VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Aðilaskipti að fyrirtækjum

Markmið laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002 er að vernda réttarstöðu og atvinnuöryggi starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eða hluta þeirra og tryggja að atvinnurekandi veiti starfsmönnum eða fulltrúum þeirra nauðsynlegar upplýsingar um ástæður aðilaskiptanna og áhrif þeirra á stöðu starfsmanna.

Aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta þess geta orðið með ýmsu móti s.s. á grundvelli kaupsamnings, leigusamnings eða samkvæmt útboði. Við aðilaskiptin færist ábyrgð á rekstri viðkomandi fyrirtækis af hendi fyrri atvinnurekanda yfir til nýs atvinnurekanda.

Um leið skulu réttindi og skyldur atvinnurekanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað á færast yfir til hins nýja atvinnurekanda. Hann skal jafnframt virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir fyrri atvinnurekanda þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Við þessar aðstæður er óheimilt að segja upp starfsmönnum nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis. 

Lögin hrinda í framkvæmd hér á landi tilskipun nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar. Samkvæmt EES-samningnum geta túlkanir Evrópudómstólsins á ákvæðum þessarar tilskipunar haft áhrif á framkvæmd laganna hér á landi. Sjá nánar um aðilaskipti í Evrópskum vinnurétti hér

Heimilt er að vísa málum sem eru til meðferðar fyrir íslenskum dómstólum og varða spurningar um gildissvið tilskipunarinnar til EFTA-dómstólsins.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn