VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Skaðabótaskyldir atvinnusjúkdómar

Ef rekja má orsakir atvinnusjúkdóms til sakar atvinnurekanda eða manna sem hann ber ábyrgð á ber atvinnurekandi almenna skaðabótaábyrgð vegna hans með sama hætti og hann gerir vegna skaðabótaskyldra vinnuslysa. Það þýðir með öðrum orðum að starfsmaður sem verður fyrir skaðabótaskyldum atvinnusjúkdómi á ekki einasta rétt til launa í veikindum og þriggja mánaða á dagvinnulaunum, heldur bætist við mun víðtækari og flóknari réttur.


Þegar um atvinnusjúkdóma er að ræða er því alltaf rétt að leita sér sérfræðiaðstoðar, m.a. stéttarfélaga, til þess að gæta þess að réttindi tapist ekki. 

Vandinn er sá, að mun erfiðara er að sanna hverju sinni að um sök atvinnurekanda sé að ræða en þegar um skaðabótaskyld vinnuslys er að ræða. Atvinnusjúkdómar koma að jafnaði fram á nokkrum tíma og oft getur verið erfitt að greina frumorsök sjúkdómsins. Það á t.d. við sjúkdóma eins og brjósklos, heyrnardeyfð og í sumum tilvikum hægt verkandi áhrif ýmissa efna og efnasambanda. Verkamaður sem t.d. hefur unnið árum saman hjá fjölmörgum atvinnurekendum við að rífa niður asbest í gömlum húsum og fær alvarlegan sjúkdóm í öndunarfærum á í verulegum erfiðleikum með að sanna hvaða atvinnurekanda er um að kenna auk þess sem mönnum urðu skaðlegir eiginleikar asbest ekki ljósir fyrr en eftir að unnið hafði verið með það árum saman. Fram til þess tíma var notkun þess bæði heimil og eftirsóknarverð.

Hæstiréttur hefur í nokkrum málum fjallað um bótaábyrgð atvinnurekanda vegna atvinnusjúkdóma.

Í Hrd. nr. 315/2006 var fjallað um mál H sem vann á speglunardeild Landakotsspítala frá 1988 til 1996 og á sömu deild Sjúkrahúss Reykjavíkur í Fossvogi frá þeim tíma til 13. nóvember 1997. Í starfi sínu þurfti hún að nota sótthreinsiefnið glútaraldehýð til þess að hreinsa speglunartæki. H krafðist skaðabóta þar sem hún taldi að óvarleg meðferð glútaraldehýðs á spítölunum hefði ollið því að hún sýktist af astma sem gerði henni ókleift að sinna starfi sínu áfram. Dómkvaddir matsmenn og yfirmatsmenn töldu að H hefði hlotið atvinnusjúkdóm og að glútaraldehýðmengun væri líklegasta ástæða sjúkdómsins. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til reglna nr. 401/1989 um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum, og talið að forráðamenn Landakotsspítala hefðu ekki leitt í ljós að þeir hefðu uppfyllt skyldur sínar samkvæmt reglunum. Þá var talið að forráðamönnum spítalans hefði borið að kynna hættulega eiginleika glútaraldehýðs fyrir þeim sem notuðu efnið í störfum sínum. Varðandi aðstöðuna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur var vísað til reglna nr. 496/1996 um efnanotkun á vinnustöðum, sem tóku gildi 1. janúar 1997. Þær reglur lögðu enn ríkari skyldur á forráðamenn spítalans til að tryggja að mengunarvaldandi efni sem unnið var með stofnuðu ekki öryggi og heilsu starfsmanna í voða og að starfsmönnum væri kynntar nauðsynlegar verklagsreglur og öryggisleiðbeiningar. Af gögnum málsins var ekkert ráðið um að þessa hefði verið gætt á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Vegna alls þessa var lagt á Í að sanna að aðstaðan á speglunardeildum framangreindra spítala hefði verið fullnægjandi á þeim tíma sem H vann þar, að mengun af völdum glútaraldehýðs hefði verið undir leyfilegum mörkum og að meðferð efnisins á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hefði uppfyllt kröfur reglna nr. 496/1996. Var talið að Í hefði ekki tekist sú sönnun og bæri hann því skaðabótaábyrgð á tjóni H. Varanleg örorka og varanlegur miski H var í yfirmatsgerð metin 15% og var sú niðurstaða lögð til grundvallar í dómi Hæstaréttar.

Í Hrd. 1996:4139 var fallist á bótakröfur manns vegna heyrnarskerðingar sem hann hafði orðið fyrir vegna langvarandi hávaða á vinnustað í 2-3 ár. Um hávaðavarnir á vinnustöðum voru í gildi tilteknar reglur sem ekki var fylgt. Fyrirtækið var því talið bótaskylt en tjónþoli látinn bera 1/3 hluta tjóns síns sjálfur þar sem honum var ljóst að hávaðinn var mikill. Af þeim ástæðum fór hann í heyrnarmælingu eftir að hafa unnið á staðnum í 1 ár. Þá kom í ljós heyrnarskerðing sem hann lét ekki vita af. 

Í Hrd. 1997:2663 var fjallað um heilaskemmdir af völdum notkunar lífrænna leysiefna við hreinsun á tækjum í prentsmiðju. Tjónþolinn hafði unnið í samtals 12 ár hjá prentsmiðjunni á tímabilinu 1973 til 1992. Litið var til þess að um 1980 var almennt vitað um hættueiginleika lífrænna leysiefna. Þrátt fyrir það og með vísan til laga um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum þar sem mælt er fyrir um þá frumskyldu atvinnurekanda að  tryggja góða aðstöðu og aðbúnað á vinnustað var tjónið dæmt bótaskylt. Tjónþola var hins vegar gert að bera 2/5 hluta tjóns síns sjálfur þar sem honum hafi mátt vera ljóst að aðstæður á vinnustað voru um langan  tíma ófullnægjandi. 

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. janúar 2003 var fjallað um tjón launamanns af völdum asbests sem notað var í Áburðarverksmiðjunni. Í dóminum var talið að í ljósi upplýsinga sem æðstu yfirmenn stefnanda bjuggu yfir um hættueiginleika asbests frá því fyrir árið 1980 hafi þeir ekki gert  viðhlítandi ráðstafanir til að tryggja hollustuhætti starfsmanna  verksmiðjunnar. Þetta ætti bæði við um aðgerðarleysi þeirra varðandi meðhöndlun asbests og skort á fyrirmælum um notkun hlífðarfatnaðar fyrir gildistöku viðeigandi reglugerðar og eins um fremur hæg viðbrögð þeirra eftir þann tíma sem lýstu sér meðal annars í því að asbesti var ekki skipt út sem einangrunarefni í verksmiðjunni fyrr en einstaka einingar hennar voru teknar úr notkun. Eins hinu að geymsla asbestbirgða var í óviðunandi horfi að mati Vinnueftirlitsins fram til ársloka 1986. Þótti verða að meta umrætt aðgerðarleysi sem gáleysi. Þótt ekki væri talið að yfirmennirnir hafi beinlínis brotið ákvæði reglugerðar nr. 74/1983 var ekki talið að þeir hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 23/1952 og síðar lögum nr. 46/1980. Þar sem skilyrðum almennu skaðabótareglunnar um orsakasamband, vávæni, saknæmi og ólögmæti var samkvæmt framansögðu uppfyllt taldist stefnandi hafa orðið fyrir heilsutjóni sem Áburðarverksmiðja ríkisins bæri bótaábyrgð á samkvæmt reglum um húsbóndaábyrgð. Um eigin sök sagði dómurinn að stefnandi hafi sem vaktstjóri og síðan verkstjóri í útideild borið ábyrgð á því að viðeigandi hlífðarfatnaður væri notaður og þá um leið sem yfirmaður borið ábyrgð á því að hann notaði ekki slíkan búnað. Af gögnum málsins og framburði vitna verði hins vegar ekki ráðið að stefnandi, sem var vélvirki að mennt, hafi vitað um hættueiginleika asbests fyrr en umrædd reglugerð kom til framkvæmda í verksmiðjunni og varð þannig að gera greinarmun á vitneskju hans og æðstu yfirmanna verksmiðjunnar sem voru menntaðir efnaverkfræðingar. Ekki liggur fyrir í málinu að það hafi verið í verkahring stefnanda að hafa frumkvæði að notkun öryggisbúnaðar heldur hafi það einungis verið hlutverk hans að framfylgja gildandi reglum í verksmiðjunni um notkun undirmanna á viðeigandi hlífðarbúnaði. Af hálfu stefndu var því ekki haldið fram að stefnandi hafi ekki farið að reglum verksmiðjunnar um notkun á viðeigandi hlífðarfatnaði. Með hliðsjón af framangreindu var ekki talið að stefnandi hefði sjálfur borið hluta sakar á heilsutjóni sínu af völdum asbestmengunar í verksmiðjunni

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn