VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Ráðningarsambönd – stofnun og eðli

Ráðningarsamband er almennt persónubundið sem þýðir að aðilar geta ekki fengið aðra aðila til að efna skyldur sínar skv. samningnum. Launamaður getur ekki falið öðrum að vinna fyrir sig og atvinnurekandi getur ekki selt starfsfólk sitt til vinnu hjá öðrum atvinnurekanda. Sérreglur gilda um framsal ráðningarsamninga samkvæmt lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Ráðningarsamningur verður að vera í samræmi við kjarasamning og ákvæði í ráðningarsamningi um lakari rétt launamanns eru ógild samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks nr. 55/1980.

Auk hefðbundinna beinna tvíhliða ráðningarsambanda hafa rutt sér til rúms svokölluð þríhliða ráðningarsambönd og það algengasta birtist við útleigu starfsmanna. Launamaður er þá í beinu tvíhliða ráðningarsambandi við starfsmannaleigufyrirtæki en er leigður notendafyrirtæki um lengri eða skemmri tíma. Um þetta er fjallað sérstaklega hér. Einnig er sérstaklega fjallað um vinnustaðaeftirlit og vinnustaðaskírteini en þeim úrræðum er ætlað að auðvelda eftirlit með því að kjarasamningum og lögum sé fylgt m.a. hvað varðar þau réttindi og þær skyldur sem fylgja tegundum ráðningarsambanda.  

Ráðningarsamband getur stofnast með óformlegum hætti og samningur sem þannig stofnast verið gildur líkt og á við um aðra löggerninga í íslenskum rétti. Meginregla vinnuréttar er hins vegar sú, að ráðningu skal annað af tvennu staðfesta skriflega eða gera um hana ráðningarsamning. Sú regla byggir á ákvæðum kjarasamninga og ákvæðum tilskipunar 91/522/EBE.  

Í þessum kafla er m.a. fjallað um hvenær og hvernig til ráðningarsambanda stofnast, heimil og óheimil ákvæði ráðningarsamningum, áunnin réttindi sem launafólk flytur með sér milli starfa, reglur um val á starfsmönnum þ.m.t. forgangsréttarákvæði kjarasamninga, aldur o.fl. Einnig er fjallað um tímabundnar ráðningar og hlutastörf.

Ráðningarsamningsform. 

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn