Telja verður að atvinnurekandi hafi til þess fulla heimild að víkja manni úr starfi ef hann verður uppvís af refsiverðri háttsemi í starfi og þurfi ekki sérstaka áminningu. Gjaldkeri dregur sér fé, afgreiðslumaður hnuplar úr verslun. Sakir verða þá að liggja ljósar fyrir við brottrekstur og ber atvinnurekanda að sýna fram á þær. Um trúnaðarbrot geta svipuð sjónarmið komið upp, svo sem ef starfsmaður skýrir keppinaut frá atvinnuleyndarmáli. Ölvun starfsmanns í vinnu er ennfremur talin gild brottrekstrarsök.
Í öðrum tilvikum getur leikið vafi á því hvaða hvort trúnaður gagnvart atvinnurekanda hafi verið brotinn og til hvaða viðbragða atvinnurekanda er heimilt að grípa til.
Lrd. nr. 388/2023. Ekki var talið það réttlæta fyrirvaralausa uppsögn þó starfsmaður hafi hafið undirbúning samkynja eiginrekstrar með stofnun einkahlutafélags meðan hann var enn í starfi en rekstur þess hófst 4 mánuðum eftir að ráðningarsambandið leið undir lok. Í Hrd. nr. 500/1998 var komist að gagnstæðri niðurstöðu en hafa ber í huga að undirbúningur var í því máli lengra kominn og í reynd hafinn áður en ráðningarsambandið leið undir lok. Sjá einnig Hrd. nr. 605/2006 og Hrd. nr. 606/2006 sem vörðuðu starfsmenn sem hófu störf hjá samkeppnisaðila á uppsagnarfresti.
Hrd. 53/2017. Starfsmaður í forsvari fyrir annað fyrirtæki. Eins atvik málsins lágu var ekki talið að um brot á trúnaðarskyldu væri að ræða.
Hrd. nr. 240/2016. Í málinu var deilt um hvort starfsmaður hefði brotið trúnað með því að senda á einkanetfang sitt tiltekin skjöl með mikilvægum trúnaðarupplýsingum en honum var vegna þess sagt fyrirvaralaust upp starfi.
Þá var í Hrd. nr. 230/2008 m.a. deilt um hvort ráðningarsamningi hefði verið rift með sannanlegum hætti þar sem launamaður hefði ráðið sig í vinnu hjá samkeppnisaðila.
Hrd. nr. 347/2005. Aðilar deildu um hvort Ó hafi fyrirgert rétti sínum til fjögurra mánaða biðlauna úr hendi V vegna þeirrar háttsemi sinnar að hafa, þegar leið að starfslokum hans hjá V, eytt miklum fjölda tölvugagna af heimasvæði sínu í borðtölvu og af harða diski fartölvu sem hann hafði til afnota í starfi sínu. Fram var komið að tekist hafði að endurheimta mikinn fjölda skjala, sem eytt hafði verið, en ekki lágu fyrir glöggar upplýsingar um efni þessara skjala. Ó kvaðst eingöngu hafa eytt persónulegum skjölum og skjölum sem engu skiptu fyrir starfsemi V, auk þess sem hann hafi gætt þess að öll gögn sem einhverja þýðingu gæti haft væru vistuð bréflega í skjalasafni V. Talið var, að V hafi verið í lófa lagið að hrekja þessar staðhæfingar Ó með því að gera frekari grein fyrir efni þeirra skjala sem tókst að endurheimta, en það hafi hann ekki gert, auk þess sem hann hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna hátterni Ó. Var V því gert að greiða Ó fjárhæð sem nam fjögurra mánaða biðlaunum hans.
Hrd. nr. 55/2002. Í máli þessu var fjallað um heimild atvinnurekanda til fyrirvaralausrar brottvikningar vegna ákveðinna atburða er gerðust eftir að starfsmanni hafði verið sagt upp störfum og sú heimild ekki talin hafa verið til staðar.
Hrd. nr. 334/2001. Efnafræðingur sem starfað hafði hjá S ehf. frá árinu 1995, sagði starfi sínu lausu frá og með 1. mars 2000 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ágreiningslaust var að hann hafði haldið fund 7. apríl 2000 með fyrirsvarsmönnum þriggja fyrirtækja sem átt höfðu í samkeppni við S ehf., þar sem rætt var um hugsanlega samvinnu og jafnvel samruna þessara fyrirtækja. Var sú háttsemi hans talin ósamrýmanleg trúnaðarskyldum, sem hann bar gagnvart vinnuveitanda sínum. Var því fallist á með S ehf. að félaginu hefði verið heimilt að víkja honum úr starfi án aðvörunar eða fyrirvara.