Lögmæt verkfallsvarsla
Til að fylgjast með því að verkfallsbrot séu ekki framin og verkfall sé virt á vinnustöðum halda stéttarfélög uppi verkfallsvörslu. Fara verkfallsverðir á milli staða og gæta þess að ekki sé verið að brjóta verkfall, að ekki sé verið að ganga í störf verkfallsmanna og þeir sem kunna að vera við störf hafi til þess heimild.
Vissar venjur hafa skapast um verkfallsvörslu og framkvæmd verkfalls. Félög, og þá viðkomandi verkfallsstjórnir, hafa tekið á beiðnum um undanþágur eftir því sem þær hafa borist, og afgreitt þær.
Við verkfallsvörslu ber að gæta þess að fara að settum reglum. Verkfallsvörðum er heimilt að vinna að því að fylgja eftir ofangreindri 18. grein, en þeir mega ekki taka í sínar eigin hendur réttarvörslu. Réttarvarsla eða réttargæsla er ávallt í höndum löggæslunnar, og einungis í undantekningartilvikum geta almennir borgarar tekið réttarvörslu í sínar hendur.
Í grein Gunnars Sæmundssonar sem ber yfirskriftina „Verkfallsheimildir og réttur til að halda uppi verkfallsvörslu með tilliti til 18. gr. laga nr. 80/1938“ og birtist í 4. tölublaði Úlfljóts árið 1978 setur hann fram sjónarmið um það hvað séu mörk lögmætrar og ólögmætrar verkfallsvörslu. Hann segir þar að það liggi í augum uppi að verkfallsvörðum sé eins og öðrum þjóðfélagsþegnum heimilt að freista þess að koma í veg fyrir verkfallsbrot með ábendingum, fortölum og hótunum um kæru til dómstóla, áður en brot er hafið og eftir að það er byrjað. Ennfremur segir hann að þar sem verkfallsvarsla sé skilin undan valdsviði lögreglunnar sé ljóst að þessi angi af réttarvörslu sé heimill jafnt verkfallsvörðum sem öðrum, svo framarlega sem valdi þurfi ekki að beita. Það leiði af eðli verkfalla að í þeim verði jafnan miklir hagsmunaárekstrar. Það hve miklir hagsmunir séu oft í veði valdi því að jafnvel löghlýðnir borgarar freistist til að fremja verkfallsbrot. Sú mikla spenna sem skapist í kjaradeilum og stafi meðal annars af því áliti hvors aðila um sig að hinn sýni ótrúlega óbilgirni auki á þessa freistingu. Þetta valdi því að í löngu verkfalli sé nærri óhugsandi annað en að verkfallsbrot séu reynd, og sé ásetningur þess sem brotið reyni þá venjulega sterkari en svo að hann láti skipast við fortölur. Komi þá að því að einungis valdbeiting geti komið í veg fyrir brot. Hann bendir á ákvæði almennra hegningarlaga um neyðarvörn, að það verk sé refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til að verjast eða afstýra ólögmætri árás sem byrjuð er eða vofir yfir og segir verkfallsbrot vera ólögmæta árás á lögverndaða hagsmuni verkfallsmanna og verði því mætt með neyðarvörn. Valdbeiting verkfallsvarða gegn verkfallsbroti sé því lögmæt, enda sé hún innan marka leyfilegrar neyðarvarnar. Niðurstaða hans er því sú að íslenskur réttur heimili stéttarfélögum að halda uppi réttarvörslu á þessu tiltekna sviði, en hér eins og annars staðar eigi dómstólar úrlausn þess, hvort þeir sem réttarvörsluna annist hafi farið offari í starfi.
Verkfallsvarsla annarra stéttarfélaga
Jafnframt gæta önnur stéttarfélög þess að félagsmenn þeirra séu ekki látnir ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Eins og um annað tengt verkföllum geta deilur sprottið um framkvæmd þessa.
Í Félagsdóm 6/2000 (XI:589) háttaði atvikum þannig þar að Eining-Iðja í Eyjafirði hafði bannað félagsmönnum sínum að landa afla úr tilteknum skipum og vinna hann þar sem launafólk sem að jafnaði sinnti þessum störfum í öðrum byggðalögum væri í lögmætu verkfalli og því væri um brot gegn 18.gr. laga 80/1938 að ræða ef störfin væru unnin. Samtök atvinnulífsins höfðuðu mál gegn félaginu og kröfðust þess að fyrirmælin yrðu dæmd sem brot gegn friðarskyldu félagsins skv. gildandi kjarasamningi þess. Á það var fallist þar sem Einingu-Iðju tókst ekki að sýna fram á að grundvöllur hins umdeilda banns væri nógu traustur. Dómurinn verður ekki skilinn öðruvísi en þannig að bann félagsins sem slíkt gæti hafa staðist ef færðar hefðu verið nægilegar sönnur á að skipunum hefði verið beint inn á félagssvæði félagsins beinlínis til þess að vinna gegn löglega boðuðu verkfalli á öðru félagssvæði. Ef vafi er talinn leika á heimildum stéttarfélaga í þessu efni er eðlilegt að þau boði samúðarverkfall til stuðnings þeirri aðgerð sem hlut á en slíkt er heimilt undir friðarskyldu.
Ólögmæt verkfallsvarsla og skaðabætur
Oft verða miklar deilur og jafnvel stimpingar við verkfallsvörslu, þar sem greint er á um það hvort verið sé að brjóta verkfallið eða ekki. Oftast nær hafa aðilar gert um það samkomulag þegar kjarasamningar hafa náðst, stundum með sérstakri bókun, að ágreiningsmál vegna framkvæmdar verkfalls skuli niður falla. Takist það ekki er stundum leitað með þau til dómstóla og skaðabóta krafist.
Í Hrd. nr. 215/2000 var sýknað af kröfu um skaðabætur. Nokkrir dómar hafa þó fallið vegna framkvæmdar verkfallsvörslu þar sem dæmt hefur verið að verkfallsverðir hafi farið út fyrir þann ramma sem þeim er heimilaður. Aðilar sem telja sig verða fyrir tjóni af ólögmætri verkfallsvörslu höfða þessi mál.
Ýmsir dómar um verkfallsbrot
Í Félagsdómi 19/2019 var dæmt að félagsmanni í stéttarfélagi sem ekki var með kjarasamning um þau störf sem hann vann hefði verið óheimilt að vinna í verkfalli stéttarfélags sem stóð í kjaradeilu við atvinnurekanda hans um þann lágmarkskjarasamning sem gilti um kjör hans skv. lögum nr. 55/1980.
Í Félagsdómi 15/2001 var fjallað um margþætt verkfallsbrot sem m.a. lutu að málamyndagerningum við leigu fiskiskips, ráðningu manna í stað verkfallsmanna o.fl. Brotin voru dæmd alvarleg og sektarákvæðum laga 80/1938 beitt.
Í Félagsdómi 11/1997 (XI:195) var tekist á um hvort það væri brot gegn 18. gr. að fá annan aðila til þess að framkvæma verk sem falla skyldi niður vegna verkfalls starfsmanna hjá þeim sem upphaflega tók það að sér sbr. og Félagsdóm 6/2000(XI:589).
Í Hrd. 1994:367 var Verslunarmannafélag Suðurnesja dæmt skaðabótaskylt vegna farþega, sem ekki komst í flug vegna verkfallsvörslu. Snerist deilan í raun um það hvort forstjóra Flugleiða hafi verið heimilt að annast farþegaafgreiðslu í brottfararsal í Leifsstöð og ganga þannig í störf þeirra sem voru í verkfalli. Verkfallsverðir héldu uppi verkfallsvörslu í brottfararsal og meinuðu farþegum að komast að afgreiðsluborði, þar sem forstjórinn stóð. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki brotið í bága við ákvæði laga nr. 80/1938 að forstjóri Flugleiða innti af hendi framangreind störf í stað undirmanna sinna í verkfallinu. Einnig yrði að telja nægilega í ljós leitt að verkfallsverðir myndu hafa hindrað brottför farþegans með valdi, hefði hann látið á það reyna. Dómurinn taldi aðgerðir verkfallsvarða ólögmætar og bar félagið því fébótaábyrgð á tjóni hans.
Í Hrd. 1991:443 var Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri dæmt skaðabótaskylt vegna atviks sem átti sér stað við verkfallsvörslu á Akureyrarflugvelli. Þar höfðu verkfallsverðir hindrað farþega í því að fara um borð í flugvél, en umdæmisstjóri hefði mátt ganga í störf undirmanna sinna við afgreiðslustörf. Hefðu aðgerðir verkfallsvarðanna því ekki verið þáttur í að koma í veg fyrir verkfallsbrot, samanber 18. gr. laga nr. 80/1938, heldur hefðu einungis beinst að því að hefta för farþegans og því verið ólögmætar. Hæstiréttur staðfesti dóminn og dæmdi farþeganum auk bóta vegna fjárhagslegs tjóns einnig miskabætur vegna þess harðræðis sem hann mátti þola við hina ólögmætu verkfallsvörslu.
Í Hrd. 1986:1206 var Bandalag starfsmanna ríkis og bæja dæmt skaðabótaskylt vegna verkfallsvörslu sem beindist að því að hindra rektor Háskóla Íslands í að opna húsnæði skólans í verkfalli húsvarðar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að engar réttarreglur stæðu í vegi fyrir því að rektor, sem æðsta yfirmanns stjórnsýslu skólans væri heimilt að opna hús háskólans, svo að fullnægt yrði þar lögbundinni starfrækslu enda þótt hafið væri verkfall BSRB og voru aðgerðirnar dæmdar ólögmætar.