VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Lengd fæðingarorlofs

Hvoru foreldri er tryggður réttur til sex mánaða orlofs. Þrátt fyrir framangreint er foreldri heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Fæðingarorlofið vegna barns er þannig samanlagt eitt ár. 

Með þessu fyrirkomulagi fæðingarorlofs er stigið róttækt skref til þess  að jafna rétt foreldra til fæðingarorlofs og að njóta samvista með barni sínu til jafns. Jafnframt má ætla að þessi ráðstöfun leiði til jafnari stöðu og jafnari möguleika kynjanna á vinnumarkaði. Körlum er gert mögulegt að axla meiri ábyrgð á börnum og heimili. Þá eiga atvinnurekendur síður að geta gengið að því vísu, eins og verið hefur, að konurnar beri jafnan ábyrgð á og annist börnin en karlarnir taki frekar starfið fram yfir fjölskylduábyrgðina.

Í 17. til og með 19. gr. fæðingarorlofslaga er fjallað um veikindi barns eða móður, bæði á meðgöngu og eftir fæðingu og umsókn um lengingu á fæðingarorlofi vegna þess. Rökstyðja þarf slíkar lengingar með vottorði sérfræðilæknis og er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfæðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Þá skal fylgja umsókn um lengingu fæðingarorlofs staðfesting atvinnurekanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við á, þar sem fram kemur hvenær greiðslur til umsækjanda féllu niður.

Synjun Vinnumálastofnunar um lengingu fæðingarorlofs er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn