Atvinnurekanda ber að sinna margvíslegri tilkynningarskyldu til Vinnueftirlits ríkisins (VER). Þannig skal senda VER afrit af iðnaðarleyfum, leita umsagnar VER ef aðili ætlar að hefja rekstur fyrirtækis eða breyta eldra fyrirtæki, tilkynna þarf VER um alla starfsemi sem lögin taka til áður en hún hefst og sækja um starfsleyfi. Þá ber einnig að tilkynna VER öll vinnuslys ásamt tilkynningu til lögreglustjóra, og skal tilkynna þetta svo fljótt sem unnt er og ekki síðar en innan sólarhrings. Ef skyndileg hætta kemur upp á vinnustað skal gera VER aðvart svo fljótt sem verða má.
Vinnuslys
Atvinnurekanda ber án ástæðulausrar tafar að tilkynna VER öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna VER eigi síðar en innan sólarhrings.
Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja og þjónustuaðili skulu fá afhent afrit af tilkynningunni.
Læknir, sem kemst að því eða fær grun um að starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins.
Tryggingastofnun ríkisins skal senda Vinnueftirliti ríkisins afrit af tilkynningum um slys á vinnustöðum sem henni berast.
Mengun
Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en innan sólarhrings um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hvers konar hættuleg efni eða efnavörur geti valdið mengun. Skal atvinnurekandi veita upplýsingar um aðstæður á slysstað, um hvers konar efni er að ræða og hvaða ráðstafana gripið hafi verið til eftir því sem frekast er unnt.
Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið eða óhappið til Vinnueftirlits ríkisins. Þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja og þjónustuaðili skulu fá afhent afrit af tilkynningunni.
Atvinnurekandi skal upplýsa þá starfsmenn sem er hætta búin eða fulltrúa þeirra án tafar um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hættuleg efni og efnavörur geti valdið mengun.
Vinnueftirlit ríkisins skal tilkynna Umhverfisstofnun um tilvik þar sem hætta er á að mengunin dreifist út fyrir vinnustaðinn.
Óheimilt er að breyta aðstæðum á slysstað fyrr en vetttvangskönnun hefur farið fram, nema vegna björgunaraðgerða.