VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Aðilaskipti

Í lögunum er hugtakið aðilaskipti skilgreint á eftirfarandi hátt: „aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi.“ Lögin um aðilaskipti eiga við hvort heldur aðilaskipti eiga sér stað fyrir eða eftir gjaldþrot að undanskyldum ákvæðum um vernd gegn uppsögnum og yfirfærslu ábyrgðar á launaskuldum en þau ákvæði eiga ekki við um aðilaskipti eftir gjaldþrot.

Í greinargerð með lögunum segir að byggt sé á skilgreiningu hugtaksins skv. tilskipun Evrópusambandsins nr. 2001/23/EB með tilliti til túlkunar Evrópudómstólsins. Í formála tilskipunar nr. 2001/23/EB er tekið fram að sú skýring sem þar kemur fram hafi ekki breytt gildissviði eldri tilskipunar um sama efni nr. 77/187/EBE eins og það er túlkað af dómstólnum. Í máli C-24/85 (Speijkers) hafi Evrópudómstóllinn talið að meginviðmiðið til að ákvarða hvort um væri að ræða aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar vera hvort fyrirtækið héldi einkennum (e. identity) sínum. Í því sambandi gaf hann dómstólum aðildarríkjanna ákveðnar leiðbeiningar um þau atriði sem hafa skal í huga við mat á því hvort aðilaskipti að fyrirtæki falli undir gildissvið tilskipunarinnar. Þar á meðal þarf að líta til þess um hvaða tegund fyrirtækis sé að ræða. Einnig getur skipt máli hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld, svo sem fasteignir eða lausafé, og hvert sé verðmæti óhlutbundinna verðmæta þegar aðilaskipti fara fram. Jafnframt er litið til þess hvort meirihluti starfsmanna flyst til hins nýja vinnuveitanda og hvort framsalshafi heldur viðskiptavinum framseljanda. Sá tími, ef svo ber undir, sem rekstur fyrirtækis liggur niðri eftir að aðilaskipti hafa átt sér stað þar til hann hefst að nýju getur einnig haft áhrif á mat dómstóla um hvort aðilaskiptin teljist eiga undir tilskipunina, sem og að hve miklu leyti reksturinn er sambærilegur fyrir og eftir aðilaskiptin. Dómstóllinn tók jafnframt fram að líta skyldi heildstætt á framangreind atriði en ekki hvert þeirra eitt og sér. Ljóst er að slík ákvörðun getur verið nokkuð matskennd en þessar leiðbeiningar hafa verið staðfestar í síðari dómum Evrópudómstólsins. 

Nokkur dómafordæmi Hæstiréttar um hugtakið aðilaskipti

Hæstiréttur hefur í nokkrum málum fjallað um þá spurningu hvort framsal á atvinnurekstri til nýrra aðila uppfylli það skilyrði laganna að um aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verða í efnahagslegum tilgangi, hafi verið að ræða.

Í Hrd. nr. 222/2006 voru atvik máls með þeim hætti að starfsfólki Jökuls ehf. á Raufarhöfn var tilkynnt í lok maímánaðar 2003, að fyrirhuguð væri gagnger endurskipulagning á starfsemi Jökuls ehf. Breyta ætti framleiðslunni þannig að unninn yrði léttsaltaður þorskur í stað lausfrystra flakabita og blokkarvinnslu. Af þessu leiddi að stöðugildum yrði fækkað úr rúmlega 50 í um 20. Nauðsynlegar breytingar yrðu einnig gerðar á húsakynnum og vélakosti. Yrði stefnt að því að hin nýja starfsemi hæfist um haustið að loknum sumarleyfum. Þegar var hafist handa við framkvæmd þessara breytinga með uppsögnum starfsfólks en þær dregnar til baka vegna gagnrýni á framkvæmd þeirra. Starfsfólkinu var sagt upp að nýju og ákveðið, samkvæmt tilkynningu 16. júní 2003, að vinnslu úr tvífrystu hráefni yrði haldið áfram eftir sumarleyfi til loka september. Vinnsla á léttsöltuðum þorskafurðum skyldi hefjast „í húsnæði Jökuls í haust“. Um sumarið yfirtók GPG síðan verkefnið og verður ekki séð að framangreind áform hafi breyst við það að neinu verulegu leyti. GPG leigði allar húseignir Jökuls ehf. sem notaðar höfðu verið við fiskvinnsluna og þau tæki sem nýta mátti. Jökull ehf. sá einnig um að fjármagna ýmsar nauðsynlegar breytingar á tækjakosti. Vinnslan hófst á svipuðum tíma og áætlað hafði verið, eða 1. október 2003 og skipti ekki máli að mati Hæstaréttar þó að leigusamningur aðila væri ekki formlega undirritaður fyrr en 15. desember sama ár. Þriðjungur starfsmanna var endurráðinn eins og til hafði staðið. Samkvæmt samningi lét Jökull ehf. GPG í té hráefni til vinnslu, en ágreiningur er um hvort það gekk eftir. Framleiðslan var ekki eðlisólík þeirri sem stunduð hafði verið, starfhæf efnahagsleg eining hafði verið til staðar sem með breytingum var nýtt áfram við hina nýju vinnslu. Áfrýjandi hafði hins vegar áður framleitt fyrir hefðbundna saltfiskmarkaði og mátti vænta þess að hann hafi getað nýtt þau viðskiptasambönd. Í forsendum dóms Hæstaréttar segir að þegar allt framangreint væri metið í ljósi leiðbeininga um skýringu á hugtakinu „aðilaskipti“ í 4. tölulið 2. gr. laga nr. 72/2002 og þær virtar með hliðsjón af því meginmarkmiði laganna að setja ákvæði um verndun launamanna við þær aðstæður þegar nýir vinnuveitendur taki við atvinnustarfsemi væri staðfest niðurstaða héraðsdóms um að aðilaskipti í skilningi laganna hefðu átt sér stað.

Í Hrd. nr. 289/2005reis ágreiningur um það hver ætti að bera ábyrgð á því að efna ráðningarsamning sem gerður hafði verið við framkvæmdastjóra fyrirtækis sem var síðan selt nýjum rekstraraðila. Taldi framkvæmdastjórinn að öll réttindi og allar skyldur samkvæmt ráðningarsamningnum hefðu færst yfir til kaupanda en sá hafnaði ábyrgð á þeim grundvelli að ekkert ráðningarsamband hefði stofnast milli þeirra. Málsatvik voru þau að umræddur maður réði sig til starfa sem framkvæmdastjóri hjá Ísland DMC ehf. og dótturfyrirtækjum þess með ráðningarsamningi 20. ágúst 2001. Þann 15. febrúar 2004 gerðu Ferðaskrifstofa Íslands og Ísland DMC ehf. með sér kaupsamning „um hluta af starfsemi seljanda og tilgreindar eignir hans…“  Í 1. grein samningsins segir að hér sé nánar um að ræða „rekstur ferðaskrifstofu… ásamt hluta af tækjum og búnaði, starfssamningum, viðskiptasamningum, viðskiptasamböndum og öðru sem tilgreint er í samningi þessum. Samningurinn tekur þannig til: 1. Ferðaskrifstofurekstrar, ásamt öllu prentuðu og útgefnu kynningarefni, heimasíðu, léns, tölvupósts heimilisfanga og símanúmera. 2. Viðskiptasambanda og viðskiptavildar, þar með talin vörumerkin Island DMC, Destination Iceland, Safaríferðir, Come 2 Iceland og Íslenskar ævintýraferðir. 3. Ráðningarsamninga við starfsfólk samkvæmt kjarasamningum. Kaupanda er ekki skylt að endurráða starfandi framkvæmdastjóra eða annað starfsfólk, sem ekki vill sætta sig við að semja við kaupanda um áframhaldandi eða breytt störf á nýjum kjörum. Kaupandi áskilur sér rétt til að hafna yfirtöku ákveðinna ráðningarsamninga með öllu eða eiga kröfu á seljanda á þeim mismun sem kann að myndast á milli gildandi starfssamninga og þeirra sem hann gerir í tengslum við rekstrarlega endurskipulagningu starfseminnar. 4. Áhöld, tæki og innréttingar samkvæmt lista, sem unninn verður af aðilum…“ Í 3. grein samningsins segir að seljandi skuli reyna að tryggja að viðskiptavild flytjist til kaupanda.

Í forsendum dóms Hæstaréttar segir að í lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002 séu reglur sem svari til ákvæða tilskipunar nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar. Í 2. gr. laganna eru orðskýringar og í 4. tölulið greinarinnar segir að með aðilaskiptum sé átt við aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um sé að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Í athugasemdum með lagafrumvarpinu segir að í ljósi fordæmis Evrópudómstólsins verði við mat á því hvort aðilaskipti falli undir gildissvið fyrrnefndrar tilskipunar meðal annars að líta til hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld, hvert sé verðmæti óhlutbundinna verðmæta þegar aðilaskipti fara fram, hvort meiri hluti starfsmanna flytjist til hins nýja vinnuveitanda og hvort framsalshafi haldi viðskiptavinum framseljanda. Þegar framangreind ákvæði kaupsamnings áfrýjanda og Ísland DMC ehf. eru skoðuð í ljósi þessara  viðmiðana sé ótvírætt að með honum hafi  orðið aðilaskipti að rekstrinum í merkingu laga nr. 72/2002.

Í Hrd. nr. 313/2005 var tekist á um rétt starfsmanns til launa í uppsagnarfresti hjá nýjum atvinnurekanda. Dregið hafði mjög úr umfangi í starfsemi fyrirtækis á þeim tíma þegar tiltekinn starfsmaður þess fluttist á launaskrá hins nýja atvinnurekanda. Það lá hins vegar fyrir að starfsemi tengd þeim rekstri sem eftir stóð fluttist í heild sinni yfir til hins nýja atvinnurekanda, sem og þjónusta við alla þáverandi viðskiptavini fyrri rekstraraðila. Þegar þessi atvik voru metin í heild var talið að þegar hinn nýi atvinnurekandi yfirtók umrætt verk hafi orðið aðilaskipti að efnahagslegri einingu sem hafi haldið einkennum sínum í merkingu laga nr. 72/2002. Samkvæmt því gat hlutaðeigandi starfsmaður beint kröfum sínum um greiðslu launa í uppsagnarfresti að hinum nýju atvinnurekanda, en hann átti rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Í Hrd. nr. 375/2004 gerði Blaðamannafélag Íslands fyrir hönd félagsmanns kröfu um greiðslu vangoldinna launa á hendur Frétt ehf. vegna starfa hans á Fréttablaðinu. Umræddur blaðamaður hóf störf hjá blaðinu um mánaðarmótin apríl/maí 2001. Útgefandi var þá Fréttablaðið ehf. Það félag rataði í mikla rekstrarerfiðleika um mitt ár 2002, sem leiddi til þess að laun blaðamanna og annarra starfsmanna voru ekki greidd. Vanskil þessi urðu til þess að blaðamenn lögðu niður vinnu 24. júní 2002. Samkomulag varð þó um að blaðið kæmi út daginn eftir, en síðan hætti Fréttablaðið ehf. að gefa blaðið út. Með kaupsamningi þann dag keyptu tveir einstaklingar rekstur blaðsins, nafn, aðstöðu, vélar, tæki og fleira, í umboði óstofnaðs hlutafélags, sem síðar varð Frétt ehf., fyrir 15.000.000 krónur. Kaupverðið skyldi efna með greiðslu launa blaðbera Fréttablaðsins allt að sömu fjárhæð, en mismunur ganga til seljanda. Sérstaklega var tekið fram að kaupandi yfirtæki ekki aðrar skuldir eða kvaðir en sem beinlínis væru tilgreindar í samningnum, þar með ekki ógreidd laun starfsmanna, skatta og gjöld Fréttablaðsins ehf. Sérstakur afhendingardagur var ekki tiltekinn í samningnum, en hann var gerður með þeim fyrirvara að kaupendur hefðu frest til 3. júlí til þess að sannreyna, hvort þeim tækist að semja um prentun blaðsins og ljúka fjármögnun kaupanna. Umræddur blaðamaður gerði ráðningarsamning við Frétt ehf. 8. júlí og Fréttablaðið kom fyrst út á vegum þess 12. júlí 2002.  Fréttablaðið ehf. var hins vegar úrskurðað gjaldþrota 22. nóvember 2002 og lýstu blaðamenn kröfum sínum í þrotabúið. Einnig settu þeir fram greiðslukröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota um sama efni. Sjóðurinn hafnaði kröfu blaðamannanna með vísun til þess að beina ætti kröfum þeirra að Frétt ehf. og var af sjóðsins hálfu vitnað til 1. gr. laganna og 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Skiptastjóri í þrotabúi Fréttablaðsins ehf. neitaði jafnframt að samþykkja sölu reksturs Fréttablaðsins til Fréttar ehf. og hótaði að láta reyna á riftun kaupsamningsins. Samkomulag náðist við skiptastjórann 14. janúar 2003 þess efnis að kaupverðið yrði hækkað í 25.000.000 krónur og héldi kaupsamningurinn fullu gildi sínu og var riftun hans afturkölluð. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að þegar efni kaupsamningsins frá því í júní 2002 væri virt heildstætt yrði að líta til þess að tilgangur kaupanna hefði verið að halda áfram útgáfu Fréttablaðsins. Í 1. tölublaði þess eftir eigendaskiptin sagði að það hæfi göngu sína að nýju eftir tveggja vikna hlé. Nýtt útgáfufélag byggði á reynslu starfsmanna og stuðningi sem lesendur og auglýsendur hefðu sýnt blaðinu. Flestir starfsmanna hefðu áður unnið fyrir Fréttablaðið og margir þeirra frá upphafi. Með framangreint í huga þótti Hæstarétti fullljóst að um aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002 hefði verið að ræða.

Í dómi Hæstaréttar nr. 344/2004 var fjallað sérstaklega um hugtakið aðilaskipti og segir að það sem framselt sé, þurfi að vera varanleg efnahagsleg eining, sem skipulögð sé til að hafa með höndum starfsemi í ákveðnum tilgangi og takmarkist ekki við framkvæmd eins tiltekins verkefnis. Þessi eining þurfi við framsal að halda einkennum sínum, en við mat á því verði að líta heildstætt til þess hverrar tegundar fyrirtæki sé, hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld, hvers virði óhlutbundin verðmæti séu við framsalið, hvort meirihluti starfsmanna flytjist til nýja vinnuveitandans og hvort framsalshafi haldi viðskiptatengslum framseljanda. Má hér einnig líta til þess að í 4. tölulið 2. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sem leystu lög nr. 77/1993 af hólmi, segir að hugtak þetta merki þar „aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi.”

Haraldur Böðvarsson hf. tilkynnti í júní 2000 um hugsanlegar hópuppsagnir starfsmanna vegna skipulagsbreytinga í fiskvinnslu- og þjónustudeild félagsins á Akranesi. Sagði í tilkynningunni að ákveðið hefði verið meðal annars að fela sjálfstæðu löndunarfélagi að annast löndun úr fiskiskipum Haraldar Böðvarssonar hf., svo og að hætta vinnslu á saltfiskmarningi í þeirri mynd, sem hún hafi verið. Yrði sautján starfsmönnum sagt upp af þessum sökum, en tekið var fram að hluti þeirra ætti kost á að fá störf hjá félaginu, sem tæki að sér löndunarvinnu. Í samræmi við þetta var Björgólfi Einarssyni sagt upp störfum 28. sama mánaðar, en hann hafði þá verið í föstu starfi hjá félaginu frá árinu 1986, meðal annars við löndun úr skipum þess. Fyrir lá að uppsagnarfrestur hans var fjórir mánuðir miðað við mánaðamót og var frestinum því lokið 1. desember 2000.

Djúpiklettur tók ekki í ágúst 2000 við starfsemi þessarar deildar innan Haraldar Böðvarssonar hf., heldur afmörkuðum þætti starfseminnar, sem virðist áður hafa verið sinnt af hluta starfsmanna deildarinnar með öðrum störfum. Að mati Hæstaréttar varð því ekki séð að það fyrirtæki hefði tekið við varanlegri efnahagslegri einingu úr hendi Haraldar Böðvarssonar hf. til að halda áfram rekstri hennar á sama eða svipaðan hátt og áður. Auk þess lá ekkert fyrir um að Djúpiklettur hefði fengið áþreifanleg eða óhlutbundin verðmæti framseld frá Haraldi Böðvarssyni hf. þegar það tók við löndun úr skipum félagsins. Aðeins einn úr hópi starfsmanna Haraldar Böðvarssonar ehf. réði sig til starfa hjá Djúpaklett. Þá var bent á að Djúpiklettur hafði á árinu 2000 sinnt sambærilegum verkefnum fyrir útgerðarfélög annars staðar á landinu um nokkurra ára skeið og gerði það áfram, en ekkert var fram komið um að það hefði í tengslum við þetta tekið upp frekari starfsemi á Akranesi en þá, sem um ræddi í málinu. Að þessu öllu virtu voru að mati Hæstaréttar ekki skilyrði til að fallast á að ákvæði laga nr. 77/1993 hafi tekið til þeirra breytinga, sem urðu á starfsemi Haraldar Böðvarssonar hf. þegar Djúpiklettur tók að sér að sjá um löndun úr skipum félagsins. Varð því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að stofnað hafi verið til nýs og sjálfstæðs réttarsambands þegar Björgólfur hóf störf hjá Djúpaklett.

Í Hrd. nr. 435/2002 var deilt um hvort yfirtaka Austurleiðar hf. á farmiðasölu og pakkaafgreiðslu, sem Kaffi Bistró ehf. hafði annast fyrir það samkvæmt sérstökum samningi þar um, hefði falið í sér aðilaskipti í skilningi þágildandi laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hvort því hafi á þeim grundvelli borið að greiða fyrrum starfsmanni Kaffi Bistró ehf., þriggja mánaða laun á uppsagnarfresti. Tekið var fram að þjónusta sú sem Austurleið hf. tók að sér hefði verið afmarkaður þáttur í rekstri Kaffi Bistró ehf. Hún hefði ekki verið innt af hendi af starfsmönnum, sem sinntu henni eingöngu, heldur hefði hún verið samofin veitingarekstri þess. Gat þessi þjónusta því ekki talist hafa verið efnahagsleg eining, sem haldið hefði sérkennum sínum þegar Austurleið hf. tók sjálft við henni vegna vanskila viðsemjanda síns og sinnti henni á sama stað, en hún var óhjákvæmilegur þáttur í starfsemi þess sjálfs. Með vísan til orðalags laga nr. 77/1993 og athugasemda í greinargerð með frumvarpi til þeirra yrði því að telja að uppsögn Austurleiðar hf. á samningum við Kaffi Bistró ehf. og yfirtaka hans á þjónustunni hefði ekki falið í sér aðilaskipti í skilningi laganna. Austurleið hf. tók því ekki við ráðningarsamningi starfsmannsins við Kaffi Bistró ehf. og hélt hún ekki rétti til þriggja mánaða uppsagnarfrests hjá honum. Var Austurleið hf. því sýknað af kröfu R.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn