VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Almenn skilyrði

Almenn skilyrði fyrirvaralausrar uppsagnar eða brottreksturs eru þau að vanefndir starfsmanns á ráðningarsamningi séu verulegar, annað hvort vegna ásetnings eða stórkostlegs gáleysis, svo sem að starfsmaður mætir ekki til starfa, rækir störf sín með verulega ófullnægjandi hætti eða gerist alvarlega brotlegur í starfi. Atvinnurekandi verður að hafa áminnt starfsmann og sýnt fram á að sakir séu til staðar og ber að sanna það. Gera verður ríkari kröfur um vanefndir hér, en almennt er gert í samningarétti, þar sem fyrirvaralaus uppsögn getur valdið mikilli röskun á lífi launamanns, bæði tekjulega séð og eins á stöðu hans.

Þær meginreglur sem taldar eru gilda um fyrirvaralausar uppsagnir eru nokkuð vel tilgreindar í eftirfarandi Hrd. nr. 524/2006 þar sem atvinnurekanda var sýknaður af kröfum launamanns vegna fyrirvaralausrar uppsagnar. Í dómi héraðsdóms sem staðfestur var í Hæstarétti segir „Í lögum nr. 19/1979 er ekki veitt bein heimild til fyrirvaralausra slita ráðningarsamnings. Almenna reglan er sú að slíkum samningum skal sagt upp með ákveðnum fyrirvara. Í fræðunum er þó talið að slík heimild sé til. Í sjómannalögum nr. 35/1985 er að finna heimildir í 23. og 24. gr. til fyrirvaralausra slita. Má lýsa þeim reglum með orðunum veruleg vanefnd og brostnar forsendur. Eru þessar heimildir taldar gilda í öllum vinnusamningum, þannig að unnt sé að slíta þeim fyrirvaralaust við aðstæður sem lýsa má með þessum hugtökum. Stefnanda var aldrei veitt skrifleg áminning. Sannað er með skýrslum forsvarsmanna stefnda og vitna að honum hefur verið veitt tiltal, sennilega oftar en einu sinni.“

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn