Þótt tilteknir dagar séu lögskipaðir frídagar fylgir því ekki sjálfkrafa réttur til launa þá daga sem fólk er í fríi. Þótt kjarasamningar geri almennt ráð fyrir að starfsfólk öðlist strax rétt til óskerts vikukaups og þannig óskertra launa á aukahelgidögum er það þó ekki algilt. Þannig segir í kjarasamningi SGS að verkamaður verði að hafa unnið hjá sama vinnuveitanda samfellt í 1 mánuði til að öðlast rétt á óskertu vikukaupi þannig að samningsbundnir frídagar sem falla á mánudaga til og með föstudaga séu greiddir. Í samningnum er ennfremur skýrt út hvað átt sé við með samfelldri eins mánaðar vinnu hjá sama vinnuveitanda. Það er full dagvinna í einn mánuð, enda jafngildi fjarvistir vegna veikinda, slysa, orlofs, verkfalla eða verkbanna fullri vinnu svo og ef vinna fellur niður vegna hráefnisskorts eða sambærilegra orsaka.
Það kaup sem greitt er fyrir aukafrídaga sem ekki eru unnir er dagvinnukaup.