VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Lífeyrissjóðir

Lífeyrissjóðirnir hafa það meginhlutverk að tryggja sjóðfélögum sínum ellilífeyri til æviloka og tryggja þá og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi af völdum starfsorkumissis eða andláts. Lífeyrissjóðakerfið íslenska byggir á þremur grunnstoðum; sjóðsöfnun, samtryggingu og skylduaðild.

Almennu lífeyrissjóðirnir starfa á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og opinberu sjóðirnir á grundvelli sérstakra laga, m.a. laga nr. 1/1997.

Í lögum nr. 129/1997 er launamönnum og þeim sem stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi gert skylt að greiða a.m.k. lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs en iðgjaldið er að öðru leyti ákveðið í sérlögum og kjarasamningum. Lágmarksiðgjald er nú skv. lögum 12% af iðgjaldsstofni en sá stofn er allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. 

Samkvæmt lögunum fer um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu þess milli launamanns og launagreiðanda eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein eða sérlögum ef að við á.

Þá er í lögunum skilgreining lágmarkstryggingar sem lífeyrissjóðirnir þurfa að veita en hún er miðuð við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds og skal fela í sér 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af í mánaðarlegan ellilífeyri ævilangt frá þeim tíma sem taka hans hefst, þó ekki síðar en frá 70 ára aldri. Örorkulífeyrir skal sömuleiðis vera 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt var iðgjald af fyrir örorku miðað við full réttindi til framreiknings.

Skipta má réttindakerfum lífeyrissjóðanna í tvo meginflokka; Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna en þeir eru fastréttindasjóðir en hins vegar lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði en þeir eru fastiðgjaldasjóðir. Munurinn felst einkum í því að í fastréttindasjóðum er sjóðfélögum lofað ákveðnum gefnum réttindum á grundvelli ákvarðaðs iðgjalds og hjá lífeyrissjóðum opinberu starfsmannanna er áhættan af rekstri sjóðsins borin af launagreiðanda. Í fastiðgjaldasjóðunum ráðast réttindi hvers og eins af stöðu sjóðsins hverju sinni og þeim iðgjöldum sem til sjóðanna eru greidd. Ekki er veitt nein baktrygging ef ávöxtun er ekki fullnægjandi og því getur þurft að skerða réttindin frá einum tíma til annars.

Þegar þetta er ritað (06.2010) vantar rúmlega 500 milljarða króna inn í lífeyrissjóði ríkis og sveitarfélaga til þess að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðfélögum. Þeirri byrði er dreift á alla skattgreiðendur, þar á meðal skattgreiðendur á almennum vinnumarkaði. Á sama tíma verða almennu lífeyrissjóðirnir að draga úr réttindum vegna taps á útistandandi kröfum eftir hrunið í október 2008 og vegna aukinnar örorkubyrði sjóðanna.

Almennur vinnumarkaður

Á hinum almenna vinnumarkaði hefur í kjarasamningum verið samið um skiptingu lífeyrissjóðsiðgjalds með þeim hætti að launafólk greiðir 4% iðgjald  af launum og atvinnurekandi 8%.

Þar sem þessir sjóðir njóta ekki bakábyrgðar launagreiðenda ráðast lífeyrissréttindin m.a. af raunávöxtun sjóðanna, ævilíkum og tíðni örorku. Þannig geta lífeyrisréttindin verið mismunandi frá einum tíma til annars allt eftir fjárhagsstöðu sjóðanna.

Í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða segir að leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur sé á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga er viðkomandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Með öðrum orðum þá felur þessi skylda það í sér að lífeyrissjóðirnir verða að bregðast við slíku með skerðingu á réttindum sjóðsfélaga.

Lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði hafa nú tekið upp aldurstengt réttindakerfi en í því felst að iðgjöld skapa réttindi í samræmi við þann tíma sem þau ávaxtast í sjóðnum. Iðgjald sem greitt er snemma á starfsævinni veitir því meiri rétt en iðgjald sem greitt er seinna. 

Opinber vinnumarkaður

Lífeyrissjóðsaðild starfsmanna hins opinbera fer eftir stéttarfélagsaðild þeirra. Þannig geta t.d. þeir starfsmenn ríkisins einir sem eru félagsmenn í stéttarfélögum sem semja á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 átt rétt á aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, skv. lögum nr. 1/1997. Starfsmenn ríkisins sem aðild eiga að almennu félögunum eiga því aðild að hinum almennu lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðsaðild starfsmanna sveitarfélaga er með sambærilegum hætti, þ.e. félagsmenn opinberu félaganna geta einir átt að aðild að lífeyrissjóðum starfsmanna sveitarfélaganna en starfsmenn sveitarfélaga sem tilheyra almennu félögunum greiða til almennu lífeyrissjóðanna.

Réttindi sjóðfélaga hjá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, þ.e. t.d. hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóðum sveitarfélaga, eru allnokkru betri en réttindi hinna almennu lífeyrissjóða.  Annars vegar vegna þess að sjóðir þessir eru fastréttindasjóðir og hins vegar vegna þess að iðgjaldaframlag launagreiðenda er nokkru hærra en launagreiðenda á almenna markaðnum. Þó er greitt aukaiðgjald vegna þeirra starfsmanna hins opinbera sem eru í almennu stéttarfélögunum og eru heildariðgjöld vegna þeirra nú samtals 15,5% af launum, 4% frá launamanni en 11,5% frá atvinnurekanda.

A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er fastréttindasjóður og kemur m.a. fram í lögunum um sjóðinn að leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjaldagreiðslur dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins skuli stjórn sjóðsins hækka framlag atvinnurekanda til samræmis við þá niðurstöðu. Með öðrum orðum þá er lofað föstum réttindum og ef eignir sjóðsins duga ekki fyrir þeim þá greiðir launagreiðandi, þ.e. ríkið, það sem á vantar. Ekki kemur því til skerðingar á réttindum sjóðfélaga með tilliti til raunávöxtunar sjóðanna og öðrum slíkum þáttum. Þeir starfsmenn ríkisins sem eru félagsmenn í almennu stéttarfélögunum geta aftur á móti lent í því að lífeyrissjóðsréttindi þeirra séu skert.

Starfsmenn sveitarfélaga búa við tvenns konar lífeyriskerfi með sambærilegum hætti og starfsmenn ríkisins.

  • Lífeyrisréttindi á almenna vinnumarkaðnum ráðast m.a. af iðgjaldagreiðslum og raunávöxtun lífeyrissjóðanna og þannig geta lífeyrisréttindi frá einum tíma til annars verið mismunandi eftir fjárhagsstöðu sjóðanna.
  • Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna njóta bakábyrgðar launagreiðanda, þ.e. hins opinbera (ríkis- og sveitarsjóðs), dugi iðgjaldagreiðslur og ávöxtun sjóðanna ekki fyrir skuldbindingum. Ekki kemur því til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga með tilliti til stöðu sjóðanna á hverjum tíma.
VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn