Sé vanefnd atvinnurekanda veruleg að mati dóms, svo sem veruleg vanefnd á launagreiðslum, atvinnurekandi beitir starfsmann líkamlegu ofbeldi, atvinnurekandi breytir starfssviði starfsmanns þvert á ráðningarsamning hans eða yfirmaður sýnir óforsvaranlega hegðun, til dæmis kynferðislega áreitni, getur starfsmanni verið heimilt að lýsa sig óbundinn af vinnusamningi einhliða, hverfa úr starfi. Starfsmaður þarf þá að sýna fram á brot atvinnurekanda. Sjá Hrd. 1995:1293.
Í 24. gr. hjúalaga er talið upp hvenær hjúi er heimilt að ganga fyrirvaralaust úr vist. Það getur gerst þegar hjú sannar að húsbóndi hefur gerst sekur um alvarlegt brot á skyldum sínum gagnvart því, svo sem ef hann 1) misþyrmir hjúinu, 2) leitast við að tæla hjúið til illverka eða lauslætis, eða ef aðrir heimilismenn gera sig bera að slíku og húsbóndi veitir ekki hjúinu tilhlýðilega vernd þótt það beri sig upp undan því við hann, 3) lætur hjúið að staðaldri búa við illa og ónóga fæðu, óforsvaranlega aðhlynningu eða heilsuspillandi húsnæði, 4) meiðir freklega mannorð hjúsins eða ber því á brýn glæpi sem það er saklaust af, 5) geldur hjúi ekki kaup í ákveðinn tíma þótt krafist sé, 6) stofnar ranglega og að nauðsynjalausu lífi eða heilsu hjúsins í hættu. Þótt telja verði að ákvæði hjúalaga séu að mestu úrelt hefur verið lögjafnað frá þeim þegar kemur að reglum um bætur og reglur um brot eru grundvöllur bótareglnanna svo ekki er fráleitt að hafa þær til hliðsjónar í þessu samhengi.
Hrd. nr. 153/2001. Sú staðreynd að ekki varð af endurskoðun launakjara starfsmanns var ekki talin slík vanefnd af hálfu atvinnurekanda samkvæmt reglum vinnuréttar, sbr. og 24. gr. hjúalaga nr. 22/1928, að réttlætti fyrirvaralausa riftun starfsmanns á vinnusamningi og var hann með þessu talinn hafa fyrirgert rétti til þeirra launa í uppsagnarfresti, sem hann krafði um.
Hrd. nr. 233/2003. Vanefnd atvinnurekanda á greiðslu launa þótti, eins og á stóð, ekki þess eðlis að hún hafi heimilað starfsmanni að slíta vinnusamningi þeirra fyrirvaralaust.
Í Hrd. nr. 41/2009 var fjallað um mál S sem starfaði sem framkvæmdastjóri hjá K ehf. Í málinu krafði hún félagið um laun í 6 mánaða uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi. Byggði S á því í málinu að með því að verulegar breytingar hefðu verið gerðar á starfi hennar hefði félagið í raun einhliða rift starfssamningi hennar og framkvæmdastjórastaða hennar verið lögð niður. Breytingar á starfsviði hennar hafi verið verulegar og niðurlægjandi og hafi henni verið heimilt að neita að undirgangast þær og því ekki verið skylt að vinna í uppsagnarfresti. K ehf. hélt því hins vegar fram að S hefði látið af störfum af sjálfsdáðum og ætti því ekki rétt á launum í uppsagnarfresti. Talið var að breytingar á starfi S hefðu verið framkvæmdar með fulltingi hennar en ekki yrði séð að hún hefði mótmælt þeim sérstaklega fyrr en rétt áður en hún lét af störfum. Niðurstaðan var því sú að S hefði látið af störfum að eigin ósk fyrirvaralaust og ekki unnið út uppsagnarfresti. Var K ehf. sýknað af kröfu S.