Á grundvelli EES-samningsins sem tók gildi 1994 hafa fjölmargar reglur á sviði vinnu- og félagsmála verið lögfestar og/eða teknar upp í kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins hér landi. Þessar reglur eru í formi tilskipana og fjalla að stærstum hluta um skyldur atvinnurekanda og starfsmanna þeirra á sviði vinnuverndarmála. Markmið um jafnrétti kvenna og karla á vinnumarkaði er einnig efni margra tilskipana sem og almenn réttindi launafólks s.s. um rétt þess til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum. Hér verður meginefni þessara tilskipana gerð skil, þ.m.t. með vísan til helstu dóma sem kveðnir hafa verið upp um efni þeirra hjá Evrópudómstólnum annars vegar og EFTA-dómstólnum hins vegar.
Þessar reglur falla í þrjá meginflokka:
Á sviði vinnuréttar
- Réttindi varðandi hópuppsagnir og aðilaskipta að fyrirtækjum.
- Ábyrgð á launum við gjaldþrot.
- Réttur starfsmanna til að fá ráðningar- og starfskjör sín staðfest skriflega.
- Réttindi starfsmanna sem vinna tímabundið í öðrum aðildarríkjum.
- Reglur á sviði upplýsinga og samráðs.
- Réttindi starfsmanna í hlutastörfum og í tímabundnum ráðningum.
Á sviði vinnuverndar
- Vinnutímatilskipunin, sem kveður m.a. á um hámarksvinnutíma launafólks og daglega og vikulega lágmarkshvíld.
- Réttur þungaðra kvenna, kvenna sem nýlega hafa alið börn og sem eru með börn á brjósti.
- Vinnuvernd barna og unglinga.
- Rammatilskipun um vinnuvernd, sem setur ramma um aðbúnað og vinnuverndarstarf á vinnustöðunum.
- Reglur um húsnæði vinnustaða, öryggismerkingar á vinnustöðum, persónuhlífar o.fl.
Á sviði jafnréttismála
- Jafnrétti til launa og starfa.
- Sönnunarbyrði í jafnréttismálum.
- Foreldraorlof ásamt reglum um réttarstöðu þungaðra kvenna.
- Jafnrétti til almannatrygginga.