Í kjarasamningum er kveðið á um hvaða lágmarkslaun skuli greidd fyrir tiltekin störf. Það eru þau atriði sem flestir kjarasamningar byrja á að fjalla um, og þau atriði sem flestar kjaradeilur ganga út á. Í kjarasamningum er samið um tímakaup eða mánaðarkaup, um launauppbætur, orlofsuppbætur og desemberuppbætur, um námskeiðsálög, yfirvinnu og fleira.
Ákvæði í kjarasamningum eru lágmarkskjör. Ákvæði í ráðningarsamningum um lakari kjör en kjarasamningar kveða á um eru ógild á grundvelli 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Vísa má m.a. til eftirfarandi dóma Hæstaréttar hér um: Hrd. 17/2009, Hrd. 524/2006, Hrd. 352/1999.
Lög nr. 55/1980 gilda hins vegar ekki um atvinnurekendur sjálfa eða stjórnarmenn fyrirtækja sbr. Hrd. 438/2012.
Ráðningarsamningar hafa oft að geyma ákvæði um yfirborganir, annað hvort að samið sé um ákveðna krónutölu eða yfirborgunarhlutfall á tiltekinn launaflokk, samið um fasta yfirvinnugreiðslu eða að kaupákvörðunin sé ekki í neinum tengslum við ákvæði kjarasamnings. Þegar metið er hvort lágmarkslaun hafi verið greidd hefur Hæstiréttur litið heildstætt á laun viðkomandi launamanns sbr. t.d. Hrd. 273/2010 og Hrd. 308/2010. Í því efni skiptir miklu að ráðningarsamningar séu skýrir og öllum ljóst hvort og þá hvernig vikið sé frá lágmarksákvæðum og reglum kjarasamninga. Sjá nánar: Ráðningarsamningar – form og efni og Hvað ber að varast við gerð ráðningarsamninga.