VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Málsmeðferð

Málsmeðferð fyrir Félagsdómi fer að miklu leyti eftir einkamálalögum, svo sem segir í 69. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Þar segir að fara skuli eftir hliðsjón af meðferð einkamála í héraði svo sem við verði komið.  Sjá nánar lög um meðferð einkamála nr. 91/1991. Víða í lögum 80/1938 er vitnað til hinnar almennu málsmeðferðar, til dæmis í 58. gr. , 59. gr. og 60. gr. Meðferðin er þó frábrugðin í nokkrum atriðum, einkum að því er lítur að hraða á málsmeðferð.

Rík rannsóknarskylda

Ríkari rannsóknarskylda hvílir á dómendum í félagsdómi en í hinum almennu einkamáladómstólum, sbr. 56. gr. laganna.

Eitt dómstig

Félagsdómur er eins stigs dómstóll og er málsskot til æðra dóms ekki leyfilegt nema í undantekningartilvikum. Samkvæmt 67. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur segir að úrskurðir og dómar Félagsdóms séu endanlegir og verði ekki áfrýjað. Þó megi innan viku frá dómsuppsögn eða úrskurði kæra til Hæstaréttar:

  1. Frávísunardóm eða úrskurð um frávísun.  
  2. Dómi til ónýtingar, sökum þess að málið heyri ekki undir Félagsdóm.  
  3. Úrskurð um skyldu til að bera vitni, um eiðvinning og réttarfarssektir skv. 60. og 63. gr. 
  4. Ákvörðun um að gera aðila að greiða sektir skv. 65. gr.

Hafi efnisdómur verið upp kveðinn er hann endanleg niðurstaða máls.

Útgáfa stefnu

Samkvæmt 50. gr. laganna gefur formaður út stefnur í nafni dómsins. Auk nafna aðila og heimilisfanga, skal gefa í stefnu ítarlega frásögn af málavöxtum og kröfur stefnanda. Ennfremur skal stefnandi eftir því sem frekast verður unnt gera grein fyrir með hvaða hætti hann hyggst sanna staðhæfingar sínar og kröfur.

Hraði í málsmeðferð

Í 1. mgr. 51. gr. er fjallað um hina hröðu málsmeðferð, en þar segir að formaður ákveði stefnufrest með hliðsjón af því með hve stuttum fyrirvara stefndur geti mætt á dómþingi og er hér brugðið út af ákvæðum einkamálalaga um stefnufresti. Oft eru þó stefnur birtar gagnaðilum sem falla frá stefnufresti með áritun á stefnuna þar um. Um birtingu stefnu fer að öðru leyti eftir almennum reglum.

Munnlegur málflutningur

Mál eru flutt munnlega í Félagsdómi. Þó er heimild til skriflegs málflutnings undir ákveðnum kringumstæðum samkvæmt 52. gr. laganna, 1. ef stefndi hvorki mætir né lætur mæta, 2. ef málsaðilar eða umboðsmenn þeirra óska og dómurinn álítur að mál upplýsist betur með þeim hætti. Dæmi er um að mál hafi verið flutt skriflega fyrir dóminum, sjá Félagsdóm 2/1940 (I:52).

Stefndi getur komið fram gagnkröfu án þess að höfða þurfi gagnsóknarmál samanber 53. gr. Hér er um frávik á einkamálalögunum að ræða, þar sem höfða verður gagnsóknarmál, ef gera á gagnkröfur aðrar en þær sem stefnandi samþykkir og um skuldajöfnuð.

Dómurinn getur tekið ákvörðun um að fresta máli, ef nauðsyn þykir til og til að mál megi betur upplýsast, en þó ber að gæta þess að mál tefjist ekki að óþörfu, samanber 54. gr. laga nr. 80/1938.

Vitnaleiðslur

Heimilt er að stefna vitnum fyrir Félagsdóm og eiðfestir dómurinn vitni samkvæmt gildandi lögum og eins og áður er um getið kveður 56. gr. laganna á um að dómurinn sjái um að mál upplýsist sem best og geti krafið aðila um skýrslu ef hann álítur það nauðsynlegt til að upplýsa málið. Heimildin í 56. gr. hefur oft verið notuð, samanber Félagsdóma 4/1939 (I:42), 5/1944 (II:142),12/1944 (II:145), 9/1949 (III:53), 13/1948 (III:70), 12/1949 (III:106), 8/1950 (III:120), 8/1956 (IV:182), 1/1957 (IV:187), 4/1962(V:60), 10/1962 (V:103) og 2/1964 (V:166). Í Félagsdómi 6/1968 (VI:128) leitaði dómurinn sérfræðiálits tveggja verkfræðinga með stoð í 56. gr.

Félagsdómur getur framkvæmt skoðunar- og matsgerðir, og ennfremur tilnefnt skoðunar- og matsmenn til að framkvæma þær, samanber 59. gr. laganna.

Atkvæðagreiðsla

Í dóminum ræður afl atkvæða og ef atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns. Samkvæmt þessu geta dómendur skipaðir af Hæstarétti ásamt dómara skipuðum af félagsmálaráðherra myndað meirihluta í dóminum.

Ekki verður séð að miklar deilur hafi risið í dóminum milli aðila um afgreiðslu einstakra mála og aðeins einu sinni hafa dómendur skipaðir af aðildarsamtökum vinnumarkaðarins greitt sameiginlega sératkvæði. Sjá Félagsdóm 2/1939 (I:6).

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn