yfirlits.
Hafi lífeyrissjóður eða vörsluaðili viðbótarlífeyrissparnaðar hafið innheimtu á grundvelli áætlunar um upphæð vangoldinna iðgjalda, byggðri á síðustu skilagrein vinnuveitanda eða samningi um viðbótarlífeyrissparnað, og sú áætlun er síðar staðfest að hluta eða að fullu með launaseðlum launamanns eða á annan hátt sem Ábyrgðarsjóður launa metur fullnægjandi þá nýtur krafan ábyrgðar sjóðsins.
Ef sérstaklega stendur á er Ábyrgðarsjóði launa heimilt að viðurkenna kröfu lífeyrissjóðs um lágmarksiðgjald, grundvallaða á launaseðlum, þó ekki hafi verið gætt þeirra fresta sem að framan greinir, svo sem ef viðkomandi lífeyrissjóður hefur ekki í tæka tíð getað sent sjóðfélaga lögboðið yfirlit eða hafið innheimtu á grundvelli áætlunar, þar eð honum hafi ekki verið kunnugt um launagreiðandann og tilvist iðgjaldskröfunnar.