Ábyrgð sjóðsins á launakröfum er bundin fyrirvörum varðandi upphæðir, sbr. 6. gr. laga nr. 88/2003.
Þessar fjárhæðir eru endurskoðaðar árlega með reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa. Ábyrgðarsjóður launa veitir upplýsingar um hvaða hámörk eru í gildi hverju sinni fyrir einstaka flokka launakrafna.
Frádráttur
Greiðslur vinnuveitanda skömmu fyrir gjaldþrot
Greiðslur hins gjaldþrota vinnuveitanda upp í kröfur launamanna skv. 5. gr. laganna sem hann innir af hendi fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti koma til frádráttar hámarksábyrgð sjóðsins eða þeirri fjárhæð sem nýtur ábyrgðar sé hún lægri.
Atvinnuleysisbætur
Atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur í uppsagnarfresti koma til frádráttar kröfum um bætur vegna slita á ráðningarsamningi. Greiðsla sjóðsins til launamanns nemur þeirri fjárhæð sem eftir stendur.
Framkvæmd
Við afgreiðslu sjóðsins á kröfum vegna vinnulauna síðustu þrjá mánuði í þjónustu vinnuveitanda og vegna bóta vegna launamissis er hver mánuður gerður upp sérstaklega. Nái krafa launamanns yfir skemmra tímabil en einn mánuð skal hámarksábyrgð reiknuð í hlutfalli við það tímabil.