Þegar starfsmenn einhverra hluta vegna vinna aukafrídaga er aukalega greitt fyrir þá. Í kjarasamningum eru ítarleg ákvæði um greiðslur fyrir vinnu á aukafrídögum og eru þeir mishelgir og því misdýrir í þessu sambandi. Greint er á milli stórhátíðardaga, sem eru víðast nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, jóladagur og aðfangadagur og gamlársdagur eftir kl. 12.00, og annarra frídaga. Vinna á stórhátíðardögum greiðist samkvæmt kjarasamningum með tímakaupi sem nemur 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir vinnu aðra frídaga greiðist yfirvinnukaup eins og það er skilgreint í viðkomandi kjarasamningi.
Sé unnið á launuðum aukafrídegi sem fellur á virkan dag vikunnar eins og t.d. annan í jólum ber að greiða fyrir þann dag 8 dagvinnutíma en að auki unna tíma með yfirvinnukaupi. Sé unnið á launuðum stórhátíðardegi sem fellur á virkan dag vikunnar eins og t.d. á jóladag ber að greiða fyrir þann dag 8 dagvinnutíma en að auki unna tíma með stórhátíðarálagi. Sjá t.d. Hrd. 601/2017.
Um vaktavinnufólk gilda sérákvæði þar sem það vinnur aukafrídaga samkvæmt vaktskrá. Almennt greiðist hærra vaktaálag stórhátíðisdaga en aðra daga.