Launamenn sem að eigin frumkvæði segja starfi sínu lausu eiga almennt ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar fyrr en að liðnum ákveðnum biðtíma. Samkvæmt lögunum er sá biðtími talsvert langur eða 40 bótadagar (þ.e. virkir dagar) sem jafngilda um 2 mánuðum. Sá biðtími getur við vissar kringumstæður lengst í 60 bótadaga sem jafngilda um 3 mánuðum.
Vinnumálastofnun leggur mat á það við skoðun á þeim gögnum sem fylgja með umsókn launamanns um atvinnuleysisbætur hvort ástæða sé til að beita ákvæðum laganna um biðtíma. Það eru fyrst og fremst upplýsingar á vottorði vinnuveitanda um ástæður starfsloka sem geta gefið tilefni til slíkrar skoðunar. Ef sú er raunin verður öll málsmeðferð og ákvörðun um beitingu viðurlaga að fullnægja kröfum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það þýðir að Vinnumálastofnun verður að sjá til þess að málið sé vel upplýst áður en ákvörðun er tekin, gæta þarf andmælaréttar, umsækjandinn á rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða og verði það niðurstaðan að beita hann viðurlögum verður sú ákvörðun að vera rökstudd. Samkvæmt lögunum má kæra ákvörðun um biðtíma til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta.
Ákvæðum laganna um biðtíma er ætlað að stemma stigu við því að launafólk segi starfi sínu lausu í þeim tilgangi að sækja sér framfærslu til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
Uppsögn að frumkvæði starfsmanns þarf ekki í öllum tilvikum að leiða til þess að hann verði beittur framangreindum viðurlögum. Hann verður þá að sýna fram á að hann hafi haft gilda ástæðu til að segja upp starfi sínu. Það er hins vegar vandasamt að skilgreina hvað beri að flokka sem gildar ástæður í skilningi laganna með þeim áhrifum að ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar um biðtíma skuli ekki beitt.
Við framkvæmd laganna hafa einkum atvik sem tengjast búferlaflutningum fjölskyldu launamanns, heilsufarsástæður og aðrar sambærilegar óvæntar/óviðráðanlegar kringumstæður verið viðurkenndar sem gildar ástæður í skilningi laganna. Óánægja með laun og almenn starfsskilyrði hafa á hinn bóginn ekki talist til gildra ástæðna fyrir uppsögn í skilningi laganna svo fremi sem að þau atriði hafa verið innan ramma laga og kjarasamninga.
Í greinargerð með lögum um atvinnuleysistryggingar segir um þetta atriði:
„Nefndin er fjallaði um efni laga um atvinnuleysistryggingar fjallaði um þetta atriði og komst að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem gætu talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segir störfum sínum lausum eða missir þau geta verið af margvíslegum toga. Er því lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falla að umræddri reglu. Stofnuninni ber því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í ljósi þess að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða eru gerðar ríkar kröfur um að þegar ákvarðanir um biðtíma eru teknar liggi fyrir hvaða ástæður lágu raunverulega að baki því að launamaður sagði upp starfi sínu án þess að hafa annað starf í hendi enda oft um að ræða viðkvæm mál í slíkum tilvikum. Mikilvægt er að þau meginsjónarmið er ákvörðunin byggist á séu tilgreind í rökstuðningi stofnunarinnar.“
Biðtími eftir atvinnuleysisbótum
Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar gilda sömu viðurlög þegar starfi er sagt upp án gildra ástæðna og þegar starfi er hafnað án gildra ástæðna. Viðurlögin eru almennt þau að hinn tryggði missir rétt til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga, þ.e. 40 virka daga.
40 daga biðtími
54. gr. ATVL er svohljóðandi:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“
Atvinnuleysisbætur eru einungis greiddar fyrir virka daga vikunnar. Virkir dagar í mánuði er að meðaltali 21,67.
Missir bótaréttar í 40 bótadaga þýðir m.ö.o. að umsækjandi um atvinnuleysisbætur fær ekki greiddar atvinnuleysisbætur í um tvo mánuði. Hann getur hins vegar verið skráður atvinnuleitandi hjá vinnumiðlun og á rétt á þjónustu hennar á þessu tímabili.
Í raun er það svo að sá sem missir rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt framansögðu, verður til að fá greiddar atvinnuleysisbætur síðar, að fullnægja almennum skilyrði laganna í þessa 40 daga. Hann verður m.ö.o. að sýna fram á að hann sé í virkri atvinnuleit og vinnufær meðan á þessum biðtíma varir. Að þessu leyti er hann í sömu stöðu á þessu 40 bótadaga tímabili og sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur. Ef hann er ennþá atvinnulaus að þessum biðtíma liðnum fær hann greiddar atvinnuleysisbætur að fullnægðum almennum skilyrðum laganna.
Þessi réttaráhrif koma hins vegar ekki til ef viðkomandi einstaklingur sinnir ekki atvinnuleit á þessu tímabili, hann verður óvinnufær, byrjar í námi o.s.frv. Meðan þannig stendur á kemur ákvörðun um beitingu 40 daga biðtíma ekki til framkvæmda. Ákvörðunin er hins vegar skráð í kerfi Vinnumálastofnunar og er heimilt að beita henni síðar þegar viðkomandi einstaklingur sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Við vissar aðstæður getur ákvörðun um 40 daga biðtíma fallið niður.
40 daga biðtími fellur niður
Við ákveðnar aðstæður getur biðtími, sem ákveðinn hefur verið vegna þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, fallið niður vegna atvika sem síðar verða.
Um þetta er fjallað í 3. mgr. 54. gr. ATVL en þar segir að taki hinn tryggði launamaður starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á 40 bótadaga biðtíma stendur fellur biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hefur:
- starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur
- enda hafi hann sagt síðara starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum.
Samkvæmt lögunum fellur biðtíminn hins vegar ekki niður ef:
- hið nýja starf varir í skemmri tíma en 10 virka daga,
- hann hefur sagt nýja starfinu lausu án gildra ástæðna eða
- misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.
Biðtíminn heldur þá áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur.
60 daga biðtími – ítrekunaráhrif
Í 56. gr. ATVL kemur fram að hafi hinn tryggði áður sætt biðtíma samkvæmt:
- 54. gr. (uppsögn starfs án gildra ástæðna/eigin sök), eða
- 55. gr. (námi hætt) ,
- eða viðurlögum skv. 57.–59. gr. (starfi/aðstoð vinnumiðlunar hafnað) og sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa verið í starfi
- í skemmri tíma en 24 mánuði og
- sagt því starfi upp er hann gegndi síðast án gildra ástæðna
þarf hann að sæta biðtíma í 60 bótadaga.
Viðbót við 60 daga biðtíma
Þegar biðtími skv. 54. og 55. gr. eða viðurlög skv. 57.–59. gr. hafa frestast samkvæmt:
- 3. mgr. 54. gr., (nýtt starf varir skemur en 10 virka daga/uppsögn án gildra ástæðna)
- 3. mgr. 55. gr., (nám / 3. mgr. 54. gr.)
- 3. mgr. 57. gr., (starfi eða atvinnuviðtali hafnað / 3. mgr. 54. gr.)
- 3. mgr. 58. gr. (þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum hafnað / 3. mgr. 54. gr.) eða
- 3. mgr. 59. gr. (rangar upplýsingar / 3. mgr. 54. gr.)
leggst sá tími sem eftir var af fyrri biðtíma eða viðurlagaákvörðun saman við 60 bótadaga biðtímann.
Bótaréttur fellur alfarið niður
Þegar sá sem áður hefur sætt 60 bótadaga biðtíma skv. 1. mgr. 56. gr. ATVL sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa verið í starfi í skemmri tíma en 24 mánuði og hefur sagt upp því starfi sem hann gegndi síðast án gildra ástæðna skal hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað í a.m.k. átta vikur á innlendum vinnumarkaði.
Hann getur öðlast bótarétt að nýju eftir að hafa stundað vinnu í a.m.k. 25% starfi samfellt í átta vikur eða lengri tíma.
Hið sama á við um þann sem hefur sætt biðtíma skv. 1. mgr. 56. gr. og sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa misst starfið af ástæðum sem hann á sjálfur sök á eða hætt námi án gildra ástæðna.
Endurtaki atvik sig sem lýst er hér að framan á sama bótatímabili hins tryggða á hann ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. (nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst áður en fyrra tímabili lýkur að fullu.) Þetta þýðir m.ö.o. að ef hinn tryggði hefur í fjórða skiptið sagt upp starfi án gildra ástæðna eða á sjálfur sök á vera sagt upp starfi á sama bótatímabili þá á hann ekki rétt á bótum úr kerfinu fyrr en að hafa verið virkur þátttakandi á innlendum vinnumarkaði samfellt í a.m.k. 24 mánuði enda hefst þá nýtt bótatímabil.
Með virkri þátttöku er átt við að hlutaðeigandi launamaður hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á því tímabili sem um ræðir.
Ítrekunaráhrif samkvæmt þessari grein falla þá niður þegar nýtt bótatímabil skv. 29. gr. hefst.
Gildar ástæður — reglum um bíðtíma ekki beitt
Langur tími liðinn frá starfslokum
Ákvæði ATVL um biðtíma nefna það ekki hvernig með eigi að fara þegar hinn tryggði segir starfi sínu upp án gildra ástæðna, en sækir hins vegar ekki um atvinnuleysisbætur strax heldur bíður með það, jafnvel í nokkra mánuði. Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta hefur fjallað um slík mál og í einhverjum tilvikum fallið frá að beitingu ákvæða laganna um 40 daga biðtíma. Slík mál hafa snúist um launamenn sem sótt hafa um atvinnuleysisbætur þegar 6 mánuðir eða meira hafa verið liðnir frá starfslokum þeirra en ekki er útilokið að skemmri tímabil geti leitt til sömu niðurstöðu.
Búferlaflutningar
Við framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar hefur umsækjandi um atvinnuleysisbætur ekki verið beittur viðurlögum í formi biðtíma ef hann hefur sagt starfi sínu lausu, eða hafnað starfi eftir atvikum, með þeim rökum að maki hans hafi farið til starfa í öðrum landshluta, hafið nám eða stofnað til atvinnurekstrar í öðrum landshluta og fjölskyldan hafi að þeim ástæðum þurft að flytja búferlum.
Uppsögn starfs og búferlaflutningar sem einungis má rekja til fjárhagslegra ástæðna hefur hins vegar ekki verið viðurkennd sem gild ástæða í skilningi laganna.
Heilsufarsástæður
Heilsufarsástæður geta, líkt og búferlaflutningar milli landshluta, verið skilgreindar sem gildar ástæður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Hér er fyrst og fremst um það að ræða að uppsögn starfs verður rakin til þess að hinn tryggði launamaður, sem telst að öðru leyti vinnufær, hafi af heilsufarsástæðum (andlegum sem líkamlegum) sagt sig frá þeirri vinnu sem hann hefur stundað. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar. Í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir um þessa undanþágu að skilyrði sé að vinnuveitandanum hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en viðkomandi starfsmaður lét af störfum.
Fæðingarorlof
Samkvæmt 29. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 á starfsmaður sem hefur nýtt rétt sinn til orlofs samkvæmt lögunum rétt á starfi sínu að því loknu. Í þessari grein laganna segir að ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda haldist óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Skal starfsmaður eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.
Ákvörðun launamanns um að segja starfi sínu lausu, þ.e.a.s. að mæta ekki aftur til starfa eftir að fæðingar- eða foreldraorlofi lýkur þó hann eigi lögbundinn rétt á því, flokkast ekki sem gild ástæða í skilningi ATVL. Heyrir það til undantekningartilvika að umsækjandi sé ekki látinn sæta biðtíma ef starfslok ber að með slíkum hætti. Reynir einkum á slíkar undantekningar þegar starf viðkomandi einstaklings er utan venjulegs dagvinnutíma, s.s. kvöld- og/eða helgarvinna eða vaktavinna.
Ágreiningur um starfskjör
Ágreiningur um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkast almennt ekki sem gildar ástæður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Heyrir það til algerra undantekninga að fallist sé á slíkar skýringar.
Námi hætt
Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar en hættir námi án gildra ástæðna á ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni. Nám í þessum skilningi er skilgreint í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Hinn tryggði skal uppfylla almenn bótaskilyrði á biðtímanum.
Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma stendur fellur biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum.
Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 56. gr. laganna.