Réttur vegna forfalla og afleiðinga atvinnusjúkdóma er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða almennan rétt og hins vegar aukinn rétt vegna skaðabótaskyldra atvinnusjúkdóma. Um síðara tilvikið er fjallað í sérstökum kafla hér á eftir.
Þegar um atvinnusjúkdóma er að ræða er alltaf rétt að leita sérfræðiaðstoðar, m.a. stéttarfélaga, til þess að gæta þess að réttindi tapist ekki.
Ef orsök atvinnusjúkdóms er ekki að rekja til sakar atvinnurekanda eða manna sem hann ber ábyrgð á fer um grunnréttindi til launa í forföllum og skyldur vegna hans með sama hætti og fer um aðra sjúkdóma eða veikindi samkvæmt kaflanum um veikindarétt.
Við hinn almenna veikindarétt bætist síðan réttur til dagvinnulauna í þrjá mánuði eftir að almennur veikindaréttur hefur verið tæmdur. Um það er fjallað í 4. gr. laga um uppsagnarfrest og veikindarétt nr. 19/1979. Einn mikilvægur munur er þó á. Þegar um almenn veikindi er að ræða, er veikindaréttur launafólks heildstæður réttur á hverjum 12 mánuðum. Þannig leggjast saman öll forföll án tillits til þess hvort um ólíka sjúkdóma er að ræða eða ekki. Þegar hins vegar er um atvinnusjúkdóma er að ræða á launafólk ætíð óskertan veikindarétt vegna hvers atvinnusjúkdóms og 3 mánaða dagvinnulaunarétt þar til viðbótar óháð fyrri veikindum. Þetta byggir á sérstakri bókun sem gerð var við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á árinu 2000. Þá var svokölluð endurtekningarregla ( nýr sjúkdómur = nýr réttur ) afnumin og almennur veikindaréttur lengdur á móti. Hins vegar var þá bókað að aðilar væru sammála um að þær breytingar á veikindaréttinum skyldu ekki þrengja rétt launafólks frá því sem gilt hafði um atvinnusjúkdóma. Um tengsl atvinnusjúkdóma og uppsagnar vísast til kaflans Tengsl uppsagnar og slysaréttar.
Almenni rétturinn vegna atvinnusjúkdóma er því þessi:
• Almennur og óskertur veikindaréttur eins og kjarasamningar mæla fyrir um hverju sinni – óháð öðrum veikindum á síðustu 12 mánuðum.
• Þar til viðbótar dagvinnulaun í þrjá mánuði.