Í réttinum til friðheilags einkalífs felst m.a. vernd gegn ástæðulausum líkamsrannsóknum þ.m.t. vímuefnaprófunum. Nánari útfærslu er svo að finna í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Réttarverndin tryggir að úrvinnsla á upplýsingum úr vímuefnaprófunum skuli vera málefnaleg og fagleg. Ljóst er að hér er fjallað um mikilvæg grunnréttindi og þess vegna skal í öllum tilvikum láta persónufrelsi einstaklings njóta vafans ef svo ber undir. Engar sérreglur gilda um vímuefnaprófanir atvinnurekenda á starfsfólki hér á landi og er því stuðst við meginreglur framangreindra réttarheimilda um friðhelgi einkalífs og meðferð og vinnslu persónuupplýsinga. Í áliti Persónuverndar um vinnslu persónuupplýsinga við gerð vímuefnaprófana kemur fram að Persónuvernd telur æskilegt að nýttar verði lagaheimildir til að setja reglur um vímuefnapróf á vinnustöðum og vinnslu persónuupplýsinga, eða þá að slíkt sé gert í kjarasamningi. Haft skal þó í huga að slíkar reglur geta ekki gengið lengra á rétt einstaklinga en framangreindar réttarheimildir segja til um að sé í lagi.
Í 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar segir m.a. að ekki megi gera líkamsrannsókn á manni nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála er hugtakið „líkamsrannsókn“ nánar skilgreint. Þar er nefnt að taka blóð- og þvagsýnis og annars lífsýnis teljist til líkamsrannsókna. Í lögum hefur það iðulega verið skilgreint hvenær og hverjir megi taka lífsýni úr manni eða láta mann gangast undir líkamsrannsókn af öðru tagi. Má nefna fyrrnefnda 77. gr. laga um meðferð sakamála, 71. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, 113. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, 7. gr. laga nr. 16/2000, um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi og 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ekkert þessara ákvæða heimilar aftur á móti atvinnurekanda að krefjast þess að starfsmaður gangist undir líkamsrannsókn og ekki verður séð að slík heimild sé til staðar í íslenskum lögum. Því verður að álykta að engin lagaheimild standi til þess að senda starfsmann í vímuefnapróf rétt eins og 71. gr. stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir.
Rétt er að geta þess að Alþýðusambandið hefur um langt skeið gert kröfu um að sett verði lög um vímuefnapróf sem byggi á meginsjónarmiðum um persónuvernd, en sem jafnframt miði að því að tryggja sem best öryggi og vinnuvernd starfsmanna. Í því sambandi má geta að í nefndaráliti meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar við þinglega meðferð frumvarps þess er varð að núgildandi lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga er tekið undir þessi sjónarmið ASÍ.
Með vísan í framangreint er mikilvægast fyrir stéttarfélög að gæta sérstaklega að;
- Prófin séu gerð fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi;
- fyrir liggi afdráttarlaust og upplýst samþykki starfsmanns
- þau séu framkvæmd af fagfólki;
- meðferð, geymsla og eyðing upplýsinga úr prófunum sé í samræmi við lög um persónuvernd; og
- brugðist sé við niðurstöðum í samræmi við efni þeirra og starfsmaður njóti vafans.
Leiðbeiningar um svör við áleitnum spurningum um vímuefnaprófanir er að finna í undirköflunum hér á eftir.