Eins og fyrr segir eru stéttarfélög frjáls félagasamtök launafólks hvers kjarnahlutverk er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna og launafólks almennt gagnvart atvinnurekendum og samtökum þeirra m.a. með gerð kjarasamninga. Þau eru félög sérstaks eðlis og njóta verndar í stjórnarskrá, lögum og alþjóðasamþykktum sem Ísland á aðild að. Þau hafa að lögum mikilvægi hlutverki að gegna á vinnumarkaði, í afkomu launafólks og í efnahagslífi hverrar þjóðar. Af þessum ástæðum gilda ekki sömu reglur um aðild að þeim eins og gilt geta um önnur frjáls félagasamtök sem ekki njóta þessarar miklu verndar og sem ekki bera þessar mikilvægu skyldur. Fjölmargir alþjóðlegir samningar og sáttmálar sem Ísland er aðila að gilda um þetta efni.
Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess
Í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess segir í 2. gr. að verkamenn og vinnuveitendur skuli án undantekningar hafa rétt til þess að stofna og ganga í félög að eigin geðþótta án undangengins leyfis, og séu þeir aðeins háðir reglum hlutaðeigandi félags um inngöngu í það. Ísland fullgilti samþykkt nr. 87 þann 4. október 1950 og tók hún gildi ári síðar.
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna
Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 er tekið fram í 4. tölulið 23. gr. að hver maður megi stofna til stéttarsamtaka og ganga í þau til verndar hagsmunum sínum. Mannréttindayfirlýsingin er ekki þjóðréttarsamningur og því ekki bindandi að lögum fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.
Mannréttindasáttmáli Evrópu
Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur að geyma ákvæði um rétt manna til aðildar að stéttarfélögum. Í 11. gr. sáttmálans segir að mönnum skuli rétt að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum. Ísland hefur fullgilt sáttmálann og hefur hann gildi að þjóðarrétti. Sáttmálinn hefur nú verið lögfestur hér á landi, samanber lög nr. 62/1994.
Félagsmálasáttmáli Evrópu
Félagsmálasáttmáli Evrópu geymir ákvæði um rétt til aðildar að stéttarfélögum í 5. grein. Ísland fullgilti sáttmálann 1976.
Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi
Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem samþykktur var af Allsherjarnefnd Sameinuðu þjóðanna 1966 og fullgiltur var af Íslands hálfu 1979 kveður á um skyldur aðildarríkja til að ábyrgjast rétt allra til að gerast félagar í því stéttarfélagi sem þeir velja sér, þó einungis að áskildum reglum hlutaðeigandi félags. Eru ákvæði þessi í 8. gr. samningsins. Samningurinn hefur gildi að þjóðarrétti.
Alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 og undirritaður var af Íslands hálfu 30. desember það ár geymir ákvæði í 22. gr. um rétt allra til að ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.