VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Skyldur félagsmanna

Það er eitt megineinkenni samninga sem menn gera að þeir öðlast réttindi og taka jafnframt á sig skyldur. Samningur um félagsaðild ber einnig þessi sömu einkenni.  Samþykktir félagsins greina helstu atriði um skyldur félagsmanns.

Hlýðni við félagslög og samþykktir félagsins
Með aðild að félagi gangast menn undir skyldu til að hlíta lögum og reglum félagsins og löglega gerðum samþykktum þess.  Í þessu felst þó ekki afsal á rétti til að hafa áhrif á lög og samþykktir til breytingar, en þau lög og samþykktir sem gilda hverju sinni ber að virða.  Þetta eru sömu sjónarmið og gilda í lýðræðislegu réttarríki.  Lög og reglur ber að virða, en hægt er að hafa áhrif til breytinga á þeim. 

Í samþykktum flestra félaga eru ákvæði um hvernig við skuli bregðast ef félagsmaður brýtur lög félagsins og er fjallað um þær reglur annars staðar.

Almennt eru ríkar formkröfur gerðar til lagabreytinga í félögum, lögum ekki breytt nema á aðalfundi, stundum þarf tvær umræður um lagabreytingar og oft er krafist aukins meirihluta til lagabreytinga.  Vekja þarf sérstaka athygli í fundarboði á því ef tillögur um lagabreytingar verða til umræðu.  Aðalfundir eru haldnir einu sinni á ári.  Þessum reglum er ætlað að tryggja festu í félaginu og vönduð vinnubrögð og að lögum sé ekki breytt að vanhugsuðu máli.  Lög ASÍ leggja tilteknar skyldur á aðildarsamtök sín í þessu efni og kveða einnig á um að breytingar á lögunum þeirra komi fyrst til framkvæmda er miðstjórn ASÍ og eftir atvikum stjórn hlutaðeigandi landssambands hafa staðfest þær. 

Í leiðbeinandi fyrirmynd að lögum fyrir verkalýðsfélög sem ASÍ gaf út 1985 og höfð hefur verið til hliðsjónar við endurskoðun laga allra stéttarfélaga innan ASÍ síðan, segir að lögum megi breyta á aðalfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði.  Einnig sé heimilt að breyta lögum á félagsfundi, hafi lagabreytingarnar áður verið ræddar á félagsfundi og þess getið í fundarboði.  Til þess að breytingin nái fram að ganga, verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna. 

Vilji menn ekki una við ákvörðun stéttarfélags geta þeir haft áhrif á félagsfundum.  Telji þeir málin ekki hafa verið nægilega rædd á félagslegum vettvangi er, eins og áður er vikið að,  ákvæði í samþykktum flestra félaga um skyldu félagsstjórnar að boða til félagsfundar hafi tíundi hluti félagsmanna óskað eftir því og tilgreint fundarefni.

Greiða félagsgjöld
Félagsgjaldaskyldan er ein meginskylda félagsmanna í stéttarfélagi.  Greiði menn ekki félagsgjöld tiltekinn tíma eiga þeir á hættu að falla af félagaskrá og réttur þeirra, til dæmis við atkvæðagreiðslu um kjarasamninga, kann að vera fallinn niður.  Félagsgjöld eru nú almennt innheimt sem tiltekinn hundraðshluti af launum, en áður giltu reglur um lágmarksfélagsgjald.   Einstök félög, einkum félög iðnaðarmanna,  hafa ákvæði um hámarks félagsgjald.  Fari félagsgjaldagreiðslur umfram ákveðna krónutölu á ári endurgreiðir félagið félagsmanninum það sem umfram er.  

Atvinnurekendur annast innheimtu félagsgjalds til stéttarfélaga samkvæmt lögum og kjarasamningum.  Þeim er skylt á grundvelli  2. mgr. 6. gr. starfskjaralaganna nr. 55/1980 að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.

Flest félög ASÍ hafa ákvæði í lögum sínum um aldurslágmark.  Menn þurfa að vera 16 ára til að fá inngöngu.  Menn greiða þó almennt félagsgjöld af launum sem þeir afla óháð aldri.  Vinni 15 ára unglingur í frystihúsi greiðir hann stéttarfélagsgjald af þeirri vinnu.  Í samþykktum flestra stéttarfélaga eru þó ákvæði um að þegar menn ná tilteknum aldri verði þeir gjaldfríir.  Er þá ýmist miðað við 65 ára aldur, 67 ára aldur eða 70 ára aldur.  

Gegna trúnaðarstörfum
Þar sem félag táknar skipulagsbundin, varanleg samtök manna er nauðsynlegt að félagsmenn taki á sig skyldur til að sinna trúnaðarstörfum.  Yfirleitt er þetta tekið fram í samþykktum félags.   Eru þessar reglur í ætt við lagareglur um þegnskyldu til að taka sæti í sveitarstjórn og á Alþingi.  Víða er skylda til að sinna trúnaðarstörfum fyrir félag bundin við tiltekið tímabil og að því loknu geta menn skorast undan slíkum störfum.  Þótt félagsmönnum sé almennt skylt að taka að sér trúnaðarstörf þykir ekki heppilegt að velja menn til trúnaðarstarfa fyrir félag, nema leitað hafi verið eftir samþykki þeirra og þeir séu því samþykkir.  

Í tengslum við kosningar í stéttarfélögum hefur komið upp ágreiningur um það hvort menn hafi í raun gefið kost á sér til trúnaðarstarfa.  Á lista yfir frambjóðendur í trúnaðarmannaráð hafa verið nöfn manna, sem gáfu ekki samþykki sitt til slíks.   Litið hefur verið svo á að í skyldu til trúnaðarstarfa felist ekki skylda til að taka sæti á lista í kosningum í félaginu.   Leita þurfi samþykkis frambjóðenda á lista fyrir framboði sínu.  Miðstjórn ASÍ hefur staðfest niðurstöðu kjörstjórnar stéttarfélags um að framboð hafi verið ógilt vegna þessa formgalla.  Sjá hér mótframboð í stjórnarkjöri í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis 1991.  Eðlilegt er að sama regla sé viðhöfð um kosningar í stéttarfélögum og í Alþingiskosningum um að menn kannist við framboð sitt með undirskrift. 

Vinna ekki með ófélagsbundnum mönnum
Víða í félagslögum stéttarfélaga eru ákvæði um það að ein af skyldum félagsmanna sé að vinna ekki með ófélagsbundnum mönnum í greininni og að félagsmönnum sé skylt að tilkynna til félagsins ef þeir verða varir við brot í þessum efnum.   Ákvæðinu er ætlað að stuðla að almennri virkni í stéttarfélögum og efla verkalýðshreyfinguna í heild sinni.  

Þetta ákvæði hefur verið talið nægilegur grundvöllur fyrir því að menn hafi lagt niður vinnu.  Í dómi Félagsdómi 6/1973(VII:112)   lögðu starfsmenn niður vinnu í vélsmiðju til að mótmæla því að þar starfaði járnsmiður sem var ekki félagsmaður í Járnsmíðafélaginu.  Hann var sonur eigandans og hafði ekki talið sér skylt að vera í félaginu.  Járnsmiðirnir á staðnum lögðu þá niður vinnu til að mótmæla þessu og gerðu það með vísan til ákvæðis í lögum Félags járniðnaðarmanna.  Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að aðgerðir járnsmiðanna teldust ekki verkfall í skilningi laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. 

Í mars 1994 bannaði stjórn Mjólkurfræðingafélags Íslands félagsmönnum sínum á Húsavík og Egilsstöðum að vinna með ófaglærðum iðnaðarmönnum við störf sem hún taldi heyra undir mjólkuriðnað.  Langvarandi deila hafði þá verið milli félagsins og þessara aðila um það hvaða störf tilheyrðu mjólkurfræðingum.   Eftir nokkurra daga vinnustöðvun hvarf stjórnin síðan frá aðgerðum, en þá hafði Vinnumálasamband samvinnufélaganna stefnt félaginu fyrir Félagsdóm vegna verkfallsbrots.  Félagsdómur kvað því aldrei upp dóm í málinu.

Stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í félagið
Sum félög hafa um það ákvæði í samþykktum sínum að félagsmenn skuli stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í félagið.  Kemur þetta ákvæði stundum í stað reglunnar um bann við vinnu með ófélagsbundnum mönnum. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn