VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Undanþágur frá ábyrgð

Í 10. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa eru taldir upp þeir aðilar sem ekki njóta ábyrgðar á launum sínum við gjaldþrot atvinnurekanda.

Framkvæmdastjóri og stjórnarmenn

Launakröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis njóta ekki ábyrgðar sjóðsins.

Hluthafar

Sama gildir um kröfur launamanns sem var eigandi, einn eða ásamt maka sínum eða öðrum nákomnum, að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafði umtalsverð áhrif á rekstur þess.

Starfsmenn nákomnir stjórnendum/hluthöfum

Ábyrgðasjóði launa er heimilt að hafna kröfum maka þeirra einstaklinga sem taldir eru upp hér að framan, annarra skyldmenna eða þeirra sem nákomnir eru þeim að öðru leyti ef sýnt er fram á að kröfur þeirra séu óréttmætar með tilliti til framangreindra tengsla.

Lækkunarheimild

Ábyrgðasjóði er heimilt að lækka greiðslu úr sjóðnum miðað við gerða kröfu ef krafan telst óeðlilega há miðað við það starf sem kröfuhafi gegndi, starfstíma hans og þau launakjör sem tíðkast í viðkomandi starfsgrein eða eftir atvikum í hinu gjaldþrota fyrirtæki.

Sérregla vegna vinnuslysa

Framangreindar reglur eiga ekki við um kröfur vegna vinnuslysa.

Verktakar

Kröfur verktaka njóta ekki ábyrgðar hjá sjóðnum. 

Það ber að athuga að ef sýnt er fram á að einstaklingur sem gerir kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa starfaði í raun og veru sem launamaður undir daglegri stjórn og á ábyrgð atvinnurekanda þá skiptir ekki höfuðmáli þó að í samningum aðila hafi hann verið kallaðar verktaki. 

Upplýsingaskylda

Samkvæmt lögunum ber þeim sem kröfu gerir á hendur sjóðnum að greina frá því í kröfugerð sinni hvort þau atvik sem nefnd er í 10. gr. laganna hvað varðar ábyrgð á stjórn fyrirtækis, skyldleika og/eða eignatengsl hafi átt við um hann á þeim tíma sem krafa hans um laun á hendur atvinnurekanda stofnaðist.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn