Hagsmunaágreiningur er þegar deilt er um það hvaða kaup og kjör skuli gilda á vinnumarkaði, þegar samningur aðila er útrunninn eða samningur milli þeirra hefur aldrei verið fyrir hendi. Hagsmunaágreiningur er annað orð yfir kjaradeilur. Hagsmunaágreiningur er almennt skilyrði fyrir því að hægt sé að beita vinnustöðvun, verkfalli eða verkbanni. Sjá Félagsdóm 7/1988 (IX:253) en einnig er heimilt að efna til vinnustöðvunar til þess að fylgja eftir Félagsdómi.
Hagsmunaágreiningur
Ákvæði um vinnustöðvun er að finna í II. kafla laganna um stéttarfélög og vinnudeilur, fyrst og fremst í 14. gr. Þótt hagsmunaágreiningur sé meginskilyrði fyrir því að hægt sé að beita vinnustöðvun, finnast undantekningar þar frá, og þá sérstaklega 17. gr. laganna.
Ekki er hægt að efna til verkfalls um hvaða kröfur sem er og grundvallarskilyrði lögmætrar vinnustöðvunar er, að þeir sem kröfunni er beint að geti orðið við henni sbr. t.d. Félagsdóm 11/1993 (X:111) þar sem meirihluti dómsins taldi raunverulega ástæðu verkfallsboðunar Sjómannafélags Reykjavíkur, kröfu um að tiltekið skip sem Hf. Eimskipafélag Íslands hafði ekki ráðstöfunarrétt yfir skyldi mannað íslenskum hásetum. Við þeirri kröfu gat útgerðin ekki orðið. Krafa þessi var hins vegar ein af fjórum kröfum sem verkfall var boðað til að fylgja eftir. Þrátt fyrir það var verkfallið talið ólögmætt og verður því að álykta sem svo, að kröfugerðin í heild verði að varða raunverulegan hagsmunaágreining sem gagnaðila er fært að taka þátt í að leysa.
Félagsdómi fylgt eftir
Í 17. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er kveðið á um það að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun ef ágreiningur er einungis um atriði, sem Félagsdómur á úrskurðarvald um nema til fullnægingar úrskurðum dómsins. Samkvæmt þessu er heimilt að hefja vinnustöðvun til að fylgja eftir dómi Félagsdóms.
Um framkvæmd slíkrar vinnustöðvunar er ekki fjallað sérstaklega í lögum nr. 80/1938 eða greinargerð með lögunum. Þar sem orðið vinnustöðvun er notað í inngangi 17. gr. sem fjallar um þessa undantekningu frá þeirri meginreglu að vinnustöðvun megi einungis gera vegna hagsmunaágreinings verður að túlka greinina þannig að um boðun og framkvæmd gildi önnur ákvæði II. kaflans eftir því sem við getur átt sbr. m.a. Félagsdóm 4/1963 (V:127). Í því máli hafði verkfall verið boðað skv. þágildandi lögum til að fylgja eftir, að því er stéttarfélagið taldi, niðurstöðu Félagsdóms. Verkfallið var þó dæmt ólögmætt, þar sem dómur Félagsdóms sem var grundvöllur vinnustöðvunarinnar kvað ekki berum orðum á um persónulega skyldu viðkomandi atvinnurekanda eða um félagslega afstöðu hans til LÍÚ, sem var hinn dæmdi aðili.