Upplýsingar
Atvinnurekanda ber samkvæmt lögunum að gefa fulltrúum starfsmanna, eða starfsmönnum sjálfum séu trúnaðarmenn ekki fyrir hendi, upplýsingar um eftirfarandi atriði:
- dagsetningu aðilaskiptanna eða fyrirhugaða dagsetningu þeirra,
- ástæður sem liggja til grundvallar aðilaskiptum,
- lagaleg, efnahagsleg og félagsleg áhrif aðilaskiptanna fyrir starfsmenn, og
- hvort ráðstafanir séu fyrirhugaðar vegna starfsmanna.
Atvinnurekanda ber að veita framangreindar upplýsingar með góðum fyrirvaraáður en aðilaskiptin koma til framkvæmda. Með góðum fyrirvara er átt við að hann sé nógu góður til þess að starfsmenn geti metið þær upplýsingar sem atvinnurekandi afhendir og leitað sér nauðsynlegrar aðstoðar ef svo ber undir.
Samráð
Lögin leggja ekki sérstaka samráðsskyldu á atvinnurekanda, líkt og gert er samkvæmt lögum um hópuppsagnir. Atvinnurekanda nægir því í raun að afhenda fulltrúum starfsmanna framangreindar upplýsingar og þarf aðeins að gæta þess að þær séu látnar þeim í té með góðum fyrirvara.
Ef atvinnurekandi, hvort sem í hlut á sá sem framselur atvinnureksturinn eða sá sem við honum tekur, hyggst hins vegar gera ráðstafanir vegna starfsmanna sinna, ber honum skylda að hafa samráð um þær með góðum fyrirvara við trúnaðarmenn starfsmanna með það að markmiði að ná samkomulagi um efni þeirra ráðstafana.
Hópuppsagnir
Ef atvinnurekandi áformar uppsagnir starfsmanna í tengslum við aðilaskiptin, í þeim mæli að þær falli undir gildissvið laga um hópuppsagnir nr. 63/2000, ber honum skylda að hafa samráð við fulltrúa starfsmanna. Minnt er á að atvinnurekendum er almennt óheimilt að segja upp starfsmönnum sínum við þessar aðstæður, þ.e. ef ástæðan er einungis sú að aðilaskipti (sala, leiga eða annað framsal) að atvinnurekstri eru yfirvofandi, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.