Heimilt er að segja trúnaðarmanni upp þegar hann nær eftirlaunaaldri, enda komi kjarasamningar, lög eða venja ekki í veg fyrir það. Um þetta fjallaði Félagsdómur árið 1973, sjá Félagsdóm 5/1972 (VII:57). Málsatvik voru þau að trúnaðarmanni var sagt upp hjá fyrirtæki og borið við aldri, en trúnaðarmaðurinn var á 71. aldursári. Kom fram að fyrirtækið hafði tekið upp þá reglu að hámarksaldur starfsmanna skyldi vera 70 ár.
Stéttarfélagið höfðaði mál og krafðist þess að uppsögnin yrði dæmd brot á 11. gr. og því ólögmæt. Í dóminum sagði að eigi væri fram komið að lagareglur, venja né kjarasamningar skjóti loku fyrir lögmæti slíkra ákvarðana um hámarksaldur starfsmanna. Verði trúnaðarmenn stéttarfélaga jafnt sem aðrir að hlíta þessum aldursmörkum.